Áfram Nýja-Ísland

Það má með sanni segja að skrattinn sér um sína.

Nú á að troða aflóga stjórnmálamanni og ríkisspenatottara í stjórnarformennsku Íslandsbankans, sem er jú ofur eðlilegt. Maðurinn er með flokkskírteinið í lagi og það má ekki styggja "Big  brother." Svo er líka eftir feitum bita að slægjast, hálf milljón á mán. fyrir fundarsetuna. Við förum örugglega rétt að þessum málum því eins og alheimur veit þá erum vér Íslendingar gáfaðastir, fallegastir og stórastir að ógleymdu fjármálavitinu.

Friðrik Sophusson skildi eftir sig kolaða jörð þegar hann yfirgaf Landsvirkjunina eftir ellefu ára starf  sem  forstjóri. Enda er staðan þar slæm.

Býsna slæm.

Hvað skyldi annars hafa orðið af öllu hámenntaða og hæfileikaríka fólkinu sem fjármálaráðherra hefur stundum minnst á?

Skyldi sá hópur kannski hafa flúið kynslóðagamla spillinguna hérlendis?

Sökum skorts á heimildum vil ég ekki taka svo djúpt í árinni að tala um aldagamla spillingu.

Kæmi mér ekki á óvart þó DO settist aftur í stólinn í Seðlabankanum sem að vísu hefði í för með sér smávandamál.

Hvar eiga hinir flokkarnir að troða sínum Snötum inn?

Það sætir furðu að stjórnmálamenn okkar, sem enn  hafa ekki komist að samkomulagi um afgreiðslu Icesave skuli svo þegja þunnu hljóði þegar verið er að hygla gömlum flokksgæðingum.

Að öllum líkindum vegna væntanlegrar fækkunar sendiherranna. Þá verða menn að leita fyrir sér á öðrum vígstöðvum.

Enn og aftur hefur birtingu bankahrunsskýrslunnar verið frestað. Undir niðri ólga reiðin og vonbrigðin í samfélaginu. Ég kvíði þeirri stund þegar þessar tilfinningar ryðja sér farveg upp á yfirborðið.

Og eins og endranær óska ég hinu nýja og "óspillta" Íslandi sem lengstra lífdaga.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Friðrik Sophusson formaður ÍSB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt er skrýtið í kýrhausnum.

Það kennir margra grasa í fréttaflórunni þessa dagana og ekki er allt jákvætt, frekar en fyrri daginn.

Reyndar er lítið rætt og ritað um kúlulánþega og þess háttar óþjóðalýð, burtséð frá smáfrétt er snertir forstjóra Bankasýslu ríkisins, sem mér er til efs að nokkur maður kippi sér upp við. Ekki eftir allt sem á undan er gengið.

Nú er hins vegar komið á daginn að núverandi yfirmaður Landsbankans í London, Baldvin Valtýsson, stýrði bankanum einnig fyrir hrun. Svo vitnað sé í DV. þá vill Baldvin ekki gefa upp hver laun hans eru en fullyrða má að þau nemi tugum milljóna á ári.

Niðurlag fréttarinnar vakti óskipta athygli mína en þar segir " Þeim mun hærri laun sem starfsmenn gamla Landsbankans fá, þeim mun hærri upphæð munu íslenskir skattgreiðendur þurfa að greiða upp í Icesave-skuldirnar."

Í framhaldi af þessu rifjast upp fyrir mér orð fjármálaráðherra þegar hann lýsti því yfir að hverju sandkorni yrði velt við til að uppræta spillinguna og eitthvað var minnst á gagnsæi og heiðarleika.

Svo kemur að "bókhaldsóreiðu" Björgólfsfeðga. Álíka skynsamlega orðað og þegar niðurskurður hins opinbera, með tilheyrandi uppsögnum þeirra lægst launuðu ( samanber Landsspítalinn ), nefnist hagræðing.

"Þær skýringar sem stjórn Samsonar, sem var skipuð Björgólfi Guðmundssyni, Sigþóri Sigmarssyni og Ágústi Leóssyni, gefur er að fjármálastjóri Samsonar hafi glímt við veikindi og því hafi bókhaldið ekki verið í lagi."

Ég vona svo sannarlega að áðurnefndur fjármálastjóri sé búinn að ná sér af veikindum sínum sem hljóta að hafa verið alvarleg því meðal annars finnast ekki samningar vegna lána til fjögurra aflandsfélaga á Tortóla upp á 800 milljónir króna.

Svínaflensan?

Svo að lokum, og þetta verður að fá að fljóta með!

Sigmundur Davíð kom víða við á hádegisfundi með félögum sínum í Reykjavík, sem haldinn var á Hótel Borg. Eins og honum er einum lagið. Hann furðaði sig á því að ekki hefði verið hlustað á framsóknarmenn varðandi Icesave málið.

Hann talar um stjórnarþingmenn sem ekki vildu þiggja "utanaðkomandi aðstoð" jafnvel þótt hagsmunir þjóðarinnar væru í húfi.

Ætlar drengstaulinn aldrei að átta sig á því að hann verður sér til skammar í hvert skipti sem hann opnar munninn á opinberum vettvangi?

Þann 13. okt. og aftur þann 20.okt. sl. bloggaði ég um þá félaga og flokksbræður Höskuld og Sigmund Davíð er þeir lögðust í (útrásar)víking og herjuðu á Noreg í þeim tilgangi að slá smá lán (tvö þúsund milljarða),svona rétt út á fésið sér.

Það þarf vart að taka fram að sú ferð var ekki farin til fjár.

Skömmu áður hafði Sigmundur garmurinn haft hátt um sig í þinginu - eins og svo oft áður - og sagði meðal annars " Þjóðin er fyrst og fremst í skuldakreppu, af hverju er þá verið að auka skuldirnar?"

Góð spurning Sigmundur.

Svo er drengurinn hissa á því að enginn vilji hlusta á hann.Angry

Nóg er komið að svo stöddu. Nú eru það heimaverkefnin sem bíða mín. Í þessum áfanga er það lögfræði. Ég heillaðist gjörsamlega. Þar fyrir utan blasa lögbrotin sem framin hafa verið, í hérumbil hverri einustu grein.

Og enn ganga menn lausir.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Gleðilegt ár.

skjahvila3 Ég óska öllum vinum mínum nær og fjær og einnig öllu því góða fólki sem ég hef kynnst í gegnum netið gleðilegs nýs árs með þeirri von  að nú fari loksins að birta til.

Með nýárskveðjum.

Þ. Jökull

PS. Myndin er stolin. Sorry Júlli.


Af gagnsæi og heiðarleika.

Ég fylgdist með umræðum á Alþingi í dag og hugsaði sitt af hverju  meðan á ósköpunum stóð.

Ég veit að hægt er að senda hunda á svokölluð hlýðninámskeið og í framhaldi af því datt mér í hug hvort ekki væri hægt að senda háttvirta þingmenn á námskeið þar sem þeir gætu lært sona sitt lítið af hverju um rökræður, rökstuðning, rökfærslur og guð má vita hvað, í stað þess að haga sér eins og ungar í sandkassaleik þegar slettst hefur upp á vinskapinn.

Ég skemmti mér reyndar ljómandi vel og bíð eftir sendingu morgundagsins.

Svo að öðru.

Nú er Jón garmurinn Sigurðsson kominn í Íslandsbanka en eins og alþjóð er kunnugt þá hætti hann snögglega hjá Fjármálaeftirlitinu korteri eftir hrun. Varla að ástæðulausu.

Það læðist að mér sú hugsun að hér sé nú ekki allt í samræmi við yfirlýsingar fjármálaráðherra þar sem komið er inn á gagnsæi og heiðarleika.

Eftir allt sem á undan er gengið kæmi mér ekki á óvart að stórfrétt nýja ársins yrði sú að Már seðlabankastjóri yrði látinn taka pokann sinn, fengi sjálfsagt sendiherrastöðu í Langtbortistan, það eru jú vinnureglurnar hjá ríksstjórnum, þar sem hann yrði engum til trafala.

Nýji seðlabankastjórinn yrði svo Davíð Oddsson sem kæmi inn sterkari en nokkru sinni fyrr.

Það eru töggur í Dabba kallinum.

Þetta er reyndar lýsandi dæmi fyrir vinnubrögð ríkisstjórna Íslands, sama úr hvaða væng stjórnmála þær koma. Að hygla vinum og vandamönnum, jú og flokkssystkinum, er mynstur sem seint eða aldrei kemur til með að breytast.

Burtséð frá þessum hefðbundnu leiðindafréttum og Icesave umræðunum sem halda áfram og áfram og...., þá hafa jólin hjá mér verið sannkallaður gleðigjafi. Við feðgarnir áttum einstaklega skemmtilegar samræður á jóladag. Það er helst á stórhátíðum sem ég læt eftir mér að nota símann svona hressilega.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og batnandi tíðar.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


Gleðileg jól.

skjahvila2

 

Ég óska öllum (blogg) vinum og vandamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Bestu kveðjur.

Þ. Jökull


Hugleiðingar að kvöldi dags.

Ég fylgdist með viðtalinu við Evu Joly í gær. Í framhaldi af því rifjaðist upp fyrir mér sú unaðstilfinning sem ég upplifði þegar hún rassskellti íslensku ríkisstjórnina í beinni útsendingu á sínum tíma.

Þá fyrst komst skriður á málin og enn skýtur hún föstum skotum.

Hún telur fullkomlega eðlilegt að kyrrsetja eigur manna og úrskurða þá í farbann meðan verið sé að rannsaka hugsanleg brot þeirra.

Hún segir líka fulla ástæðu til að spyrja hvort eðlilegt sé að Björgólfur Thor Björgólfsson komi að nýjum fjárfestingum í atvinnulífinu meðan enn sé verið að rannsaka bankahrunið.

Nú vona ég að þessar ábendingar hennar verði teknar til greina af viðkomandi aðilum því þetta eru jú skýr skilaboð.

Ljósið í svartasta skammdeginu eru orð hennar um að Íslendingar megi vænta tíðinda úr búðum sérstaks saksóknara innan skamms.

 Ég fékk svo fallega jólakveðju úr Danaveldi og myndabunka með. Valdi náttúrlega þá sem mér fannst fallegust og ekki spillir daman fyrir.12847_202563914939_712829939_2868572_1251107_n

Pjakkurinn minn er reyndar ekki pjakkur lengur, ekkert smá sem hann loksins hefur stækkað.Smile

Ég klóra mér bara í gránandi kollinum og skil ekkert í því hvað tíminn líður allt í einu hratt, en þetta er jú víst gangur lífsins.

Ég sakna þess að geta ekki eytt jólunum með honum en nú er bara að stefna á sumarfríið í staðinn.

Enn og aftur bið ég þess að nú fari að rætast úr fyrir okkur Íslendingum og réttlætið nái að sigra.

Þar til næst.

 

 

 

 


Heiðarleiki og hugsjón ofar öllu?

Ég hef ekki bloggað í fimm daga, hef setið með sveittan skallann yfir upprifjun á námsefni annarinnar og í dag tók ég svo lokaprófið, þriggja tíma törn, komst stórslysalaust frá því þannig að nú get ég haldið uppteknum hætti þ. e. að rífa kjaft á blogginu.

Mér varð um og ó þegar ég las fréttir síðustu daga. Þar ber hæst himinháar kröfur nokkurra kúlulánþega sem allir (öll) eiga það sameiginlegt að sitja í lykilstöðum í nýju bönkunum.

Svo ég vitni í DV þá eiga margir af núverandi framkvæmdastjórum Íslandsbanka háar launakröfur í þrotabú gamla Glitnis. Þrír þeirra fengu samtals 2.400 milljóna króna kúlulán til hlutabréfakaupa í Glitni í maí 2008.

Ekki beinlínis vasapeningar.

Talan er um litlar 800 millur per kjaft.

Mér blöskrar siðblindan og þessi taumlausa auragræðgi sem virðist hrjá þetta vesalings fólk. Augljóslega þekkir það ekki sinn vitjunartíma. Það verður fróðlegt að sjá á hvaða grunni þessar ólánssömu manneskjur byggja kröfur sínar.

Ég hélt í einfeldni minni að eftir allt sem á undan hefur gengið yrði nú stokkað hressilega upp og gagnsæið yrði allsráðandi. Ónefndur fjármálaráðherra lofaði okkur því að "hverju sandkorni yrði velt við til að uppræta spillinguna."

Ég bíð eftir efndunum.

Áfram með smjörið því úr nógu er að moða.

Nú rannsakar sérstakur saksóknari kaup huldumannsins Sjeiks Al-Thani  á hlutabréfum í Gamla Kaupþingi og þrjú önnur mál sem eitt stórfellt samsæri um markaðsmisnotkun forráðamanna bankans.

Mér hlýnar um gömlu slitnu hjartaræturnar þegar ég les frétt sem þessa. Sérstakur saksóknari er ásamt sínu starfsfólki greinilega að vinna verk sitt, og það vel.

Skyldi ekki jörðin vera farin að volgna undir fótum einhverra?

Svo er hér að lokum (einhversstaðar verða menn að stoppa) frétt frá ríkisendurskoðanda þar sem hann segir að meira tjón hljótist af tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans en Icesave, verði heimtur Landsbankans eins og spáð er. Fram kemur í fréttinni að  51 milljarður króna sé með trygg veð en verðmæti annarra lána er óljóst.

Hvers er ábyrgðin?

Nú sem endranær bið ég góðan Guð að halda verndarhendi sinni yfir okkur, styrkja okkur og leiðbeina í baráttunni við spillinguna og allt sem henni fylgir.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


Vonandi fer eitthvað að gerast.

Var að lesa frétt í Vísi sem yljaði mér.

Starfsmenn sérstaks saksóknara eru loksins komnir á fullt. Nú er setið fyrir fólki út um allan bæ og það fært til yfirheyrslu.

Ekki fara sögur af því hvort áðurnefndir starfsmenn hafi þurft að bregða böndum á mannskapinn en okkur hljóta að berast nánari fréttir af þessum aðgerðum síðar.

Segið svo að ekkert sé að gerast.

Ég velti því stundum hver staðan væri í dag ef Eva Joly hefði ekki komið til sögunnar.

Nóg um það að sinni því nú ætla ég að snúa mér að allt öðru.

Kunningi minn hringdi í mig og fáraðist yfir snjóskaflinum við húsið mitt, það væri ekki séns að kíkja í kaffi. Eðlilega, snjórinn náði upp yfir miðjuna á útidyrunum en nú er ég búinn að moka mig út.

Ekki seinna vænna, ég var orðinn tóbakslaus.

Annars er allt gott að frétta héðan af "nesinu."

Með bestu kveðju og lifi hið óspillta "Nýja-Ísland" og þar til næst.

 

 

 


Þar kom að því.

Það er ekki oft sem ég er sammála stjórnarandstöðunni en nú styð ég þau heilshugar.

Tillaga þeirra um að vísa Icesave bullinu frá Alþingi  og til ríkisstjórnar, þaðan til Evrópudómstólsins er það skynsamlegasta sem ég hef heyrt .

En mikið ósköp hefur það tekið langan tíma.

Skuldaskömmin má skrifast á tiltölulega fámennan hóp, talað er um 30 manns, sem einhverra hluta vegna hafa yfirgefið landið og rokka nú feitt erlendis.

Á hvers kostnað ?

Mér finnst ákaflega undarlegt þegar menn taka upp á því að flytja um miðja nótt, og ég velti fyrir mér hvað kunni að búa á bakvið.

Ég bíð óþreyjufullur eftir þeirri stund þegar þessir menn standa í dómssalnum. Sennilega gerist ekkert fyrr en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis liggur fyrir þann 1. febrúar. 

Það er hægt að fela margt á þeim tíma, en nú reyni ég að vera jákvæður og trúa á gagnsæið og heiðarleikann og að "velt verði við hverju einasta sandkorni til að komast fyrir spillinguna."

Þetta er það sem okkur var lofað.

Nú reynir á efndirnar.

Og sem endranær, lifi hið óspillta og gagnsæja Nýja- Ísland.

Þar til næst.

P.S. Væri ekki tilvalið að við tækjum bankana okkur til fyrirmyndar þ. e. þeir sem skipta um nafn oftar en ég skipti um nærbrækur (er nú samt talinn snyrtilegur maður), og breytum nafninu á landinu okkar í Nýja-Ísland?

 

 

 

 


mbl.is Ísland stefnir í greiðsluþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maddömur og fleira fólk.

Stundum rek ég augun í frétt sem fangar athygli mína óskipta.

Í þetta skiptið er um að ræða frétt/fréttir á því ágæta riti visir.is.

Nú ætla ég ekki að fetta fingur út í smá málfræðivillur eða einhverjar ambögur sem oftar en ekki virðast fylgja þeim Vísis mönnum.

Alls ekki.

Það er hollt að hlæja.

En, nú er það semsagt hin svokallaða "Miðbaugsmaddama" sem dæmd hefur verið fyrir að reka pútnahús.

So what?

Er þetta nokkuð annað en sjálfsbjargarviðleitni?

Svo ekki sé minnst á þá þjónustu sem áðurnefnd "hús" veita atvinnulausum ,örmagna, útslitnum og í stöku tilfellum blönkum" heimilisfeðrum" (einhversstaðar eiga þeir jú heima), að ógleymdum þeim sem vilja hvíla sig frá dagsins önn.

Fjandans vesen hjá stelpu sem var á góðri leið með að byggja upp gott "sprota"fyrirtæki að fara svo að sulla með eiturlyf.

Eins og ég hef alltaf sagt: Það fer ekki saman að reka útgerð og fjárfestingarfélag.

En lífsbjörgin er á næsta leiti þar sem hennar ágæti verjandi hefur lýst því yfir að öllum pakkanum verði áfrýjað til "Hæstaréttar," á þeim forsendum að þetta sé jú alltof þungur dómur.

Ég er honum svo hjartanlega sammála. Maður getur vel ímyndað sér örvæntingu viðskiptavinanna (það ku heita það í dag) ef bixið lokar.

Nei takk. Það gengur ekki.

Hins vegar mætti benda stjórnvöldum á að skattleggja "athafnasemina", það gæti skilað nokkrum þúsundköllum í gjaldþrota ríkiskassann í staðinn fyrir að velta öllu puðinu yfir á okkur sem borgum skatta, þ.e. öryrkjar, aldraðir og verkafólk.

Í hvert skipti sem ég heyri talað um gagnsæi læðast að mér ljótar hugsanir. Ég hef að öllum líkindum misskilið túlkun stjórnarliðins á þessu orði.

Ég var svo einfaldur að halda að gagnsæi þýddi að nú fengjum við óbreyttir að fylgjast með sem því er að ger(j)ast innandyra hjá stjórnarliðinu en það er augljóslega rangt.

Kolrangt.

Vonandi fer eitthvað að breytast nú þegar Kaup..úps, ég átti að sjálfsögðu við gamla Búnaðarbankann sem skipt hefur ham ,oftar en nöfnum tjáir að nefna, hefur fengið nýja eigendur.

Þá er bara að stefna á bjartsýnisverðlaunin og biðja þess að nú, loksins, takist að uppræta margra kynslóða gamla spillingu.

Lifi nýja og hérumbil óspillta landið okkar og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband