30.10.2009 | 05:07
Ég get ekki orða bundist.
Ég var að lesa færslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar þar sem hann fer mikinn og hefur Bjarna litla Ben til skýjanna.
Sosum engin furða. Bjarni pjakkurinn er jú fjallmyndarlegur og efnilegur strákur. Það hljóta allir að vera sammála um.
Hannes fer á kostum í þessum pistli sínum og kemur víða við.
Eins og hans er von og vísa.
Reyndar eru nokkur atriði í grein hans, bara örsmá, sem fengu mig til að leita lúsa.
Svo ég taki mér smá ( bara smá ) bessaleyfi og vitni í færslu hans þar sem hann segir:
" Þegar á reyndi, stóðu Norðurlandaþjóðirnar hjá í hvirfilbylnum, sem skall á Íslandi." Nú já.
Þetta hefur örugglega ekkert með þá óráðsíu og það stjórnleysi sem hér ríkti í stjórnartíð "Framsóknaríhaldsins að gera." Örugglega ekki.
Áfram æðir Hannes.
Nú skammar hann núverandi ráðamenn þjóðarinnar og ásakar þá um reynsluleysi og í onálag þá brigslar hann þeim um hugleysi og svo vitnað sé í hans eigin orð:
"ótta við einhverjar óskilgreindar afleiðingar af því að láta ekki undan Bretum og von um að þurfa aldrei að standa við þær skuldbindingar, sem þeir hafa lagt á Íslendinga."
Þá vitum við það.
Hér er smá klausa sem bókstaflega fékk litla hjartað í mér til að slá hraðar.
"Því miður tóku Jóhanna og Steingrímur ekki málstað Íslendinga upp á Norðurlandaráðsþinginu ólíkt Bjarna Benediktssyni."
Svo hugljúft. Svo hjartnæmt.
Það eru reyndar nokkur smáatriði í pistli Hannesar sem stungu í augun. Smáatriði sem komu mér á óvart því bæði er maðurinn vel gefinn og góður penni.
Hann fárast yfir aðgerðaleysi Norðurlandanna þegar við Íslendingar vorum búnir að kúka upp á axlir.
Hann gleymir grundvallaratriði allra viðskipta, sem er að standa í skilum.
Það gerðum við Íslendingar ekki!
Hann gleymir líka þeirri staðreynd að þegar allt var að fara til helvítis í okt. sl. þá voru það flokksbræður hans sem biðluðu til AGS.
Það er nú þetta með gullfiskaminnið. Í guðs bænum Hannes minn, hættu að hampa Bjarna litla Ben. Hann varð okkur öllum til skammar með þessum ræðustúf sínum. Vonandi á drengurinn eftir að þroskast og vitkast með árunum.
Þar fyrir utan finnst mér fjandi fúlt að geta ekki skellt eins og einni athugasemd inn á síðuna þína.
Nóg er komið að sinni, eigið góða helgi.
Þar til næst.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.10.2009 | 01:27
Falleg orð en innantóm.
Þegar ég hef í huga reynslu mína af almannatryggingakerfinu undanfarin ár þá verð ég, því miður, að lýsa yfir vantrausti á allt sem frá félagsmálaráðuneytinu kemur.
Ég minnist orða fulltrúa núverandi ríkisstjórnar þegar þau "dúettinn" sögðu að ekki yrði hróflað við öldruðum og öryrkjum.
Hverjar urðu svo efndirnar?
Hér er svo smá klausa sem bókstaflega fékk mig til að gnísta tönnum- af illsku, eða uppgjöf?
Nei. Ég gefst aldrei upp.
"Markmið umbreytinganna er að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu". Sanngirni?
"Hvetja til sparnaðar og aukinnar atvinnuþátttöku lífeyrisþega, einkum öryrkja". Sparnaðar?
"Þeim markmiðum er best talið náð með því að draga úr skerðingum." Skerðingum?
Getur virkilega verið að nú verði hætt að taka þessar krónur, sem ég fæ frá lífeyrissjóðnum, af örorkulífeyrinum?
Því trúi ég þegar ég sé það.
Annars hefur mín átta ára búseta á Íslandi kennt mér að þegar til kastanna kemur skiptir engu máli hvort það er hægri höndin, eða sú vinstri sem heldur um stjórnvölinn.
Á sama tíma og við öryrkjar, já og aldraðir, erum að fleyta þjóðarskútunni yfir hættulegustu grynningarnar, þá eru ráðherrar vorir að bruðla með almannafé.
Átta hundruð milljónir, það sem af er öldinni, út í buskann.
Bara frá bankahruninu hafa ráðherrar úthlutað rúmum 80 milljónum sem hluta af ráðstöfunarfé sínu, og það í verkefni sem koma málaflokkum ráðherranna ekkert við.
Sem sagt, á sama tíma og ég er að berjast við að halda húskofanum mínum ( byggður 1942 ), þá er verið að spreða almannafé í allar áttir eins og kvikmyndafyrirtæki hér, hundasýningar þar, kóræfingar, og hver veit hvað,að ógleymdum þeim beinum sem nokkrir ráðherranna hafa fleygt í hvoftinn á stuðningsmönnum sínum.
Er nokkur hissa þó mér sárni?
Ég er löngu búinn að fá upp í kok og hvað varð annars af gegnsæinu sem okkur var lofað?
Þar til næst.
![]() |
Almannatryggingakerfið stokkað upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2009 | 19:50
Er þetta það sem koma skal?
"Stjórn Glitnis sýknuð af kröfum Vilhjálms Bjarnasonar."
Það þarf ekki að velkjast í vafa um skilaboðin frá Hæstarétti.
"Vilhjálmur stefndi stjórn Glitnis vegna tillögu sem samþykkt var í stjórn bankans og veitti stjórninni heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu......Málið snertir starfslok Bjarna Ármannssonar hjá bankanum. Er bankinn sýknaður af stefnunni."
Þegar Bjarni Ármannsson er annars vegar undrar mig mest að ekki skuli fleiri hafa risið upp og stefnt Glitnis stjórninni.
Áðurnefndur Bjarni ,fyrrverandi forstjóri bankans, seldi bankanum hlutabréf á yfirverði, sem öðrum hluthöfum bankans bauðst ekki.
Hver skyldi svo skýringin vera?
Lögmaður Glitnis stjórnarinnar, Ólafur Eiríksson, segir að ákvörðun stjórnarinnar um hlutabréfakaupin hafi verið í samræmi við samþykkt hluthafafundar Glitnis frá febrúar 2007.
"Þessi heimild var aftur samþykkt í febrúar 2008, níu mánuðum eftir þessi viðskipti, segir Ólafur. Gott og vel. Þarna er komið inn á hluthafafund Glitnis.
Nú er mér hvorki kunnugt um hluthafa Glitnis á þessum tíma, né hverjir mættu á fundinn. en þess má geta að þann 1. okt. 2008 var Jón Ásgeir Jóhannesson, ásamt fjölskyldu sinni, skráður stærsti hluthafi í Glitni í gegnum ráðandi hluti í Stoðum.
Óþarfi að hafa fleiri orð um það.
Hæstiréttur fylgir löggjöf sem var orðin úrelt fyrir hálfu árhundraði. Löngu tímabært að uppfæra.
Á meðan ekkert gerist í þeim málum má búast við því að við horfum á hvern fjárglæframanninn á fætur öðrum sleppa með föðurlega áminningu og jafnvel herðaklapp.
Sulturinn sverfur að þeim fátæku í allsnægta, fyrirmyndar ríkinu Íslandi, á sama tíma og til eru menn sem telja það óábyrgt að greiða skuldir sínar.
Lengi lifi "Nýja Ísland."
Þar til næst.
![]() |
Skelfileg skilaboð frá Hæstarétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2009 | 14:12
Af komandi kynslóð o.fl.
Stöku sinnum rekst ég á frétt sem mér finnst svo fjarri veruleikanum að mér kemur helst í hug 1. apríl, nú eða þá að viðkomandi fréttaritari hafi verið fullur.
Allt getur reyndar gerst og þá sérstaklega á þessum síðustu, verstu og stundum furðulegu tímum sem við lifum á samanber eftirfarandi frétt sem ég las í Viðskiptablaðinu í dag.
"Dæmi eru um að Glitnir hafi veitt börnum há lán til stofnfjárkaupa í Byr sparisjóði. Tólf ára barn fékk slíkt lán upp á sex milljónir króna." Ég leyfi mér að vitna áfram í greinina.
"Frá stofnun Íslandsbanka hafi umræddar ( barna )lánveitingar Glitnis verið til skoðunar. Við þá athugun hafi komið í ljós að ekki lá fyrir samþykki yfirlögráðanda, þ.e.a.s. sýslumanns, til lántöku hinna ófjárráða barna."
Hafi ég nokkru sinni haft efasemdir, hvað snertir heilsufar fréttaritara að störfum, þá eru þær horfnar. Gætu reyndar skotið upp kollinum á öðrum vettvangi.
Skyldu háttvirtir fyrrverandi stjórnendur Glitnis kannski hafa farið í sandkassaleik við ungana?
Svo í aðra sálma því nú er spáð lækkun stýrivaxta eftir viku. Það yrði ekki amaleg jólagjöf til okkar allra ef þeir færu nú niður í eins stafs tölu fyrir jól.
Ég kíkti aðeins á greiningu lánshæfismats ríkissjóðs og virðist að þar séum við í góðum málum. Reyndar er þar ein ofurlítil setning sem ég er að velta fyrir mér.
"Erlend eignaraðild í bankakerfinu mun hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs."
Þarna er að sjálfsögðu verið að ræða aðkomu erlendra kröfuhafa að Nýja Kaupþingi.
Skyldi útrásarliðið standa einhversstaðar þarna á bakvið? Kæmi mér sosum ekki á óvart því ef fj......minkurinn er hrakinn upp í horn þá snýst hann til varnar.
Þar til næst.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2009 | 20:56
Nú er bara að vera jákvæður.
Jafn mikill andstæðingur AGS, Icesave, já og ESB aðildar ég er, verð ég að viðurkenna, í það minnsta fyrir sjálfum mér, að við áttum engra kosta völ.
Við Íslendingar( fámennur hópur þó) vorum búnir að mála okkur út í horn.
Nú bíð ég óþreyjufullur eftir tilkynningu um lækkun stýrivaxta, afnámi gjaldeyrishafta, fyrsta áfanga, og jafnvel erlendu fjármagni inn í landið, svo vitnað sé í orð viðskiptaráðherra þar sem hann segir nokkuð góðar líkur á því að nýtt fjármagn fari að leita til Íslands í kjölfarið á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Mér dettur helst í hug að nú hafi útlendingar loksins uppgötvað að hér er til heiðarlegt fólk sem vill standa í skilum með sitt.
Það eru ekki allir útrásarvíkingar.
Var að fylgjast með umfjöllun Kastljóss á "skúffufé" okkar hæstvirtu ráðherra. Þó ég kippi mér ekki upp við neitt, nema kannski hressilegan jarðskjálfta, þá blöskraði mér bruðlið og óráðsían.
Átta hundruð milljónir út í buskann það sem af er öldinni? Ótrúlegt. Það er ekki eins og þetta séu vasapeningar þeirra höfðingja. Tímabært að læsa skúffunum.
En... allt illt tekur vonandi enda og ég get ekki látið hjá líða að minnast á það, sem í mínum huga er frétt dagsins, en þar fjallar Financial Times um Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, og það verkefni sem hann hefur með höndum. Þar eru mörg gullkornin.
Á hans herðum hvíla vonir reiðra Íslendinga, sem vilja sjá bankamennina axla ábyrgð á því að þessi fyrrum ríka 300 þúsund manna þjóð er nú á efnahagslegu hamfarasvæði," segir blaðið.
Reiðra? Mér koma mörg orð í hug sem betur eiga við en Tjallinn hefur jú alltaf verið þekktur fyrir hógværðina, í það minnsta í orði.
Hér kemur svo mögnuð klausa.
"Rakið er að Ólafur hafi nánast enga reynslu haft af rannsóknum á borð við þær sem hann stýrir nú. Hann hafi hins vegar haft einn stóran kost til að bera: Engin tengsl við fjármálamennina, sem nú sæta rannsókn." Þetta lofar góðu. Reyndar kemur margt annað gott fram í greininni en ég læt mér nægja að taka undir orð Ólafs þar sem hann segir að fólk verði að sýna þolinmæði því rannsóknin sé viðamikil.
Þar til næst.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2009 | 05:17
Er þetta nú rétti tíminn ?
Mér finnst dagsetningin nok so skondin. Svona daginn áður en mál Íslands verður tekið fyrir hjá AGS.
Ég var að vona að svona í eitt einasta skipti gætu öll dýrin í skóginum verið vinir. Eins og " Dýrin í Hálsaskógi." En því miður virðumst við ekki hafa öðlast nægilegan þroska til þess.
En það er bara að bíta á jaxlinn, vera jákvæður, og kíkja á fréttasíðurnar og lesa um "peningaþvætti, bókhaldsóreiðu hjá bönkunum og jafnvel nýtt "Gulag" sem ég hef reyndar enga trú á. Einfaldlega vegna þess að við eigum ekki eina einustu krónu og hvergi hægt að slá lán. Svo í onálag lækkar gengið.
Var annars búið að rífa alla braggana upp í Hvalfirði?
Spyr einn fáfróður.
Þar til næst.
![]() |
Hafa ekkert nálgast niðurstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.10.2009 | 10:45
Svona vítt og breitt.
Að vakna á svo fallegum vetrarmorgni bókstaflega býður jákvæðum hugsunum heim, í það minnsta þar til ég fer að lesa fréttasíðurnar.
Annars er fátt fréttnæmt þennan morguninn. Líkamsárás hér, innbrot þar, semsagt ofur venjuleg helgi á Reykjavíkursvæðinu. Þá er rólegra hér fyrir "westan."
Í Mbl. las ég grein sem heitir "Ásakanir um peningaþvætti." Sjaldnast er ein báran stök, hugsaði ég bara. Greinin er vel skrifuð en þar er fjallað um lánveitingar bankanna til tengdra aðila og breskra kaupsýslumanna. Sosum ekki nýtt af nálinni.
Hvað skyldi annars "óhefðbundnir lánasamningar" þýða?
Nú, en áfram með smjörið.
Í greininni kemur líka fram að allir bankarnir þrír, Kaupþing, Landsbanki og Glitnir, hafi lánað háar fjárhæðir til stærstu eigenda sinna á góðum kjörum. Yfirdráttarheimildin sem ég græt stöku sinnum út í bankanum mínum er á ofur venjulegum kjörum enda hef ég aldrei verið bankaeigandi, það hefur frekar verið á hinn veginn.
Í DV. rak ég augun í frétt um Kalla karlinn Wernersson og það má með sanni segja að hann Kalli kemur víða við. Enda "útrásarvíkingur." Nú er það Rúmenía með nokkrum ehf. félögum á milli þó.
Þar er líka frétt sem fjallar um nafnaskipti og kom glottinu út í annað munnvikið. Sérstaklega niðurlagið.
"Varðandi nafnabreytinguna þá er ég ekki í neinum feluleik um hver ég er ......... Það var ekki hugsunin að hafa einhvern feluleik bak við það. Hver skyldi hugsunin ( tilgangurinn ) annars hafa verið?
Ég var að hlusta á Mikael Torfason í morgunútvarpinu áðan. Nafnið á nýju bókinni hans "Vormenn Íslands" vekur upp ljúfsárar minningar því á æskuárunum las ég bók með sama nafni , eftir þann mæta höfund Óskar Aðalstein, sem kom út 1956 og endurútgefin 1972.
Já, tíminn líður.
Eigið öll góða helgi og þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2009 | 01:10
Þögn er gulls ígildi...
... virðist vera mottó þeirra Landsbankamanna þessa dagana.
Nú berast oss þær fréttir, óstaðfestar enn sem komið er, að kennitölubreyting (kt.flakk) ónefndrar líkamsræktarstöðvar og færsla eigna yfir í nýtt hlutafélag hafi verið framkvæmd með aðstoð lánardrottins sem ku jú vera Landsbankinn.
Um er að ræða einn milljarð.
Í svörum Landsbankans við fyrirspurn DV ber bankinn fyrir sig lögum um bankaleynd, sem er ofur eðlilegt en ef þessi frétt reynist sönn þá blöskrar mér minnisleysið sem virðist vera farið að hrjá landa mína.
Fyrst kom Icesave, sem ég og börnin mín tvö komum til með að súpa seyðið af um ókomna framtíð. Svo fljúga furðusögurnar fjöllum hærra um allskyns baktjaldamakk.
Getur það staðist að verið sé að afskrifa skuldir einhverra ævintýramanna sem ætluðu sér að lagfæra vöxtinn á danskinum?
Ljótt er ef satt reynist.
Ekki er bitið úr nálinni enn því nú er Landsbankinn búinn að ráða upplýsingafulltrúa sem sjálfsagt hefur verið þörf á, en það láðist þeim að auglýsa stöðuna.
Nú skilst mér, og leiðrétti mig einhver fari ég með rangt mál, að öllum ríkisstofnunum sé skylt að auglýsa þær stöður sem til kunna að falla. Þar sem Landsbankinn er nú í eigu minni og ykkar þá hljóta þessar reglur að gilda þar eða erum við komin í "2007 ástandið" að nýju?
Til þess að toppa nú allan óþverrann kom þessi hefðbundna klausa:
"Ekki hefur náðst í Ásmund Stefánsson, bankastjóra Landsbankans, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir."
Ég spyr sjálfan mig oft hvað sé eiginlega í gangi. Svör fást ekki því miður, en varla er hægt að tala um "Nýja Ísland" í tilfellum sem þessum. Í mínum augum hefur ekkert breyst nema nú heldur svokölluð vinstri stjórn um stýrið í stað fráfarandi hægri stjórnar. Munurinn er hverfandi lítill.
Þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2009 | 18:50
Saklaus uns sekt er sönnuð...
...klausa sem enn er í fullu gildi en því miður vill oft gleymast.
Baldur Guðlaugsson fyrrverandi ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur verið helsta umræðuefnið í Bloggheimum í dag og þó sitt sýnist hverjum eru þeir býsna margir bloggararnir sem nú þegar hafa dæmt manninn sekan og það áður en til kasta dómstólanna kemur.
Ég er ekki að taka hanskann upp fyrir Baldur eða yfirhöfuð nokkurn sem gæti verið viðriðinn einhver fjárglæframál, þeir eru jú reyndar nokkrir sem komnir eru með stöðu grunaðra, en það er ekki í mínum ( eða ykkar ágætu bloggarar ) verkahring að kveða upp dóm.
Ég er bjartsýnn að eðlisfari, svo bjartsýnn að ég trúi því og treysti að innan stjórnsýslunnar sé til fólk sem sópar engu undir teppið heldur taki á öllum þeim málum, sem án efa eiga eftir að dynja á okkur á næstunni, af heiðarleik og réttsýni.
Ykkur er velkomið að ausa úr skálum reiðinnar yfir mig, ég er með þykkan skráp.
Þar til næst.
![]() |
Baldur lætur af störfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.10.2009 | 20:35
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
Fjármunabrot, þjófnaðir, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot, skjalafals og peningaþvætti.
Sú rannsókn sem hófst vegna gruns um mansal teygir sig víðar, en ofangreind brot eru nú rannsökuð í tengslum við málið.
Svo ótrúlegt sem það kynni að virðast þá hófst þetta allt með komu ungrar stúlku til Íslands.
Ég hjó eftir því í sjónvarpsfréttum að bandarísk stjórnvöld teldu þau íslensku ekki í stakk búin til að takast á við mansalsmál. Þetta er nú einu sinni frumraun íslensku réttvísinnar og fer vel af stað.
Í fréttinni er smáklausa sem kom illa við mig.
"Margir glæpahópar hérlendis falla undir skilgreiningu evrópsku lögreglunnar Europol um skipulagða glæpastarfsemi, þar á meðað pólskir, litháískir og íslenskir glæpahópar með tengsl erlendis."
Á sama tíma og afbrot færast í vöxt er niðurskurðarhnífurinn á lofti. Hyggilegt væri af stjórnvöldum að endurskoða sparnaðaráætlun sína og í stað þess að svelta löggæsluna væri viturlegra að auka framlögin til muna. Ég er þess fullviss að þeir fjármunir eigi eftir að skila sér.
Þar til næst.
![]() |
Margir glæpahópar með erlend tengsl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)