Úr einu í annað.

Ég rak augun í frétt sem fjallaði um hönnun væntanlegs gistihúss á vegum hins opinbera, þ. e. 50 manna fangelsisrými sem, miðað við forgangsröðunina hjá  núverandi ráðamönnum, kemur seint til með að rísa.

Það sem reyndar vakti athygli mína var að leitað hefur verið til Dana hvað varðar hönnun áðurnefnds hótels þegar íslenskir arkitektar ganga atvinnulausir í tugatali.

Hvernig á að réttlæta slíkt?

En svo litið sé í fleiri horn þá hefur flogið fyrir að byggingin gæti kostað allt að 700 milljónir. Á sama tíma stendur gamli Vífilsstaðaspítalinn auður. Sjálfsagt þarf að hressa upp á húsnæðið en það yrði öllu ódýrara en að byggja.

Svo má líka nefna Arnarholt á Kjalarnesi þar sem tómar byggingar fá, ef allt fer samkvæmt vinnubrögðum ráðamanna vorra, að grotna niður en þar mætti hæglega innrétta fyrir 40 - 50 gesti.

Það er ekki eins og þurfi að rjúka upp til handa og fóta og byggja 5 stjörnu hótel.

Það er jú kreppa þó hálaunafólkið merki það ekki á sínu skinni.

Mér eru minnisstæð orð fyrrverandi dómsmálaráðherra þegar hún sagði að peningar væru ekki til.

Illu heilli þá er hún ekki lengur í því embætti og ekki ein einasta glæta að orð hennar hafi síast inn í heilabú misvel gefinna stjórnmálamanna okkar.

Einnig má nefna sumarhús Sigga garmsins Einarssonar að Veiðilæk í Borgarbyggð þar sem fyrir forsjálni kallsins var sett skothelt gler í glugga, hver svo sem ástæðan kann að hafa verið, og væri tilvalið sem "gistihús" í það minnsta fyrir hvítflibbakrimmana.

Austur-evrópsku glæpagengin sem haslað hafa sér völl hérlendis ber að endursenda til síns heima þar sem þeir fá að kynnast vist upp á vatn og brauð.

Í orðsins fyllstu merkingu.

Nú hefur ríkisstjórnin lagt fram atvinnumálatillögur sínar á Suðurnesjum og stjórnarandstaðan brást við á hefðbundinn hátt og lýsti yfir frati á allan pakkann.

Einfeldningurinn ég hélt að liðið sem kosið var til Alþingis hefði það að markmiði að starfa að uppbyggingu gjaldþrota þjóðfélags en öllum getur skjátlast, meira að segja mér.

Í onálag megum við búast við því að borga skuldir óreiðumanna (og þar rataðist Davíð satt á munn) upp á litla 92 milljarða sem sóttir verða í vasa almennings á einn eða annan hátt. Hvernig hægt er að réttlæta slíkar aðgerðir, því Landsbankinn var jú einkabanki, er ofvaxið mínum skilningi og sérstaklega þegar fyrrverandi eigendur bankans virðast geta fengið afskriftir eftir pöntun á sama tíma og sportað er eins og ekkert hafi í skorist.

Það er margt skrítið í kýrhausnum og með þessum orðum kveð ég ykkur og þar til næst. 

 

 


Af afskriftum, bruðli og fleira djúsí.

Enn og aftur berast okkur óbreyttum fréttir af aðgerðum hinnar nýju yfirstéttar landans, þ. e. bankastarfsmönnum.

Nú skal afskrifa.

Í þetta skiptið er um að ræða fyrirtækið Skinney-Þinganes, sem hér á árum áður var eitt af best reknu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.

Hvað sem því líður þá er staðan greinilega önnur í dag.

"Skinney-Þinganes hagnaðist um 3,6 milljarða króna í fyrra; en afskriftir hjá dótturfélagi námu tveimur og hálfum milljarði króna."

Í hvaða tilgangi skyldi nú dótturfélagið "Nóna" hafa verið stofnað og hversu stór skyldi nú kvótinn hafa verið?

Á sama tíma er verið að ganga að sambýlisfólki á Selfossi sem lét glepjast af gylliboðum bankamanna, tók lán uppá 17,8 milljónir - í erlendri mynt - sem í dag stendur í 58 milljónum króna.

Skyldi bankinn afskrifa?

Ég rak augun í frétt sem fangaði athygli mína en þar er um að ræða niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur gegn fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi, en hann höfðaði mál á hendur Ríkisskattstjóra vegna skattálagninga á söluréttarsamningum af hlutabréfum í Kaupþingi.

Niðurstaðan kom mér á óvart því ég hef alltaf haldið að stórkallarnir slyppu.

Í fréttinni er smá klausa sem segir allt sem segja þarf.

"Fólst í þessu var að X var í aðstöðu til þess að afla sér tekna sem myndast kynnu við mismun verðs hlutanna er sölurétturinn félli úr gildi en áhætta hans vegna lækkunar verðs var engin."

Nú barmar viðkomandi sér yfir yfirvofandi gjaldþroti en að menn verði gjaldþrota í dag er ekki ný frétt. Hér verða vísitölufjölskyldurnar gjaldþrota hvern dag. Án ofurlána.

Svona rétt í lokin langar mig til að segja ykkur frá bréfi sem ég sendi á alla alþingismenn okkar.

Um er að ræða fyrirspurn sem snertir forgangsröðun mikilvægra verkefna.

Ég birti þennan bréfstúf hér og hvet alla til að afrita og líma (copy ´n´paste) og senda á alla þingmenn okkar. Netföngin fylgja í athugasemdadálkinum.

"Getur verið að á sama tíma og niðurskurðarhnífurinn er á fullu eigi stjórnmálaflokkarnir að fá 304,2 milljónir?
Getur verið að á sama tíma og börn okkar gramsa í ruslatunnum vegna þess að heimilin eru matarlaus eigi að halda uppi stjórnlausri sýndarmennsku í utanríkisráðuneytinu?
Getur verið að á sama tíma og til stendur að skera niður um tæpar tvö hundruð milljónir í heilbrigðisþjónustu Vestfjarða sé verið að henda tugum milljóna í nýja heimreið að Hrafnseyri við Arnarfjörð?
Getur verið að háttvirtir ráðamenn þjóðarinnar hafi ekki uppgötvað að hér ríkir kreppa sem, samkvæmt íslenskri hefð, lendir á herðum þeirra sem minnst mega sín?
Finnst ykkur ekkert athugavert við forgangsröðunina?
Með von um greinargóð svör.
Virðingarfyllst"
Þ. Jökull Elisson

Ég hvet alla til að taka undir því fjöldinn er sterkur!

Þar til næst.

 

 

 

 


Í sárri neyð...

...er oftar en ekki gripið til löngu úreltra uppskrifta úr kokkabókum "útrásarvíkinganna" sem, í ljósi þess sem á undan er gengið, falla engan veginn að smekk landans.

Nýjasta dæmið eru viðbrögð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vegna fréttar Rúv. í kvöld þar sem fram kemur eitt og annað athyglisvert í tengslum hans við bresku Iceland verslunarkeðjuna.

Þar er talað um markaðsmisnotkun sem jafnvel hefur staðið árum saman.

Of langt mál yrði að telja upp þær málsbætur sem Jón Ásgeir reynir að nota sér til framdráttar en eitt er þó ljóst að það duga engir stjörnulögfræðingar þegar málin eru komin inn á borð sérstaks saksóknara.

Sem vekur upp þá spurningu, hvaðan í fj....... fær drengurinn aura til að borga lögfræðinga hernum sem hann hefur á bak við sig?

Það er jú búið að frysta eignir hans.

Ég fæ stundum framan í mig að ég sé bæði einstaklega illa innrættur og með sóðakjaft og er þá oftar en ekki vitnað í bloggfærslurnar mínar.

Ég kannast við hvorugt en hins vegar viðurkenni ég fúslega að þegar ég sé svínaríið allstaðar í kringum mig þar sem menn rokka enn feitt á kostnað okkar óbreyttra og það á sama tíma og verið er að klípa af lífeyrinum mínum jafnt og þétt, þá sárnar mér.

Nóg er að sinni og þar til næst.

 

 

 

 


Af verslunar/viðskiptaháttum landans.

Í ljósi frétta sem á okkur dynja þessa dagana tel ég mig ekki fara offari þegar ég held því blákalt fram að fjármálafylleríinu sé ekki lokið. Eins og dæmin sýna og sanna.

Sala sendiráðsbústaðar í London skilaði galtómum ríkiskassanum 900 milljónum króna nettó, þ. e. þegar búið var að kaupa annan á litlar 870 milljónir. Með viðhalds og viðgerðarkostnaði.

Viðgerðir?

Gera má ráð fyrir málningarvinnu og smá nostri hér og þar og kannski er Ikea innrétting í eldhúsinu en slíkt er ekki boðlegt fulltrúum Íslands á erlendum vettvangi.

Inni í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er áætlun um að kaupa sendiráðsbústað í New York. Kaupverð er ekki ljóst að svo stöddu, en í framhaldi af því koma mér í hug tvær lúxus íbúðir í Gramercy Park sem nefndur eigandi, Jón Ásgeir Jóhannesson, minnist þess ekki að hafa keypt (sambúðargleymska?) en myndu sóma íslenskum framámönnum vel, þegar búið er að skipta út eldhússinnréttingunni.

En svona án gamans þá liggur í augum uppi að breytingar hafa ekki orðið á íslensku samfélagi.

Kreppa eður ei.

Flottræfilshátturinn og sýndarmennskan er fremst í forgangsröðuninni og til að dekka kostnaðinn við að halda úti liðlega 30 sendiráðsskrifstofum, út um hvippinn og hvappinn, þá er eins og endranær ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Ætlum við aldrei að læra? Ég segi við, því  einhver okkar kusu þessa stjórn yfir okkur, sem hefur það efst á óskalistanum að troða okkur inn í ESB og borga skuldir óreiðumanna. Önnur mál eftir minni.

Ráðamenn þjóðarinnar eru greinilega gengnir af göflunum og eru í þann mund að reka síðasta naglann í líkkistuna.

Kristján Þór Júlíusson setur fram margar skynsamlegar og raunsæjar hugmyndir sem ríkisstjórnin ætti að íhuga af fullri alvöru í stað þess að þumbast við, eingöngu vegna þess að þau höfðu ekki getu eða hugrekki til að setja slíkar tillögur fram.

Það er af mörgu að taka í skrifum Kristjáns en pistillinn "Forgangsraðað í vítahring" , segir í raun allt sem segja þarf og til muna meira en komið hefur fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Þessa stundina.

Hvers vegna eigum við að halda úti íslenskri friðargæslu? Kostnaður 116 milljónir.

Hvers vegna eigum við að halda úti öllum þessum sendiráðsskrifstofum ( hversu margar eru þær í Afríku?) sem koma til með að kosta 3 milljarða árið 2011?

Hvers vegna eigum við að reka Íslandsstofu og  Ferðamálastofu sem tvær aðskildar stofnanir? Kostnaður 833 milljónir.

Hvers vegna geta stjórnarliðar ekki skilið að á krepputímum ber að spara og þá á réttum stöðum?

Svona mætti lengi telja en nóg að sinni.

Rak augun í frétt sem kom mér á óvart en þar fer Össur nokkur Skarphéðinsson mikinn vegna skjala sem fundist hafa í utanríkisráðuneytinu og sýna og sanna að íslenskir og bandarískir embættismenn hafi rætt saman í aðdraganda innrásarinnar í Írak.

Big news!

Auðvitað ræddu þeir saman. Dettur nokkrum heilvita manni annað í hug?

Hver er tilgangurinn með svona yfirlýsingu??

Hvernig kemst svona "frétt" í fjölmiðlana???

Svona rétt í lokin þá var ég að lesa frétt um væntanlega sölu Sjóvár. Við minnumst þess öll að ríkissjóður varð að dæla 16 milljörðum inn í tryggingafélagið sökum takmarkalausrar græðgi fyrrverandi eigenda þess sem tæmdu bótasjóðinn og skildu eftir sviðna jörð.

Eftir fréttum dagsins að dæma þá mun ætlunin vera að afskrifa 10 milljarða og selja svo leifarnar einhverjum bröskurum.

Ég vona af heilum hug að þetta sé bara Gróusaga. Nóg annað hefur gengið á.

Bið að heilsa og þar til næst.

 

 

 


Ég fékk þessa frábæru hugmynd.

Í fréttinni af sölu sendiherrabústaðar í London er talað um gróða sem nemur hátt í milljarð. Svo er keyptur bústaður sem, ásamt viðgerðum kostar litlar 870 milljónir.

Var ekki hægt að draga seglin ögn meira saman?

Í stað þess að púkka upp á embætti sem að mínu mati ætti að leggja niður þá mætti minnka niðurskurðinn hjá heilbrigðisþjónustunni, og í framhaldi af því, svo ég viðri nú gamlar hugmyndir, þá á hiklaust að leggja niður sendiráðin á öllum Norðurlöndum utan kannski það danska og virkja ræðismannsskrifstofur mun meira.

Við lokum öllu heila klabbinu.

Það er hins vegar þetta með "2007" flottræfilsháttinn hjá landanum. Við höfum ekki efni á að halda úti sendiráðum út um allar trissur svo af hverju taka stjórnarliðar sig ekki saman og loka?

Hvað er í vegi?

Það læðist að mér sá ljóti grunur að þarna sé verið að stugga við einhverri "heilagri belju." Þeir eru alltof margir sem eru á ríkisspenanum en hvergi virðist mega skera!

Á sama tíma og niðurskurðarhnífurinn er á fullu þá eru bankarnir að hygla vinum og vandamönnum, afskriftir hér og afskriftir þar.

Átti ekki að koma í veg fyrir kennitöluflakkið eða má kannski ekki hrófla við neinu þar?

Nú berst ríkisstjórnin vonlausri baráttu við að leysa skuldavanda heimilinna og talað er um flatan niðurskurð sem að mínu mati er gjörsamlega út úr kortinu því "þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku verða fátækari."

Athyglisvert var það sem kom fram í máli forsætisráðherra fyrir nokkrum dögum þar sem í ljós kom að af þeim ca. 22 þúsundum sem eru í vanskilum í dag, voru liðlega 16 þúsund í vanskilum fyrir hrun.

Ég sé enga ástæðu til að púkka upp á þann mannskap. Nógu kostnaðarsamar verða hjálparaðgerðirnar samt.

Nóg að sinni og þar til næst.

 

 

 

 


mbl.is 900 milljóna gróði af sölu sendiherrabústaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúsarupphæð.

Það er greinilegt, á öllu sem á undan er gengið, að stjórnarliða skortir kunnáttu til að reikna dæmið til enda.

Hver skyldi kostnaðurinn verða ef allir þeir húseigendur sem hafðir voru að ginningarfíflum af bankastarfsmönnum í "góðærinu" lenda nú á vergangi og margir hverjir orðnir atvinnulausir, svo ekki sé minnst á þá sem jafnvel þurfa að leita sér félagslegrar aðstoðar?

Hver skyldi svo rekstrakostnaðurinn verða af íbúðum sem koma til með að standa tómar?

Húshitunarkostnaður kostar sitt og enginn verður til að borga því kaupendur finnast ekki nema þá helst að einhverjir "afskriftargreifar" sjái sér leik á borði og byrji að hamstra.

Hér er um að ræða upphæð sem er bara brot af þeim afskriftum sem vildarvinir bankanna hafa notið.

Íslenska ríkið þurfti að gefa bönkunum innspýtingu upp á hundruðir milljarða svo allt færi nú ekki til fjandans.

"Skinney-Þinganes, Bjarni Ármannsson, Baugsveldið, Pálmi Fons........"

Af nógu er að taka en ríkisstjórnin kveinkar sér yfir þessari smánarupphæð.

Skilaboðin að "westan" eru skýr. AGS leyfir ekki frekari aðstoð við þá sem komnir eru í þrot. Nú, tveimur árum eftir hrun eru allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar svo hikandi og fálmkenndar að minnir helst á ungann sem er að feta fyrstu fótsporin.

Það veldur mér sárum vonbrigðum því meðal stjórnarliða já og stjórnarandstöðu er hópur ungs og efnilegs fólks með góðar úrlausnir og umfram allt vilja og getu til að takast á við vandann.  Ég minnist "lyklafrumvarps" Lilju Mósesdóttur sem illu heilli var þaggað niður og það af samstarfsfólki hennar.

Eftir að hafa fylgst með þættinum "Návígi" fyrir skömmu síðan þar sem hún lagði spilin á borðið og lýsti stöðunni eins og hún er kom mér helst í hug "goggunarröðin" þar sem haninn í hópnum (geti hver fyrir sig) leggur drögin að því hvenær hver hæna megi verpa(lesist: hafa frumkvæði).

Ég tek undir orð Lilju að nú sé kominn tími til kosninga. Að vísu hefði ég kosið að sjá allt landið sem eitt kjördæmi í það minnsta að vægi atkvæða yrði jafnt.

Það er reyndar til lítils að boða til kosninga ef engin verður endurnýjunin á þeim sem í framboð fara. Svo ég gefi nú smá kredit þá verð ég að segja Bjarna Ben. til hróss að mér finnst hann hafa tekið geysilegum framförum. Drengurinn er greinilega að þroskast en það er ekki þar með sagt að ég styðji hann. Það er svo önnur saga.

Ég vona að þessar hugleiðingar mínar veki einhvern til umhugsunar og þar til næst.

 


mbl.is Aðgerðirnar kosta 200 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af arðgreiðslum,afskriftum og niðurskurði.

Þessa dagana dynja á okkur fréttir af niðurskurði hér og niðurskurði þar. Öll gerum við okkur grein fyrir nauðsyn þess, það þarf jú að skafa upp skítinn eftir "útrásarvíkingana" og samkvæmt íslensku hefðinni lendir tiltektin á þeim sem minnst mega sín.

Mér blöskrar þó hversu harkalega er ráðist að heilbrigðiskerfinu. Fæðingarorlof skorið niður. Barnabætur skornar niður. Í framhaldi af því kæmi mér ekki á óvart að sett yrðu lög sem bönnuðu fólki að eignast börn á meðan kreppan ríkir. Það væri alveg í anda fálmkenndra aðgerða núverandi ríkisstjórnar.

ESB bullið kostar jú sitt.

Á sama tíma og verið er að tálga síðustu kjöttægjurnar af óbreyttum almúganum berast oss fréttir af milljóna og jafnvel milljarða afskriftum hjá hinum og þessum (sjávarútvegs)fyrirtækjum.

Mér er í ríku minni þegar Bjarni nokkur Ármannsson kom heim frá Noregi, grét krókódílstárum, "endurgreiddi" hluta af þeim milljónum sem honum hafði tekist að sölsa undir sig, og lofaði að skikka sér pent.

Hverjar urðu svo efndirnar?

Enn er afskrifað og nú eru það 800 milljónir króna sem strákskömmin hefur fengið felldar  niður.

Hér kemur athyglisverð klausa.

"Ársreikningur eignarhaldsfélags í eigu Bjarna Ármannssonar fjárfestis, Imagine Investments, fyrir árið 2009 staðfestir um 800 milljóna króna niðurfærslu á skuldum félagsins á árinu. Reikningnum var skilað til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra í september.

Félagið er dótturfélag eignarhaldsfélags í eigu Bjarna sem heitir Sjávarsýn. Á sama tíma og skuldir Imagine Investments voru afskrifaðar tók Bjarni sér tæplega 400 milljóna króna arð út úr Sjávarsýn, líkt og DV greindi frá á mánudaginn."

Skilanefnd Glitnis gat leyst félagið til sín, sett það í þrot eða fengið einhverjar krónur upp í skuldina gegn afskriftum.

Það er orðið hverjum deginum ljósara að hér hefur ekkert breyst frá því fyrir hrun.

Stjórnarliðar eru orðnir svo samdauna spillingunni og óþverranum sem hér grasserar, aldrei sem fyrr, að þau sjá ekki lengur fram fyrir nefið á sér.

Það þarf að hreinsa til innan bankakerfisins og það hið fyrsta. Það er að vísu fáránleg bjartsýni af mér að halda að slíkt verði gert en ólgan í þjóðfélaginu vex og er komin að suðupunkti.

Ég hræðist þá stund þegar upp úr sýður.

Þar til næst.

 

 


Á hvaða forsendum?

Rökin sem stjórnendur Íslandsbanka færa fyrir því að neita að afhenda eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun þær upplýsingar sem farið var fram á lýsa þvílíkum hroka og mannfyrirlitningu að ég fæ ekki orða bundist.

Halda fj...... apakettirnir sig vera hafna yfir lög og rétt?

Er verið að fela eitthvað?

Hvar er gagnsæið?

Er fjármálakerfið farið að stjórna landinu?

Það er bölvuð ólykt af þessu öllu. Löngu tímabært að svipta svona fyrirtæki starfsleyfi og mætti þá kanna, svona í leiðinni, hvað yfirmennirnir hafa skammtað sér í laun. Það er örugglega ögn meira en það sem þeir ólánssömu íbúar þessa lands verða að láta sér nægja og geta ekki einu sinni flúið landið, annahvort vegna örorku eða aldurs.

Hvað með erlent lán Birnu bankastjóra? Var samið um afborganir eða var lánið afskrifað?

Á sama tíma og það vesalings hrekklausa og auðtrúa fólk sem lét ginnast af gylliboðum bankanna  er borið út á götuna þá hala bankarnir inn upphæðir sem að sjálfsögðu falla í kramið hjá núverandi stjórn landsins, þ. e. AGS, og fyrrverandi eigendur og stjórnendur gömlu bankanna rokka feitt í útlöndum og dafna eins og púkinn á fjósbitanum hjá Sæmundi fróða.

Nú er kominn tími á tiltekt.

Mér blöskrar þegar ég heyri hjáróma jarm bankastjóranna í dag þar sem þeir fara mikinn og tala um batnandi stöðu bankanna, en á kostnað hvers?

Yfirveðsettar íbúðir eru hrifsaðar af fólkinu sem hefur það eitt til saka unnið að hafa látið ginnast af fölskum loforðum bankastarfsmanna, og verður að láta sér nægja stofugólfið hjá vinafólkinu, þ. e. þeim sem enn eiga þak yfir höfuðið, eða tjaldstæði í Laugardalnum.

Það er löngu nóg komið.

Það kom berlega í ljós við setningu Alþingis að "búsáhaldabyltingin" var eingöngu smekkur af því sem koma skal. Núverandi ríkisstjórn er búin að gera upp á axlir enda engin furða því forgangsröðunin sneri sig um að eyða tíma og ómældu fjármagni í að troða okkur inn í ESB og svo kom stjórnlagaþingið sem er einn skrípaleikurinn ofan á annan. 

Kallast þetta ekki að kasta krónunni fyrir aurinn?

Áfram siglir ríkisstjórnin fyrir fullum seglum en nú án lóðsins og treystir á Guð og lukkuna og vonar að ekki steyti á skeri.

Ég er búinn að fá upp í kok!

Þar til næst.

 

 

 

 


mbl.is Neitaði eftirlitsnefnd um upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gráttu Hreiðar, gráttu nú.

Auðvitað er drengurinn saklaus.

Blásaklaus!

Hvað skyldi ég hafa fyrir mér í því? Jú, og þetta er hvorki rökvilla né rökbrella,hann segir það sjálfur.

Það var ekki honum að kenna að hann var skikkaður á ofurlaun.

Það var ekki honum að kenna að hann var forstjóri Kaupþings.

Það var ekki á hans könnu að axla ábyrgð á einhverjum fíflalegum ákvörðunum og rekstrar-    fyrirkomulagi bankans. Til hvers hefur maður undirmenn?

Þú meinar... já auðvitað. Hann sem vesæll forstjóri bar bara ábyrgð á að borga sér lúsarlaunin mánaðarlega.

En hvað með sekt? Áttu við? Nú að sjálfsögðu. Saklaus uns brot er fyrnt.

Blásaklaus! Það sögðu reyndar sakleysingjarnir von Ribbentrop, Wilhelm Keitel, Ernst Kaltenbrunner, Alfred Rosenberg, Hans Frank, Julius Streicher, Fritz Sauchel, Alfred Jodl og Arthur Seyss-Inquart þ.16. okt.1946. Samt voru bandamenn svo grófir að draga þá að húni rétt eins og um fána væri að ræða þrátt fyrir þá staðreynd að þeir höfðu einungis fylgt skipunum yfirmanna sinna.

Áttu við...já auðvitað...þeir sögðu það sjálfir.

Þarna komum við ögn inn á siðferði , já og viðskiptasiðferði, en hvorugt virðist finnast í hinu íslenska yfirmannasamfélagi.

"Ég var bara forstjóri."

Mig er farið að lengja eftir aðgerðum sérstaks saksóknara.

Þar til næst.

 

 

 


mbl.is Segist ekki hafa brotið lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir hlutir gætu gerst.

Nú er okkur tjáð að lækka skuli vörugjald á ákveðnar tegundir ávaxtaþykknis og það er af hinu góða. Í framhaldi af því fyndist mér ofur eðlilegt að verslunareigendur, sem í dag bjóða ungunum okkar 50% laugardagsafslátt af sælgæti og stuðla þar með að auknum tannskemmdum svo ekki sé minnst á grenjið og gólið sem oft vill fylgja ef vesalings foreldrinu verður á að segja nei við krílið sitt, sæju sóma sinn í að færa afsláttinn yfir á ávexti og grænmeti.

Gæti líka sparað foreldrum andvökunætur þegar þeir kumpánar Karíus og Baktus fara að herja á viðkvæman tannglerung barnanna.

Nú er verið að "íhuga" (takið eftir orðinu) skatt á fjármálaþjónustu hérlendis og þá horft á útfærslu Breta í þeim málum.

Hugmyndin sem slík er góðra gjalda verð en gæti reynst illframkvæmanleg.

Í fyrsta lagi er löngu tímabært að herða þumalskrúfurnar á fyrrverandi stjórnendum og eigendum fjármálastofnana, sem í dag keppast við að lýsa yfir sakleysi sínu fyrir dómstólum erlendis á reiprennandi íslensku því enskukunnáttan er jú löngu fokin út í veður og vind.

Einhverjir ku vera orðnir auralitlir og verða að láta sér nægja að sulla í sig diet coke og Coop tekexi.

Stjörnulögfræðingar kosta jú sitt.

Þar sem biðlisti væntanlegra gesta hins opinbera lengist jafnt og þétt, þrátt fyrir útboð fimmtíu rúma (einkaherbergja?) öryggisfangelsis vil ég enn og aftur viðra hugmynd mína um gapastokka og gaddavírssvipur á Lækjartorgi.

Í öðru og mun alvarlegra lagi má búast við, samkvæmt íslenskri hefð, að áðurnefndum skatti yrði velt yfir á löngu sligaðar axlir skattgreiðenda þessa lands, þ. e. aldraðra, öryrkja og óbreyttra launþega.

Þau eru mörg ljónin í veginum og með þeim orðum kveð ég ykkur og þar til næst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband