Færsluflokkur: Dægurmál

Nú skín í tannlausan góm breska ljónsins....

....svo ekki sé minnst á "Flatlendinga."

Það má með sanni segja að skjótt skipast veður í lofti. Nú, allt í einu, grassera samstarfsviljinn og samningalipurðin fjöllum ofar. Undarlegur viðsnúningur og þá sérstaklega í ljósi þess að á sínum tíma vorum vér Íslendingar settir undir sama hatt og hryðjuverkamenn. Ég hef velt þessari stefnubreytingu fyrir mér en satt best að segja þá eru þessi umskipti ofvaxin mínum skilningi.

Nema kannski væntanlegar kosningar þ. 6.mars kunni að hafa áhrif.

Þó ég hafi sjaldnast eða aldrei verið sammála Dabba kallinum Oddssyni þá get ég ekki annað en tekið undir orð hans er hann sagði: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.!!!

Þá varð allt vitlaust.

Nú vilja Bretar finna "uppbyggilega lausn" á Icesave deilunni. Ég hef mína lausn, góða lausn, á þeim málum. Í stað þess að leggja skuldaklafann á þreyttar herðar hins íslenska skattborgara legg ég til að gengið verði að fyrrverandi eigendum Landsbankans og þeir látnir borga brúsann. Það virðast samt vera ljón í veginum. Ekki bara sinnuleysi og sofandaháttur stjórnvalda heldur líka sú rótgróna spilling sem hér hefur tröllriðið húsum allt of lengi og verður ekki rifin upp með rótum frekar en njólinn í garðinum hjá mér.

Á sama tíma og íslenskur almúginn er að missa allt er kúlulánþeginn Finnur Sveinbjörnsson, í styrkleika embættis síns, að hygla mönnum sem hafa réttarstöðu grunaðra á kostnað okkar, á þeim forsendum að ekki megi ganga fram hjá reynslu þeirra í rekstri fyrirtækja. Teldist Ísland til siðmenntaðra landa væri búið að: a) reka Finn b) draga hann fyrir dóm, og c) best að þegja núna.

Spillingin og viðbjóðurinn grasserar áfram, aldrei sem fyrr, og nú er Bjöggi yngri að fjárfesta á Suðurnesjum. Hvar ætli honum hafi tekist að ljúga út lán?

Það sem mér blöskrar þó mest eru tilsvör ráðamanna þegar innt er eftir hinu og þessu varðandi  áframhaldandi fjármálabrölt "útrásarvíkinganna" en slíkt vesaldarbull er ekki hafandi eftir.

Sagan hermir oss að meginástæða landflótta "víkinganna" frá Noregi á sínum tíma hafi verið eðlislæg andúð þeirra á að borga skatta og það til kóngs sem ekki var "þeirra maður." Snemma beygðist krókurinn. Enn leifir þó af fornum siðum. Í dag hafa "útrásarvíkingarnir" flestir flúið land og sitja í skattaskjólum erlendis og gefa okkur langt nef á meðan við undirmálsfólkið fáum reikninginn fyrir Baugspartíi í Monaco og gullát.

Í onálag á að fresta birtingu rannsóknarnefndar Alþingis, einu sinni enn. Það kemur að því að upp úr sýður og þá verður "búsáhaldabyltingin" ,til samanburðar ,eins og vögguvísa. Það raunhæfa er að birta fj...... skýrsluna strax og leyfa svo andmælendum að koma sínu á framfæri þegar þeir telja sig tilbúna.

Ég vona að ég eigi ekki eftir að sjá grátkór rannsóknarnefndar koma einu sinni enn fram í fjölmiðlum og barma sér, á sama tíma og þjóðin sannfærist enn frekar að nú sé verið að draga okkur á asnaeyrunum rétt einu sinni enn.

Ég reyni að vera bjartsýnn, þó það sé stundum erfitt, en ég vil fara að sjá aðgerðir sem mark er takandi á og með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Vilja finna uppbyggilega lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vér göngum svo létt öll í lundu.....

....enda ekki annað hægt í dag,á tímum gagnsæis og heiðarleika. Allt skal jú upp á yfirborðið en bíðum nú við. Hvað skyldi nú liggja á borðinu?

O jú, þar er af ýmsu að taka, rétt eins og fyrri daginn.

Þá er mér efst í huga frétt sem ég las á Vísi í dag og fjallar um Bakka(varar)bræður. Sjálfsbjargarviðleitnin lætur ekki að sér hæða.

"Bakkabræður, þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, færðu einbýlishús sín, íbúðir og sumarbústaði í sérstök einkahlutafélög rétt eftir bankahrunið. Með þessu móti geta hugsanlegir kröfuhafar þeirra ekki gengið að þessum eignum."

Áfram með djókið, því þetta hlýtur að vera brandari og það fj.... fúll.

"Þrátt fyrir að hafa fært íbúðir sínar og einbýlishús í einkahlutafélög eru bræðurnir þó enn skráðir eigendur sumarhallarinnar við Lambalæk í Fljótshlíð í Rangárþingi eystra. Um er að ræða tæplega 600 fermetra orlofssetur sem bræðurnir eiga saman til helminga."

Nú er tímabært að frysta eignir Bakkabræðra og hvað varðar fyrningu gjörða þeirra hvað varðar flutning fasteigna þá er enn tími, til 22.10. þetta ár.

Nú spyr ég fávís sveitapilturinn, hvernig geta menn, með allt niðrum sig komist upp með slíkt athæfi og hver kemur til með að borga brúsann þegar upp er staðið?

Það læðist að mér ljótur grunur.

En það er fleira sem mallar í pottunum og hér er smá frétt sem snertir Pálma Haraldsson, sem oftast er kenndur við Fons, en það sem færri vita er að hann varð skyndilega framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna. Hann sneri við rekstri félagsins en það var dæmt fyrir samsæri gegn neytendum nokkrum árum síðar.

"Rúmlega fjögurra milljarða króna arðgreiðsla sem Pálmi Haraldsson greiddi sér útúr fjárfestingarfélaginu Fons vegna góðs hagnaðar rekstrarárið 2006 var fengin að láni hjá Landsbankanum."

Getur verið að þetta sé löglegt?

Fons er nú gjaldþrota með kröfur upp á rúmlega fjörutíu milljarða!

Og svona rétt í lokin, þ.e. rjóminn oná eplapæið þá er hér sérstaklega áhugaverð klausa.

"Rannsóknarnefnd Alþingis telur að fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi sýnt alvarlega vanrækslu eða gert mistök í starfi."

Þetta er nú bara það sem alþjóð hefur vitað í langan tíma. Gleðilegt til þess að vita að rannsóknarnefndin hafi loksins uppgötvað þetta.

Ég vona að þið öll sem lesið hafa þetta aurkast komið til með að sofa vel, og þar til næst.

 

 

 

 

 

 


Afskriftir og áframhaldandi spilling.

Enn og aftur flæðir óþverrinn yfir okkur.

Ég var að fylgjast með háttvirtum Finni Sveinbjörnssyni í Kastljósinu áðan. Dapurlegt að sjá garminn gera sig að fífli. Spyrjandinn var grjóthörð og ákveðin en drengstaulinn fór undan í flæmingi þegar tekið var á málum eins og afskriftum Haga og svo stöðu Samskipa Ólafs sem reyndar er með réttarstöðu grunaðs manns.

Hvað skyldi annars hafa orðið af "gagnsæinu og heiðarleikanum" sem núverandi stjórnvöld hafa keppst við að telja okkur sauðsvörtum almúganum trú um að hér ætti að ríkja?

Nú er hinsvegar talað um afskriftir upp á tugmilljónir milljarða og í framhaldi af því á svo að hampa kvikindunum því ekki megi horfa fram hjá dugnaði og reynslu þeirra aðila sem byggt hafi upp fyrirtækin.

Reynslu í hverju?

Fjármálafylleríi, gulláti, yfirþyrmandi siðblindu og athyglissýki?

Á sama tíma og verið er að hygla þeim mönnum sem komu þjóðfélaginu á hausinn fjölgar þeim sem þurfa að leita til hjálparstofnana til þess eins að fara ekki soltnir til rekkju.

Finnst ykkur góðu lesendur ekkert athugavert við svona háttalag?

Og enn að áframhaldandi afskriftum.

Ég leyfi mér að vitna í Vísi, í dag, þar sem segir:"Gæti þurft að afskrifa 400 milljónir hjá nýráðnum starfsmanni."

Og áfram með viðbjóðinn.

"Árni Pétur Jónsson, sem var forstjóri Teymis og Ólafur Þór fengu 400 milljónir króna hvor að láni hjá Íslandsbanka í gegnum eignarhaldsfélög sín, TT1 og TT2, til að kaupa hlutabréf í Teymi, alls 70 milljónir hluta að nafnvirði í ágúst 2007. Þessi lán voru veitt án persónulegrar ábyrgðar og Teymi þurfti að taka yfir skuldir þessara félaga þegar fyrirtækið var afskráð úr Kauphöllinni í október 2008."

Hér kemur svo einstaklega athyglisverð klausa.

"Fjöldi atvinnulausra viðskipta- og hagfræðinga hleypur á hundruðum en mikið af hæfu fólki þræðir göturnar án atvinnu í dag eftir bankahrunið."

Ég er þess fullviss að þessir atvinnulausu og hæfu fræðingar hafa aldrei fengið tugmilljóna lán, hvað þá afskriftir.

Þeim stundum fer fjölgandi þar sem ég skammast mín fyrir þjóðerni mitt og þá sérstaklega þegar erlendir vinir senda mér tölvupóst og spyrja spurninga sem ég get ekki svarað. Og gera góðlátlegt grín að okkur.

Nóg er að sinni, ég vona að þrátt fyrir alla spillinguna sem hér grasserar enn náum við að rétta úr kútnum.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hvað er eiginlega að gerast ?

Nú lifa erlendir afbrotamenn í vellystingum í íslenskum fangelsum ( lesist ***hótelum) vegna mistaka í málsmeðferð.

Ég hélt að íslenskir lögfræðingar kynnu nú betur til verka.

Nú, á tímum aðhalds og sparnaðar berast oss þær fréttir að fjölga skuli í utanríkisþjónustunni um ca. tuttugu manns. Eitthvað hef ég misskilið. Ég hélt að allir ættu að spara, ekki bara vér skattgreiðendur þ.e. öryrkjar, aldraðir og verkafólk.

Nóg um það, að svo stöddu

En áfram dunar dansinn.

Nú brigsla Hollendingar okkur um óheiðarleika.  Okkur sem eru þeir fallegustu, gáfuðustu, stórustu og með fjármálavitið á hreinu,já, þeir væna okkur um lygi. Til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi óþverra af þessari sort legg ég til að við sendum þeim fyrrverandi yfirmann fjármálaeftirlitsins, þið vitið, hann Jónas pjakkinn Fr. ( farseðil aðra leiðina). Hann ætti að geta sýnt þeim fram á sakleysi okkar Íslendinga því ef ég man rétt þá var hann sjálfur blásaklaus af öllum þeim gjörningum sem hér áttu sér stað í undanfara hrunsins.

Nú bíðum vér í ofvæni eftir niðurstöðum samræðna þeirra því þó Jónas sé klár í kjaftinum þá eiga Hollendingar kjaftaska líka svo það er spurning hvor verður fyrri til að kjafta(eða drekka) mótaðilann undir borðið.

Ég kveð ykkur að sinni með þá von að senn fari að rætast úr fyrir okkur og þar til næst.

 

 

 


Maybe I should have ---- known.

Hér áður fyrr gátu menn, og þá sér í lagi katólikkar, keypt sér syndaaflausn, sem reyndar ku hafa kostað sitt. Athugulir menn  hafa hins vegar bent á að þetta hafi ekkert haft með trúarbrögð að gera heldur vasa prestanna samanber:  "Seint fyllist sálin prestanna."

Enn þann dag í dag virðist eima af gömlum siðum.

Nú veit ég ekki hverrar trúar Ásbjörn Óttarsson er, hallast helst að því að hann tigni Mammon.

Þær réttlætingar, útskýringar og röksemdir sem við fáum að heyra þegar fólk sem greinilega treystir á gullfiskaminni landans er tekið á teppið, ryður upp úr sér, eru efniviður í heila bók sem að öllum líkindum yrði valin brandarabók ársins. Þar er svo sannarlega af nógu að taka.

Ég las mjög svo góða færslu sem Jónas Kristjánsson skrifaði undir fyrirsögninni: Sá ruglaði, sá siðblindi og sá lati. Það vantar bara þann fáfróða, þann heimska og þann gleymna.

Ekki er staðan góð hjá íhaldinu þegar dæmdir sakamenn, fáfróðir útgerðarmenn og náttúrlega kúlulánþegar tröllríða framboðslistum þeirra.

En aftur að bókhaldskunnáttuleysi háttvirts þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ásbjörn ber því við að honum hafi ekki verið kunnugt um að ólöglegt væri að greiða sér arð úr fyrirtæki sem var rekið með bullandi tapi.

Skyldi hann hafa fengið yfirdráttarheimild fyrir arðgreiðslunni?

Maður sem rekið hefur útgerð á fjórða áratug ætti að vita betur.

Nú er aðeins eitt lítið atriði sem vefst fyrir mér.

Maður sem kemur fram í sjónvarpi og viðurkennir lögbrot hlýtur að verða látinn svara til saka, þetta er jú hið nýja óspillta Ísland "þar sem allt skal upp á yfirborðið og hverju sandkorni velt við til að uppræta spillinguna."

Er hann kannski að reyna að kaupa sér syndaaflausn?

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Greiddi ólöglegan arð fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Nýja-Ísland

Það má með sanni segja að skrattinn sér um sína.

Nú á að troða aflóga stjórnmálamanni og ríkisspenatottara í stjórnarformennsku Íslandsbankans, sem er jú ofur eðlilegt. Maðurinn er með flokkskírteinið í lagi og það má ekki styggja "Big  brother." Svo er líka eftir feitum bita að slægjast, hálf milljón á mán. fyrir fundarsetuna. Við förum örugglega rétt að þessum málum því eins og alheimur veit þá erum vér Íslendingar gáfaðastir, fallegastir og stórastir að ógleymdu fjármálavitinu.

Friðrik Sophusson skildi eftir sig kolaða jörð þegar hann yfirgaf Landsvirkjunina eftir ellefu ára starf  sem  forstjóri. Enda er staðan þar slæm.

Býsna slæm.

Hvað skyldi annars hafa orðið af öllu hámenntaða og hæfileikaríka fólkinu sem fjármálaráðherra hefur stundum minnst á?

Skyldi sá hópur kannski hafa flúið kynslóðagamla spillinguna hérlendis?

Sökum skorts á heimildum vil ég ekki taka svo djúpt í árinni að tala um aldagamla spillingu.

Kæmi mér ekki á óvart þó DO settist aftur í stólinn í Seðlabankanum sem að vísu hefði í för með sér smávandamál.

Hvar eiga hinir flokkarnir að troða sínum Snötum inn?

Það sætir furðu að stjórnmálamenn okkar, sem enn  hafa ekki komist að samkomulagi um afgreiðslu Icesave skuli svo þegja þunnu hljóði þegar verið er að hygla gömlum flokksgæðingum.

Að öllum líkindum vegna væntanlegrar fækkunar sendiherranna. Þá verða menn að leita fyrir sér á öðrum vígstöðvum.

Enn og aftur hefur birtingu bankahrunsskýrslunnar verið frestað. Undir niðri ólga reiðin og vonbrigðin í samfélaginu. Ég kvíði þeirri stund þegar þessar tilfinningar ryðja sér farveg upp á yfirborðið.

Og eins og endranær óska ég hinu nýja og "óspillta" Íslandi sem lengstra lífdaga.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Friðrik Sophusson formaður ÍSB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt er skrýtið í kýrhausnum.

Það kennir margra grasa í fréttaflórunni þessa dagana og ekki er allt jákvætt, frekar en fyrri daginn.

Reyndar er lítið rætt og ritað um kúlulánþega og þess háttar óþjóðalýð, burtséð frá smáfrétt er snertir forstjóra Bankasýslu ríkisins, sem mér er til efs að nokkur maður kippi sér upp við. Ekki eftir allt sem á undan er gengið.

Nú er hins vegar komið á daginn að núverandi yfirmaður Landsbankans í London, Baldvin Valtýsson, stýrði bankanum einnig fyrir hrun. Svo vitnað sé í DV. þá vill Baldvin ekki gefa upp hver laun hans eru en fullyrða má að þau nemi tugum milljóna á ári.

Niðurlag fréttarinnar vakti óskipta athygli mína en þar segir " Þeim mun hærri laun sem starfsmenn gamla Landsbankans fá, þeim mun hærri upphæð munu íslenskir skattgreiðendur þurfa að greiða upp í Icesave-skuldirnar."

Í framhaldi af þessu rifjast upp fyrir mér orð fjármálaráðherra þegar hann lýsti því yfir að hverju sandkorni yrði velt við til að uppræta spillinguna og eitthvað var minnst á gagnsæi og heiðarleika.

Svo kemur að "bókhaldsóreiðu" Björgólfsfeðga. Álíka skynsamlega orðað og þegar niðurskurður hins opinbera, með tilheyrandi uppsögnum þeirra lægst launuðu ( samanber Landsspítalinn ), nefnist hagræðing.

"Þær skýringar sem stjórn Samsonar, sem var skipuð Björgólfi Guðmundssyni, Sigþóri Sigmarssyni og Ágústi Leóssyni, gefur er að fjármálastjóri Samsonar hafi glímt við veikindi og því hafi bókhaldið ekki verið í lagi."

Ég vona svo sannarlega að áðurnefndur fjármálastjóri sé búinn að ná sér af veikindum sínum sem hljóta að hafa verið alvarleg því meðal annars finnast ekki samningar vegna lána til fjögurra aflandsfélaga á Tortóla upp á 800 milljónir króna.

Svínaflensan?

Svo að lokum, og þetta verður að fá að fljóta með!

Sigmundur Davíð kom víða við á hádegisfundi með félögum sínum í Reykjavík, sem haldinn var á Hótel Borg. Eins og honum er einum lagið. Hann furðaði sig á því að ekki hefði verið hlustað á framsóknarmenn varðandi Icesave málið.

Hann talar um stjórnarþingmenn sem ekki vildu þiggja "utanaðkomandi aðstoð" jafnvel þótt hagsmunir þjóðarinnar væru í húfi.

Ætlar drengstaulinn aldrei að átta sig á því að hann verður sér til skammar í hvert skipti sem hann opnar munninn á opinberum vettvangi?

Þann 13. okt. og aftur þann 20.okt. sl. bloggaði ég um þá félaga og flokksbræður Höskuld og Sigmund Davíð er þeir lögðust í (útrásar)víking og herjuðu á Noreg í þeim tilgangi að slá smá lán (tvö þúsund milljarða),svona rétt út á fésið sér.

Það þarf vart að taka fram að sú ferð var ekki farin til fjár.

Skömmu áður hafði Sigmundur garmurinn haft hátt um sig í þinginu - eins og svo oft áður - og sagði meðal annars " Þjóðin er fyrst og fremst í skuldakreppu, af hverju er þá verið að auka skuldirnar?"

Góð spurning Sigmundur.

Svo er drengurinn hissa á því að enginn vilji hlusta á hann.Angry

Nóg er komið að svo stöddu. Nú eru það heimaverkefnin sem bíða mín. Í þessum áfanga er það lögfræði. Ég heillaðist gjörsamlega. Þar fyrir utan blasa lögbrotin sem framin hafa verið, í hérumbil hverri einustu grein.

Og enn ganga menn lausir.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Gleðilegt ár.

skjahvila3 Ég óska öllum vinum mínum nær og fjær og einnig öllu því góða fólki sem ég hef kynnst í gegnum netið gleðilegs nýs árs með þeirri von  að nú fari loksins að birta til.

Með nýárskveðjum.

Þ. Jökull

PS. Myndin er stolin. Sorry Júlli.


Af gagnsæi og heiðarleika.

Ég fylgdist með umræðum á Alþingi í dag og hugsaði sitt af hverju  meðan á ósköpunum stóð.

Ég veit að hægt er að senda hunda á svokölluð hlýðninámskeið og í framhaldi af því datt mér í hug hvort ekki væri hægt að senda háttvirta þingmenn á námskeið þar sem þeir gætu lært sona sitt lítið af hverju um rökræður, rökstuðning, rökfærslur og guð má vita hvað, í stað þess að haga sér eins og ungar í sandkassaleik þegar slettst hefur upp á vinskapinn.

Ég skemmti mér reyndar ljómandi vel og bíð eftir sendingu morgundagsins.

Svo að öðru.

Nú er Jón garmurinn Sigurðsson kominn í Íslandsbanka en eins og alþjóð er kunnugt þá hætti hann snögglega hjá Fjármálaeftirlitinu korteri eftir hrun. Varla að ástæðulausu.

Það læðist að mér sú hugsun að hér sé nú ekki allt í samræmi við yfirlýsingar fjármálaráðherra þar sem komið er inn á gagnsæi og heiðarleika.

Eftir allt sem á undan er gengið kæmi mér ekki á óvart að stórfrétt nýja ársins yrði sú að Már seðlabankastjóri yrði látinn taka pokann sinn, fengi sjálfsagt sendiherrastöðu í Langtbortistan, það eru jú vinnureglurnar hjá ríksstjórnum, þar sem hann yrði engum til trafala.

Nýji seðlabankastjórinn yrði svo Davíð Oddsson sem kæmi inn sterkari en nokkru sinni fyrr.

Það eru töggur í Dabba kallinum.

Þetta er reyndar lýsandi dæmi fyrir vinnubrögð ríkisstjórna Íslands, sama úr hvaða væng stjórnmála þær koma. Að hygla vinum og vandamönnum, jú og flokkssystkinum, er mynstur sem seint eða aldrei kemur til með að breytast.

Burtséð frá þessum hefðbundnu leiðindafréttum og Icesave umræðunum sem halda áfram og áfram og...., þá hafa jólin hjá mér verið sannkallaður gleðigjafi. Við feðgarnir áttum einstaklega skemmtilegar samræður á jóladag. Það er helst á stórhátíðum sem ég læt eftir mér að nota símann svona hressilega.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og batnandi tíðar.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


Gleðileg jól.

skjahvila2

 

Ég óska öllum (blogg) vinum og vandamönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Bestu kveðjur.

Þ. Jökull


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband