Færsluflokkur: Dægurmál

Hugleiðingar að kvöldi dags.

Ég fylgdist með viðtalinu við Evu Joly í gær. Í framhaldi af því rifjaðist upp fyrir mér sú unaðstilfinning sem ég upplifði þegar hún rassskellti íslensku ríkisstjórnina í beinni útsendingu á sínum tíma.

Þá fyrst komst skriður á málin og enn skýtur hún föstum skotum.

Hún telur fullkomlega eðlilegt að kyrrsetja eigur manna og úrskurða þá í farbann meðan verið sé að rannsaka hugsanleg brot þeirra.

Hún segir líka fulla ástæðu til að spyrja hvort eðlilegt sé að Björgólfur Thor Björgólfsson komi að nýjum fjárfestingum í atvinnulífinu meðan enn sé verið að rannsaka bankahrunið.

Nú vona ég að þessar ábendingar hennar verði teknar til greina af viðkomandi aðilum því þetta eru jú skýr skilaboð.

Ljósið í svartasta skammdeginu eru orð hennar um að Íslendingar megi vænta tíðinda úr búðum sérstaks saksóknara innan skamms.

 Ég fékk svo fallega jólakveðju úr Danaveldi og myndabunka með. Valdi náttúrlega þá sem mér fannst fallegust og ekki spillir daman fyrir.12847_202563914939_712829939_2868572_1251107_n

Pjakkurinn minn er reyndar ekki pjakkur lengur, ekkert smá sem hann loksins hefur stækkað.Smile

Ég klóra mér bara í gránandi kollinum og skil ekkert í því hvað tíminn líður allt í einu hratt, en þetta er jú víst gangur lífsins.

Ég sakna þess að geta ekki eytt jólunum með honum en nú er bara að stefna á sumarfríið í staðinn.

Enn og aftur bið ég þess að nú fari að rætast úr fyrir okkur Íslendingum og réttlætið nái að sigra.

Þar til næst.

 

 

 

 


Heiðarleiki og hugsjón ofar öllu?

Ég hef ekki bloggað í fimm daga, hef setið með sveittan skallann yfir upprifjun á námsefni annarinnar og í dag tók ég svo lokaprófið, þriggja tíma törn, komst stórslysalaust frá því þannig að nú get ég haldið uppteknum hætti þ. e. að rífa kjaft á blogginu.

Mér varð um og ó þegar ég las fréttir síðustu daga. Þar ber hæst himinháar kröfur nokkurra kúlulánþega sem allir (öll) eiga það sameiginlegt að sitja í lykilstöðum í nýju bönkunum.

Svo ég vitni í DV þá eiga margir af núverandi framkvæmdastjórum Íslandsbanka háar launakröfur í þrotabú gamla Glitnis. Þrír þeirra fengu samtals 2.400 milljóna króna kúlulán til hlutabréfakaupa í Glitni í maí 2008.

Ekki beinlínis vasapeningar.

Talan er um litlar 800 millur per kjaft.

Mér blöskrar siðblindan og þessi taumlausa auragræðgi sem virðist hrjá þetta vesalings fólk. Augljóslega þekkir það ekki sinn vitjunartíma. Það verður fróðlegt að sjá á hvaða grunni þessar ólánssömu manneskjur byggja kröfur sínar.

Ég hélt í einfeldni minni að eftir allt sem á undan hefur gengið yrði nú stokkað hressilega upp og gagnsæið yrði allsráðandi. Ónefndur fjármálaráðherra lofaði okkur því að "hverju sandkorni yrði velt við til að uppræta spillinguna."

Ég bíð eftir efndunum.

Áfram með smjörið því úr nógu er að moða.

Nú rannsakar sérstakur saksóknari kaup huldumannsins Sjeiks Al-Thani  á hlutabréfum í Gamla Kaupþingi og þrjú önnur mál sem eitt stórfellt samsæri um markaðsmisnotkun forráðamanna bankans.

Mér hlýnar um gömlu slitnu hjartaræturnar þegar ég les frétt sem þessa. Sérstakur saksóknari er ásamt sínu starfsfólki greinilega að vinna verk sitt, og það vel.

Skyldi ekki jörðin vera farin að volgna undir fótum einhverra?

Svo er hér að lokum (einhversstaðar verða menn að stoppa) frétt frá ríkisendurskoðanda þar sem hann segir að meira tjón hljótist af tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans en Icesave, verði heimtur Landsbankans eins og spáð er. Fram kemur í fréttinni að  51 milljarður króna sé með trygg veð en verðmæti annarra lána er óljóst.

Hvers er ábyrgðin?

Nú sem endranær bið ég góðan Guð að halda verndarhendi sinni yfir okkur, styrkja okkur og leiðbeina í baráttunni við spillinguna og allt sem henni fylgir.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


Vonandi fer eitthvað að gerast.

Var að lesa frétt í Vísi sem yljaði mér.

Starfsmenn sérstaks saksóknara eru loksins komnir á fullt. Nú er setið fyrir fólki út um allan bæ og það fært til yfirheyrslu.

Ekki fara sögur af því hvort áðurnefndir starfsmenn hafi þurft að bregða böndum á mannskapinn en okkur hljóta að berast nánari fréttir af þessum aðgerðum síðar.

Segið svo að ekkert sé að gerast.

Ég velti því stundum hver staðan væri í dag ef Eva Joly hefði ekki komið til sögunnar.

Nóg um það að sinni því nú ætla ég að snúa mér að allt öðru.

Kunningi minn hringdi í mig og fáraðist yfir snjóskaflinum við húsið mitt, það væri ekki séns að kíkja í kaffi. Eðlilega, snjórinn náði upp yfir miðjuna á útidyrunum en nú er ég búinn að moka mig út.

Ekki seinna vænna, ég var orðinn tóbakslaus.

Annars er allt gott að frétta héðan af "nesinu."

Með bestu kveðju og lifi hið óspillta "Nýja-Ísland" og þar til næst.

 

 

 


Þar kom að því.

Það er ekki oft sem ég er sammála stjórnarandstöðunni en nú styð ég þau heilshugar.

Tillaga þeirra um að vísa Icesave bullinu frá Alþingi  og til ríkisstjórnar, þaðan til Evrópudómstólsins er það skynsamlegasta sem ég hef heyrt .

En mikið ósköp hefur það tekið langan tíma.

Skuldaskömmin má skrifast á tiltölulega fámennan hóp, talað er um 30 manns, sem einhverra hluta vegna hafa yfirgefið landið og rokka nú feitt erlendis.

Á hvers kostnað ?

Mér finnst ákaflega undarlegt þegar menn taka upp á því að flytja um miðja nótt, og ég velti fyrir mér hvað kunni að búa á bakvið.

Ég bíð óþreyjufullur eftir þeirri stund þegar þessir menn standa í dómssalnum. Sennilega gerist ekkert fyrr en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis liggur fyrir þann 1. febrúar. 

Það er hægt að fela margt á þeim tíma, en nú reyni ég að vera jákvæður og trúa á gagnsæið og heiðarleikann og að "velt verði við hverju einasta sandkorni til að komast fyrir spillinguna."

Þetta er það sem okkur var lofað.

Nú reynir á efndirnar.

Og sem endranær, lifi hið óspillta og gagnsæja Nýja- Ísland.

Þar til næst.

P.S. Væri ekki tilvalið að við tækjum bankana okkur til fyrirmyndar þ. e. þeir sem skipta um nafn oftar en ég skipti um nærbrækur (er nú samt talinn snyrtilegur maður), og breytum nafninu á landinu okkar í Nýja-Ísland?

 

 

 

 


mbl.is Ísland stefnir í greiðsluþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maddömur og fleira fólk.

Stundum rek ég augun í frétt sem fangar athygli mína óskipta.

Í þetta skiptið er um að ræða frétt/fréttir á því ágæta riti visir.is.

Nú ætla ég ekki að fetta fingur út í smá málfræðivillur eða einhverjar ambögur sem oftar en ekki virðast fylgja þeim Vísis mönnum.

Alls ekki.

Það er hollt að hlæja.

En, nú er það semsagt hin svokallaða "Miðbaugsmaddama" sem dæmd hefur verið fyrir að reka pútnahús.

So what?

Er þetta nokkuð annað en sjálfsbjargarviðleitni?

Svo ekki sé minnst á þá þjónustu sem áðurnefnd "hús" veita atvinnulausum ,örmagna, útslitnum og í stöku tilfellum blönkum" heimilisfeðrum" (einhversstaðar eiga þeir jú heima), að ógleymdum þeim sem vilja hvíla sig frá dagsins önn.

Fjandans vesen hjá stelpu sem var á góðri leið með að byggja upp gott "sprota"fyrirtæki að fara svo að sulla með eiturlyf.

Eins og ég hef alltaf sagt: Það fer ekki saman að reka útgerð og fjárfestingarfélag.

En lífsbjörgin er á næsta leiti þar sem hennar ágæti verjandi hefur lýst því yfir að öllum pakkanum verði áfrýjað til "Hæstaréttar," á þeim forsendum að þetta sé jú alltof þungur dómur.

Ég er honum svo hjartanlega sammála. Maður getur vel ímyndað sér örvæntingu viðskiptavinanna (það ku heita það í dag) ef bixið lokar.

Nei takk. Það gengur ekki.

Hins vegar mætti benda stjórnvöldum á að skattleggja "athafnasemina", það gæti skilað nokkrum þúsundköllum í gjaldþrota ríkiskassann í staðinn fyrir að velta öllu puðinu yfir á okkur sem borgum skatta, þ.e. öryrkjar, aldraðir og verkafólk.

Í hvert skipti sem ég heyri talað um gagnsæi læðast að mér ljótar hugsanir. Ég hef að öllum líkindum misskilið túlkun stjórnarliðins á þessu orði.

Ég var svo einfaldur að halda að gagnsæi þýddi að nú fengjum við óbreyttir að fylgjast með sem því er að ger(j)ast innandyra hjá stjórnarliðinu en það er augljóslega rangt.

Kolrangt.

Vonandi fer eitthvað að breytast nú þegar Kaup..úps, ég átti að sjálfsögðu við gamla Búnaðarbankann sem skipt hefur ham ,oftar en nöfnum tjáir að nefna, hefur fengið nýja eigendur.

Þá er bara að stefna á bjartsýnisverðlaunin og biðja þess að nú, loksins, takist að uppræta margra kynslóða gamla spillingu.

Lifi nýja og hérumbil óspillta landið okkar og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Traustið vex.

Nú sýna Norðmenn frændskapinn í verki og bjóðast til að aðstoða okkur við  rannsóknina á efnahagshruninu.

Frábærar fréttir og þá sérstaklega í ljósi þess sem á undan hefur gengið.

Þær eru ófáar bloggfærslurnar sem ég hef lesið þar sem hneykslast hefur verið á hinum Norðurlandaþjóðunum fyrir að halda að sér höndum í þeim erfiðleikum sem við glímum við.

Hver sæmilega þenkjandi maður ætti ekki að vera hissa á því. Hver vill lána manni sem ekki stendur í skilum?

Hvað þá heilu þjóðfélagi?

Við Íslendingar allir hljótum að vera Norðmönnum þakklátir fyrir framrétta hönd, nema kannski tveir förusveinar sem lögðu land undir fót og herjuðu á Noreg í þeim tilgangi að slá smá lán upp á kunningsskap og út á andlitið á sér.

Sú ferð var ekki farin til fjár.

Ég minnist orða formanns félags Ísl. stórkaupmanna þegar hún sagði að traust og vinátta væri nokkuð sem er gagnkvæmt.

Orð að sönnu.

Þeir eru nokkrir Íslendingarnir sem betur hefðu staldrað við og íhugað þessi orð áður en þeir misstu gjörsamlega stjórn á sjálfum sér í lífsgæðakapphlaupinu, svo ekki sé minnst á sýndarmennskuna,  hvers afleiðingar við þurfum að glíma við um ókomna framtíð.

Var fimmtán mínútna frægðin þess virði?

Og, eins og fyrri daginn þá óska ég hinu nýja og óspillta Íslandi sem lengstra lífdaga og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Norðmenn vilja aðstoða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú get ég ekki orða bundist.

Undanfarna daga hefur hæst borið á góma sparnaðaraðgerðir ríksstjórnarinnar og eins og fyrri daginn sýnist sitt hverjum, þ.e. stjórnarandstaðan er óvenju samhent í niðurrifsstarfseminni.

Eins og þeirra er von og vísa.

Enn og aftur á að ráðast að lífeyrissjóðunum rétt eins og það sé okkar eina og síðasta haldreipið.

Engu líkara en það sé sjálfsagður hlutur að lífeyrissjóðirnir borgi fyrir allt flippið og flappið sem misvitrum stjórnmálamönnum dettur í hug.

Alþjóð veit það er kreppa. Alþjóð veit líka við hverja er að sakast, utan þessi ca. þrjátíu prósent sem enn virðast svo veruleikafirrt að halda að allt 2007 "ástandið " komi aftur bara með því að kjósa yfir okkur framsóknaríhaldið að nýju.

En, nú verðum við að spara.

Það vitum við öll, utan kannski nokkrir fyrrverandi bankastarfsmenn sem enn virðast telja sig svo mikilvæga að þeir víla ekki fyrir sér að leggja fram tugmilljóna og jafnvel hundruðir milljóna kröfur í þrotabú gömlu bankanna á forsendum sem hver einasti skynsamlega þenkjandi fermingarstrákur myndi roðna af skömm yfir, bara við tilhugsunina.

Spara verðum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Í sjónvarpsfréttum kvöldsins var mönnum tíðrætt um skerðingu fæðingarorlofs. Allir eru sammála því að við verðum að spara en þegar á reynir þá rísa allir upp sem einn og mótmæla.

Mánaðarlífeyrir minn er kr. 142.811.oo.( niðurgreiðsla á lyfjum innifalin) Nettó!

Þegar ég er búinn að borga af húskofanum mínum (þessum sem byggður var 1942), og meðlagið með stráknum mínum, jah, þá er ekki mikið eftir.

Þó ég sjái ekki sólina fyrir einkasyninum þá koma þær stundir að ég styn undan mánaðar- reikningunum og hugsa hversu það hefði létt á mér ef strákurinn hefði komið undir, áður en ég missti heilsuna.

Næg voru tækifærin.

En ég læt ekki deigan síga. Eitt meðlagsár í viðbót sem er eins gott að standa í skilum með, því Danir líða ekki neitt slugs í þeim efnum, og svo taka við háskólaárin (vonandi) þar sem ég kem til með að gera mitt besta til að styðja  hann, og, ég veit að það kemur til með að ganga því ég hef einsett mér það!

Ég hef reynt í þessari færslu að tjá tilfinningar mínar og skoðanir, kannski smá fátæklegar, kannski virka þær illa á einhverja en það er ekki tilgangur minn að særa einn né neinn.

Við þurfum öll að líða fyrir afglöp smástráka sem héldu sig vera stóra.

Lifi hið óspillta Nýja Ísland(vonandi) sem lengst og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Af kvóta og kvótabraski.

Sjaldan hef ég glaðst jafnmikið yfir nokkurri frétt sem þessari.

"Hvergi hvikað frá fyrningarleið."

Það þarf ekki að leiða getum að því við hvað er átt. Loksins, eftir nær aldarfjórðungs brask og tilheyrandi svínarí sér vonandi fyrir endann. Grátkór kvótagreifanna emjar sem aldrei  fyrr og má með sanni segja að þar syngur hver með sínu nefi.

Skyldi sosum engan undra, þeir eymingjarnir verða jú að hafa oní sig og á.

Þó undarlegt megi virðast þá eru þeir, sumir hverjir, ekki alveg staur og í framhaldi af því vil ég enn og aftur benda á nokk svo góða færslu á síðunni: nilli. blog.is, undir því ágæta nafni ; Sjávarútvegur í herkví óheiðarlegra einstaklinga, dags. 22.10.09.

Ekki eru allir útgerðarmenn blankir.

Reyndar finnst mér út í hött að fara að dunda við það næstu tuttugu árin að innkalla veiðiheimildirnar. Frændur vorir Færeyingar voru ekki að tvínóna við hlutina heldur umbyltu öllu sínu kerfi með einu pennastriki um miðjan síðasta áratug. Einhverjir fóru á hausinn en aðrir komu í staðinn. Gott að vita til þess að væntanlegur skötuselskvóti sem leigður verður á 120 kr. kg kemur til með að skila dágóðri upphæð í galtóman ríkiskassann.

Í stað þess að renna í vasa einhverra fárra aðila.

Þess ber líka að minnast að, þrátt fyrir allt, er fiskurinn í sjónum sameign okkar Íslendinga og þegar ég heyri útburðarvælið í "Sægreifunum" þá læðist að mér sá ljóti grunur að ekki sé nú allt með felldu.

En nú er bara að vera jákvæður og vona að allir séu með sitt á hreinu, því þess má að lokum geta að ekki alls fyrir löngu voru Íslendingar í hópi heiðarlegustu og óspilltustu þjóða heims.

Með þeim orðum óska ég hinu óspillta Nýja Íslandi sem lengstra lífdaga.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Traust, trúverðugleiki, gagnsæi.

Þetta gætu hæglega orðið einkunnarorð Arion bankans, áður Nýja Kaupþing, áður KB banki, áður. . .  en úr því farið var að velja nafn úr grískum goðsögnum, af hverju ekki Íkarus?

Oss berast vægast sagt undarleg tíðindi úr stjórnarbúðum áðurnefnds banka. Sona almennt séð mun meginreglan í viðskiptum vera sú að selja þeim sem býður best. Það lærði ég ungur að árum, en allt er breytingum háð. Það mun augljóslega eiga við um bankaviðskipti líka þar sem stjórnendur hafa sagt að 40% eignarhlutur bankans í Högum sé ekki til sölu.

Aðspurðir hví hluturinn hefði ekki verið boðinn hæstbjóðanda vísuðu stjórnendur bankans í verklagsreglur, þar sem segir að að áframhaldandi þátttaka eigenda og stjórnenda byggist á því að þeir njóti trausts og þyki mikilvægir fyrir framtíð fyrirtækisins.

Verklagsreglur?  Traust??

Í einstaklega hjartnæmri tilkynningu frá bankanum leynast þau mörg gullkornin.

Ég veit varla hvar byrja skal.Woundering Þó er hér smá  klausa sem bókstaflega heillaði mig upp úr skónum.

"Leiðarljós bankans eru fagmennska, framsækni, umhyggja og tryggð þar sem viðskiptavinurinn er í forgrunni."

Er þetta ekki alveg magnað?  Hvaða viðskiptavin skyldi nú annars vera átt við?

Varla mig og mína líka því við erum bara óbreyttir borgarar sem berjumst við að láta enda ná saman.

Kúlulánþeginn Finnur Sveinbjörnsson talar um tímabærar breytingar, nýtt nafn stefnu og gildi og segir " Við erum á vissan hátt að segja skilið við hið gamla."

Varla gerist það með því að afskrifa  tugmilljarða skuldir Bónusfeðga og afhenda þeim svo fyrirtækin aftur á silfurfati. Álíka skynsamlegt og að hleypa ref inn í hænsnakofa.

Annars er varla hægt að tala um þá feðga sem eigendur Haga því þeir fengu jú 30 millur að láni frá Kaupþingi til að fjármagna "kaupin."

Ég fæ ekki betur séð en enn sé hjakkað í sama "gamla" farinu. Fögur orð breyta engu þar um.

Lifi hið "óspillta" Nýja Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hlutur í Högum ekki til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af einu og öðru.

Stundum rekst ég á frétt sem mér finnst einstaklega jákvæð. Því miður gerist slíkt alltof sjaldan.

Nú segir Stefán Eiríksson lögreglustjóri að þær hagræðingaraðgerðir sem lögreglan hafi þurft að grípa til hafi skapað svigrúm til að fjölga lögreglumönnum við embættið.

Spor í rétta átt. Svo er bara að bíða og vona að stjórnvöld sjái villu síns vegar og hætti við væntanlegan niðurskurð á fjárveitingum til Hæstaréttar, sem eins og hver sæmilega vitiborinn maður veit, er gjörsamlega út í hött.

Undarlegt nokk að ekkert skuli heyrast úr búðum ríkisstjórnarinnar hvað snertir þetta mál.

Í Viðskiptablaðinu las ég smá klausu sem snýr að flutningi lögheimila... eins og segir í fréttinni:   "Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lögmenn margra fjármálamanna hafi unnið að því að færa lögheimili þeirra að undanförnu til þess að ekki sé hægt að stefna þeim til riftunar né setja þá í þrot fyrir íslenskum dómstólum."

Mér koma í hug rottur sem flýja sökkvandi skip.

Hér kemur svo smá klausa úr Vísi sem ég hjó eftir.

"Löggjafinn hefur látið hjá líða að innleiða Evróputilskipun um varnarþingsreglur við gjaldþrot fjármálafyrirtækja. Af þessum sökum hafa engin riftunarmál verið höfðuð gegn þeim sem eru búsettir erlendis og hefur þetta haft neikvæð áhrif á endurheimtur í þrotabúi gömlu bankanna."

Og áfram með smjörið.

"En hvað ætla stjórnvöld að gera í málinu? „Við erum sem sagt að athuga lögfræðilegar afleiðingar þess ef menn flytja lögheimili og ég vil ekkert segja fyrirfram um það hver niðurstaðan úr þeirri vinnu verði. Þetta er bersýnilega eitt af því sem þarf að athuga," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra."

Ég vona að háttvirtur efnahags og viðskiptaráðherra sjái loksins ljósið og geri sér grein fyrir því að athugunin hefði átt að byrja fyrir löngu síðan.

Svo er hér smá frétt sem snertir kúlulánþegann Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra Nýja Kaupþings.

"Fyrrum stjórnendur og eigendur Atorku Group hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir telja sig ekki hafa setið við sama borð og til að mynda núverandi eigendur Haga í samningaviðræðum við bankann."

Óþarfi að hafa fleiri orð um það. Eða hvað?

Ég má ekki gleyma því jákvæða sem gerðist í dag en það eru ungar stúlkur sem komu fram í Kastljósi og fluttu lag við texta Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Þær skiluðu sínu af sóma og ég vænti þess að heyra meira frá þeim innan tíðar.

Að lokum vona ég að hið Nýja Ísland lifi sem lengst og vonandi óspillt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband