Færsluflokkur: Dægurmál

"Ég á þetta - ég má þetta."

Þessi fleygu orð, sem samkvæmt Ragnhildi Geirsdóttur fyrrverandi forstjóra FL-Group lýsa viðhorfi Hannesar Smárasonar þáverandi stjórnarformanns FL - Group, til fyrirtækisins, eiga örugglega eftir að festa sig í sessi sögunnar.

Hannes hefur komið víða við. Meðal annarra afreka má nefna fjárfestingu í AMR, eignarhaldsfélagi bandaríska flugfélagsins American Airlines sem reyndar hafði í för með sér 15 milljarða tap.

Var það ekki einmitt þá sem íslenskir fúskarar ætluðu að kenna uphafsmönnum flugsins að reka flugfélag?

Launakostnaður FL-Group nam 701 milljón króna á árinu 2007, sem deildist á 40 starfsmenn.

Laun Hannesar voru þetta ár 139,5 milljónir króna ásamt starfslokasamningi up á litlar 90 milljónir.

Dágóð verkamannalaun það.

Þann 1.11.2008 sagði áðurnefndur Hannes að varpa þyrfti betra ljósi á ýmsa hluti sem urðu í aðdraganda bankahrunsins. Hann sagði margt annað sem ég nenni ekki að tíunda hér, en hann nefndi ekki ofurlaunin.

Um Fl-Group sagði hann að hann sæi eftir ýmsum ákvörðunum sem þar voru teknar.

Þessi maður hélt sig vera fjármálasnilling.

Ég horfði á Kastljós áðan og meðal annars viðtalið við Ragnhildi Geirsdóttur sem, eftir á að hyggja, er best að hafa sem fæst orð um.

Daman fékk 130 millur í starfslok - eftir 5 mánaða starf sem forstjóri FL-Group - og talar um launakjör og uppsagnarfrest.

Það kemur að skuldadögunum hjá henni rétt eins og hjá okkur öllum.

Hér slæ ég botninn í þetta áður en ég kemst í vont skap yfir allri spillingunni sem blasir við okkur allsstaðar.

Áfram Nýja óspillta Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Staðfestir millifærslu frá FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera Bretar nú?

Hryðjuverkalög?

Búnir að nota þau.

Viðskiptabann?

Kannski en það kæmi þeim sjálfum í koll því hvað gott kemur frá Bretlandi?

Allavega ekki bílarnir sem lengi hafa verið með hæstu bilanatíðni heims í það minnsta þar til Toyota bömmerinn skall á.

Það væri þá helst að þeir tækju sig til og endursendu "útrásarvíkingana" sem flutt hafa lögheimili sín í hrönnum yfir pollinn ( rottur sem flýja sökkvandi skip?) í þeirri trú að þeir slyppu þá undan hinum langa armi laganna en slíkt er "stórur" misskilningur, sennilega sá "stórasti".

Eðlilega yrði að senda slíkan farm sjóleiðis sem gæti haft varanleg áhrif á heilsu fólks sem aldrei hefur migið í saltan sjó nema þá yfir borðstokkinn á einhverri snekkjunni sem lagt hefur verið í lygnum polli.

Að vísu er eitt dæmið sem vefst fyrir mér.

Hvað skyldi Tjallinn gefa okkur mörg atkvæði í Júróvisjón?

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Flugumferð bönnuð um Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn bláeygur sakleysinginn enn.

Eftir að hafa horft á Kastljósið þar sem Valgerður Sverrisd. fór á kostum í öllum sínum útskýringum er ég kominn á þá skoðun að landinu hafi verið stjórnað af gjörsamlega vanhæfu fólki, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið.

Nú má ekki skilja svo að ég ætlist til að háttvirt fyrrverandi, já og núverandi stjórnarlið skarti háskólagráðu en smá skynsemi gæti komið sér vel.

Ég uppgötvaði nýja hlið á samlöndum mínum eftir að hafa legið yfir "Skýrslunni". Tæplega 150 manns sem teknir voru á teppið af rannsóknarnefnd Alþingis voru í því að firra sig ábyrgð og benda á hvern annan. Ekki nóg með það, dagblöðin virðast hafa tekið upp svipaðan stíl ef horft er á útfærslur þeirra á því sem fram er komið, en þar er túlkunin greinilega í anda eigendanna.

Ég sem alltaf hef óskað þess að við gætum nú verið eins og dýrin í skóginum en við höfum greinilega ekki öðlast þann þroska enn.

Nú blasir reyndar við okkur stórt vandamál. Mjög svo stórt.

Eins og alþjóð veit þá eru húsnæðismál hins opinbera í megnum ólestri. Þar á ég að sjálfsögðu við fangelsismálin því þegar hvítflibbakrimmarnir verða tíndir upp, einn af öðrum, þá er úr vöndu að ráða.

Ég tel mig hafa ágætis lausn á því máli. Hef reyndar viðrað þá hugmynd hér áður.

Einfaldlega að skella mannskapnum í byggingarvinnu sem myndi gera öllum gott, þið vitið, útivistin og hreyfingin er öllum holl, velsældarspikið myndi hverfa og svo vita jú allir sem reynt hafa á eigin skinni hversu afkastahvetjandi það er þegar fólk er að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Svo ég slái nú botninn í þetta með einhverju jákvæðu því það gerist líka þá var ég að setja inn nýjar myndir af erfingjanum (þó svo þeir sem til þekkja viti mætavel að það verður fjandakornið ekkert að erfa þegar þar að kemur-en það er önnur saga).

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Baulaðu nú Búkolla mín.

Vilhjálmur er maður sem segir sína meiningu og þorir að standa við hana. Við þyrftum að eiga marga fleiri eins og hann.

Það sem Pálmi garmurinn hefur sér helst til dægrastyttingar þessa dagana er að kæra blaðamenn sem hafa lagt sig fram við að moka ofan af óþverranum sem þessi maður hefur skitið hist og her.

Eðlilega. Um að gera að halda andliti fram á síðustu stund, sem fer nú vonandi að styttast í.

Siðblindan sem blasir við okkur í hvert skipti sem Pálmi kallinn opnar kjaftinn er þvílík að hún gæti komið hverjum venjulegum heiðarlegum Mafíósa til að roðna af skömm bara við að heyra bullið.

En áfram æðir Pálmi.

Verði honum að góðu garminum.

Þetta er maðurinn sem ætlaði að kenna upphafsmönnum flugsins að reka flugfélag.

Það varð brotlending. Sosum engin furða, þegar pjakkar sem eru stútfullir af hugmyndum um eigið ágæti ,gleyma göllunum og fara á flug.

Mér kemur helst í hug gríska goðsögnin um Íkarus sem flaug of nálægt sólinni. Allir vita hvernig sú ferð endaði.

Pálmi er á sömu leið.

Þrátt fyrir kæru(r) á hendur fjölmiðlafólki þá veit almenningur hvert stefnir og ég skal alveg viðurkenna að þó ég telji mig ekki blóðþyrstan þá myndi ég ekki kippa mér upp við að sjá mannfj...... hengdan upp í hæsta gálga, væri jafnvel til í að kippa í spottann,ásamt meirihluta íslensku þjóðarinnar.

 Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Afþakkaði gjafabréf í Útsvari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinnaskipti?

Ég er búinn að kynnast alveg yndislegri konu.

Hún er smá ákveðin en það venst örugglega. Vona ég.

Hér er smá sýnishorn af samræðum okkar.

Jökull, þú varst búinn að lofa  að ryksuga.

"Já en...

Þú ætlaðir líka að skúra stigaganginn og vaska upp og setja í þvottavélina og...

"Já en...

Þú ætlaðir líka að skipta á rúmunum og sækja málningu á stofuna...

"Já en...

Jökull!!! Ég er búin að eyða deginum í að kenna grislingum að syngja, krökkum sem hafa engan áhuga á að læra og þegar ég kem heim þá finnst mér alveg lágmarkið að þú sért þó búinn að læra nóturnar sem ég setti þér fyrir.

Þegar hér var komið sögu ákvað ég að halda kjafti og klára að ryksuga já og skúra stigaganginn.

Hver veit, kannski tek ég mig saman og fer að rifja upp nóturnar.

Allt fyrir friðinn.

Þar til næst.

 

 

 


Kemur þetta nokkrum á óvart?

 

Allavega ekki mér. Þetta er bara ein af mörgum þeim fréttum sem dynja á okkur daglega. En ósköp finnst mér nú hlutirnir ganga seint fyrir sig. Á meðan við bíðum-og bíðum- eftir frekari aðgerðum þá virðist ekkert gerast annað en að einn útrásarvíkinganna sportar nú á Audi sportbíl upp á litlar seytján milljónir króna.

Hvaðan skyldu nú aurarnir hafa komið ?

Fréttir sem þessar eru reyndar orðnar hluti af okkar daglega lífi, smá svindl hér, smá þjófnaður þar, ekkert til að kippa sér upp við.

Mikið yrði nú samt ánægjulegt að fá frétt eins og að einn og einn útrásarvíkingurinn hefði loksins verið sóttur til saka og yrði látinn borga sína skuldaskömm í stað þess að velta því yfir á okkur óbreytta sem sitjum og blásum í kaun, því húshitunarkostnaður hefur hækkað upp úr öllu valdi síðan 2007, og maður kyndir ekki þegar enga olíu er að fá á fjandans ofninn.

Svo ekki sé minnst á rafmagnskostnaðinn.

Í onálag er verið að fresta útgáfu "svörtu skýrslunnar," einu sinni enn. Ég spyr sjálfan mig stundum hvað valdi, því varla halda þau í rannsóknarnefndinni að íslenska þjóðin þurfi að læra að lesa áður en skýrslan kemur út, og ekki þarf að bera við viðkvæmni því ég minnist þess þegar formaður áðurnefndrar nefndar kom fram í sjónvarpi og grét krókódílstárum yfir viðbjóðinum sem skýrslan ku búa yfir.

Nú er að bíða og sjá hvort verið er að skrúbba einhversstaðar og með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni,

og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Rannsakar 20 aflandsfélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Losins kom eitthvað af viti.

Á þessum umhleypingatímum er einstaklega ánægjulegt að fá frétt sem þessa. Þó fyrr hefði verið.

Nýgræðingur eins og Birgitta Jónsdóttir stendur sig vel og vonandi heldur hún sínu striki.

Mér virðist eftir öllu að dæma að þarna sé komin manneskja sem hefur bein í nefinu og er óhrædd við að halda sínum skoðunum fram. Ólíkt gamla genginu.

Svo er reyndar önnur sem þorir að standa upp í hárinu á "gamla genginu" en það er Lilja Mósesdóttir.

Nú sverja bankastjórnendur af sér allar ætlanir um bónus til starfsmanna og einn þeirra tekur svo sterkt til orða að segja að ekkert slíkt hafi komið til umræðu.

Ekki það?

Hér er samt smá tilvitnun í frétt frá Landsbanka Íslands, sem vel að merkja fékk milljarða styrk frá okkur skattgreiðendum svo allt rúllaði ekki á hausinn.

"Að frumkvæði kröfuhafa var gert samkomulag á milli skilanefndar Landsbanka Íslands hf.  (gamla bankans), fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs og Landsbankans (NBI hf.) um að hluti hlutabréfa í NBI hf. sem skilanefndin heldur nú á, myndi stofn fyrir kaupaukakerfi sem næði til allra starfsmanna og kæmi til framkvæmda  á löngum tíma."

Og áfram með óþverrann.

"Hugsanlegt er því að kaupaukakerfi taki gildi eftir að þessi hluti eignasafns bankans hefur verið endurmetinn í árslok 2012 eins og gert er ráð fyrir í samningunum."

Hver skyldi annars vera munurinn á kaupaukakerfi og bónusgreiðslum?

En nú skulum við snúa okkur að öðru.

Bakkabræður skála nú í einum dýrasta klúbbi Lundúnaborgar og hrósa happi yfir áframhaldandi velgengni sinni, á kostnað okkar skattgreiðenda þ.e. þeirra okkar sem ekki hefur tekist að forða aurunum okkar í skattaskjól erlendis, gera grín að þessum vesalingum sem hérlendis hefðu átt að geta komið í veg fyrir þeirra gjörning og gefa okkur almúganum langt nef.

Ýmsar áleitnar hugsanir vakna hjá mér, t.d. fyrir hverja starfa tekjuhæstu menn landsins þ.e. starfsmenn skilanefnda bankanna?

Skyldu þeir telja allt fram og skyldu þeir verða við ósk ríkisskattstjóra um upplýsingar varðandi þá sem stungið hafa undan skatti?

Ég lærði strax í bernsku að skattasvik væru bara ein útgáfan af þjófnaði. Í dag með allan þann her af allskyns fræðingum (sem fæstir hafa nokkru sinni séð fisk nema þá í neytendaumbúðum) hafa óefað allskyns nýyrði skotið upp kollinum. Það má víst ekki særa neinn.

Ekki einu sinni í réttarsalnum.

En nú fer að styttast í hengingarólinni hjá ýmsum, svo fremi sem rannsóknarskýrslan margfrestaða og margumtalaða verður birt ófegruð.

Ég vil vera svo bjartsýnn að ætla svo að þar verði engu undan stungið. Næstu dagar leiða það í ljós.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Formenn halda samstöðufund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram vellur viðbjóðurinn yfir okkur.

 

"Tap BYRs-sparisjóðs vegna afskrifta á lánum til stærstu eigenda sinna nemur að minnsta kosti 13 milljörðum króna og er í fæstum tilvikum um persónulegar ábyrgðir að ræða."

Er þetta ekki alveg í anda hins Nýja og heiðarlega Íslands?

Í Vísi í gær eru taldir upp nokkrir fjármálafurstar okkar. Menn sem hafa látið gamminn geysa og aurana fjúka, eða svo hélt ég óbreyttur.

Annað kom á daginn.

Þessir höfðingjar skulda upp fyrir skítug eyrun. Samt skal þeim hyglað. Skyldu þeir þora að láta sjá sig á götum Reykjavíkurborgar eða, skyldu þeir allir vera flúnir af skerinu?

Ég er enn að velta fyrir mér hvernig í ósköpunum standi á því að ég fái ekki afskrifaðan helminginn af Íbúðasjóðsláninu sem yrði ekki nema ein og hálf milla. Sennilega hef ég ekki verið nógu stórtækur.

Svo er hér ein matarmikil.

"Glitni tókst að fegra stöðu sína tveim dögum eftir þjóðnýtingu bankans og fimm dögum fyrir bankahrun, með því að losa hlutabréf í FL Group upp á 14 milljarða króna til félagsins Styrks Invests gegn láni með veði í bréfunum sjálfum. "

Er þetta ekki pjúra ólöglegt eða gilda aðrar reglur um höfðingjana en okkur óbreytta? Spyr einn fávís strákur af Snæfellsnesinu.

Áfram með drulluna.

"Deutsche Bank lánaði Novator, félagi Björgólfs Thor Björgólfssonar, í kringum fjóra milljarða evra, jafnvirði tæpra sjö hundruð milljarða króna á núvirði, í yfirtöku Novator á Actavis fyrir tæpum þremur árum." Reuters segir Deutsche Bank hafa reynt eftir mætti að selja kröfuna á hendur Actavis síðla árs 2007. Það hafi ekki tekist. Nú sé í skoðun að breyta láninu á hendur fyrirtækinu í hlutafé. Óvíst sé hvort það komi niður á eignahlut félags Björgólfs Thors í Actavis."

Á sama tíma fjölgar þeim sem leita  þurfa þurfa sér aðstoðar hjá líknarstofnunum þó ei sé til annars en að geta fóðrað ungana sína.

Eftir nokkra klukkutíma hefst fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í sögu lýðveldisins og að sjálfsögðu mæti ég fyrstur manna. Sárt svíður mér þó að geta ekki ýtt ESB bullinu út af borðinu svona í leiðinni , en því miður. Fyrst þurfum við að framselja auðlindir okkar í hendur erlendra fjárglæframanna og þegar að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur þá verður of seint um rassinn gripið.

Undarleg er forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni.

Það er nóg komið af þessum neikvæðu, já og daglegu, fréttum að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Sagan endurtekur sig.

Enn á að hygla bankastarfsmönnum, en á hvaða forsendum?  Jú, reynsluríka menn má ekki missa.

Ef þessir reynsluríku menn eru ekki sáttir við þau margföldu verkamannalaun sem þeir hafa, þá mega þeir bara pilla sig, þ.e. ef nokkur heilvita  maður og allra síst erlendur myndi láta sér detta í hug að ráða þetta fólk til starfa.

Hjáróma rödd fjármálaráðherra þegar hann blaðrar um heiðarleika, gagnsæi og, jú reyndar, að hverju sandkorni skuli velt við til að uppræta spillinguna ,minnir helst á vein hálfdauðrar hýenunnar í eyðimörkinni. Áðurnefndur ráðherra gerir sér augljóslega grein fyrir því að það eina sem heldur vinstri stjórninni gangandi er ótti fólks við að fá "hrunverjana" aftur yfir sig. Augljóslega starfar hann samkvæmt því.

Annars hafa undanfarnir dagar verið ósköp tilbreytingarlausir. Smá spilling hér, ögn meiri spilling þar, sem sagt, ofur íslenskt vetrarveðráttuástand.

Jói garmurinn í Bónus grætur krókódílstárum og ber sig illa undan viðbrögðum landans í sinn garð og sonarómyndarinnar-eftir allt það góða sem þeir feðgar hafi gert í þágu almúgans. Ekki fer sögum af viðbrögðum þeirra birgja sem hann hefur valtað yfir árum saman né heldur hvernig hann fjármagnaði kaupin á Floridahöllinni, þið vitið, 620 ferm. krílið á 150 millurnar,á sínum tíma, eða skrípaleiknum í kringum nafna millifærslurnar á því apparati.

Syndalisti þeirra feðga er lengri en tárum taki.

Svo grætur Jói garmurinn og ber sig illa yfir vonsku mannskepnunnar.

Megi hann grenja sem hæst og sem lengst.

Þessum mönnum ætlar kúlulánþeginn Finnur Sveinbjörnsson að hygla á grunni þeirrar miklu reynslu sem þeir hafi af rekstri fyrirtækja.

Það er eins gott að vera með sterkan maga.

Ég rak augun í frétt sem fjallar um smá  innherjasvik. Skitnar fimmtíu millur sem í reynd hljóta að koma hverjum einasta heiðvirðum þjófi til að roðna af skömm yfir þegar allir aðrir stela fyrir fimmtíu sinnum fimmtíu milljónir.

Á meðan smáfiskurinn berst um í þéttriðnu neti réttvísinnar sleppa mannætuhákarlarnir.

Og nú glyttir í úfinn í tannlausum kjafti breska ljónsins, þeir vilja semja. Hvað skyldi nú hanga á spýtunni?

Klausan sem ég las í Vísi segir allt sem segja þarf.

"Það sem Bretar og aðrar þjóðir óttast er það fordæmi sem þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave kann að setja. Það að almenningur fái að kjósa um skuldbindingar af þessu tagi getur haft víðtækar afleiðingar og orðið til þess að aðrar skuldugar þjóðir fylgi í fótspor Íslendinga. "

Ég vona að sem flestir gangi að kjörborðinu með þessi orð í huga og þar til næst

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Starfsmenn NBI eygja vænan kaupauka 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunhugsanir og margar ansi neikvæðar.

Þetta er eitt það jákvæðasta sem fram hefur komið frá stjórnarliða. "Að fara fram á lengingu fyrningar á fjármálagjörningum í líkingu við þá sem margir eignamenn gripu til í kringum hrunið. Það þýðir að stjórnvöld hafa lengri tíma til ógilda þá." En það er misjafn sauður í mörgu fé og þó Helgi Hjörvar hyggist koma með þetta frábæra frumvarp þá er allsendis óvíst að það komist í gegn. Því miður.

Hér er ansi góð klausa, svo ég stelist í Vísi einu sinni enn.

"Fjölmargir eignamenn færðu húseignir sínar, bíla og aðrar eignir yfir á eiginkonur sínar og aðra fjölskyldumeðlimi eftir bankahrunið. Með því reyndu þeir að tryggja að lánadrottnar gætu ekki gengið að eigum þeirra."

Það er kominn tíminn á að þessir "eignamenn"sem margir hverjir sporta í dag og lifa í allsnægtum fái að kynnast hungurssvipunni.

Í stað tveggja ára fyrningarfrests kemur Helgi Hjörvar með þá tillögu að slíkur frestur verði lengdur um helming, þ.e. fjögur ár. Nú reynir á samstöðuna innan stjórnarliða sem vonandi druslast til að standa saman, þó svo væri bara í þetta eina skipti.

Ég rak augun í smá grein um "útrásarvíkinginn" Magnús Þorsteinsson, þið vitið, þennan sem stakk af til Rússlands og hélt sig vera sloppinn frá gjaldföllnum skuldum hérlendis eins og ógreiddum sköttum, stöðumælasektum, Morgunblaðsáskriftinni og náttúrlega þessari fáránlegu Rúv. áskrift sem ég myndi líka stinga af frá ef ég ætti fyrir farseðli þó ekki væri lengra en til Færeyja.

En Maggi kallinn Þorsteins virðist vera í slæmum málum því nú er garmurinn rukkaður um tæpar átta hundruð milljónir í skatt.

Hugsið ykkur. Það er allsendis óvíst að drengurinn eigi krónu upp í þessa skuld, hann var lýstur gjaldþrota hér á landi og óvíst að hann eigi nokkrar eignir í Rússlandi sem hægt yrði að ganga að, sem leiðir hugann að því hvuddnin í fj....... hann fer að því að draga lífið fram þar fyrir austan. Þó Rússar hafi alltaf talist gestrisin þjóð þá láta þeir ekki valta yfir sig.

Jamm, þær eru margar hugsanirnar sem leita á mig nú árla morguns og sosum ekki allar jákvæðar. Það þarf eitthvað mikið að gerast áður en ég fer að treysta og trúa á það lið sem ku ætla að leiða okkur úr þeim ógöngum sem fámennur hópur manna leiddi okkur í.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband