Færsluflokkur: Dægurmál

Enn dynja ótíðindin á okkur...

...og nú er það Glitnir.

Þessar fréttir ættu ekki að koma neinum á óvart nema þá helst fyrrverandi ráðamönnum bankans, hvar svo sem þeir fela sig í dag.

Hvar var Fjármálaeftirlitið??

Mér finnst reyndar, eftir níu ára búsetu hérlendis, að kastljósið hafi beinst einum um of að þeim sem síst eiga það skilið, þ. e. þeim sem virkilega eiga sök á þeim hörmungum sem íslenska þjóðin gengur í gegnum, í dag.

Viðkomandi drita afsökunarbeiðnum til hægri og vinstri, gráta krókódílstárum og halda svo uppteknum hætti.

Ekki orð um heimskreppu. Okkar vandamál er heimatilbúið.

Sem má skrifast á reikning tiltölulega fámenns hóps sem með græðgisglampann í glyrnunum hélt sig vera gjaldgengan innan "elítunnar" erlendis en uppskar athlægi.

Senn kemur að skuldadögum þó mér finnist hlutirnir mættu ganga hraðar en "Vel skal vanda til verksins."

Nú skulum við aðeins kíkja á (viðskipta) siðferði.

Nú situr Ársæll nokkur Hafsteinsson sem einn af yfirmönnum skilanefndar Landsbankans, sem er ekki í frásögur færandi , væri það ekki fyrir þá staðreynd að hann var áður yfir útlánaeftirliti Landsbankans.

Það kemur eitt og annað athyglisvert fram í frétt Vísis og þá sérstaklega svör Ársæls við, kannski, óþægilegum spurningum.

" Hann sagði tengsl sín við Björgólf Guðmundsson engin.  Hann kom ekki nálægt þeim ákvörðunum skilanefndar og slitastjórnar um að krefja fyrrverandi bankastjóra Landsbankans um "þessa milljarða."  "Hann sagðist ekki hafa verið, sem yfirmaður lögfræðisviðs og útlánaeftirlits Landsbankans, í stöðu til að stöðva einstakar lánveitingar."

Augljóslega hefur Ársæll ekki verið hærra metinn en grunnskóladrengurinn sem ber út póstinn í sumarfríinu sínu. Sennilega hefur hann sofið á sínu græna eyra þegar allar stærri ákvarðanir voru teknar.

Sennilega þekkir hann ekki orð eins og viðskiptasiðferði.

Erlendis, í það minnsta í siðmenntuðum löndum, er þumalputtareglan sú að leiki minnsti grunur á að starfsmaður hafi ekki staðið sig sem skyldi, víkur sá hinn sami til hliðar á meðan á rannsókn stendur. Fyrirkomulag sem því miður verður seint eða aldrei tekið upp hérlendis.

Allir hafa jú eitthvað að fela.

Af nógu er að taka en þó svo við öryrkjar og aldraðir höfum verið skikkaðir til að borga skuldir óreiðumanna, samanber frystingu lífeyris frá 1. 1. 2011, þá verður svefninn ekki tekinn frá okkur.

Ekki enn.

Ég vona að þessar hugleiðingar mínar veki fólk til umhugsunar og þar til næst.

 

 

 

 

 


mbl.is Segja að bókhald Glitnis hafi verið í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segið svo að það gerist aldrei neitt.

Ef vel er leitað þá má alltaf finna eitthvað bitastætt sem smjattandi er á.

Lítum bara á eftirfarandi.

"Ríkisendurskoðun skammar fjársýslu ríkisins fyrir bruðl."

Orð sem betur hefðu verið sögð fyrir löngu. Ef litið er til reynslu undanfarinna ára má ætla það borna von að núverandi ráðamenn komi til með að sjá ljósið því bruðlið og óráðsían geisar nú, aldrei sem fyrr.

Kæmi mér ekki á óvart ef málið sofnaði í nefndinni, nú eða undirnefndinni, nú eða...

Samanber utanríkissnobbþjónustuna. Þar reynir Össur Skarphéðinson að draga í land og vitnar í fækkun  fjöldi útsendra starfsmanna ráðuneytisins úr 71 í 54, sl. 4 ár. 

Nú velti ég fyrir mér; Skyldu nímenningarnir,sem í dag vappa um auða sali á Rauðarárstígnum með þeim tveim meðtöldum sem aldrei hafa gegnt störfum sendiherra erlendis, vera inni í tölunni  ?

Margt annað gómsætt er í boði ráðamanna vorra, núverandi og fyrrverandi eins og til dæmis viðtalið við fyrrverandi  fjármálaráðherra er hann viðraði visku sína og tjáði okkur óbreyttum að a) Það var ekki hlustað á hann, b) hann væri að sjálfsögðu blásaklaus af öllu mögulegu.

Ánægjulegt að vita til þess að enn finnist heiðarlegir menn hérlendis.

Þessu er ekki lokið enn því hér kemur ein ágæt: Samninganefnd Starfsgreinasambandsins kynnti samninganefnd Samtaka atvinnulífsins kröfur sínar í komandi kjarasamningum á fyrsta formlega fundi viðsemjenda. Krafan hljóðar upp á 200 þúsund króna lágmarkslaun og að almennar launahækkanir verði að koma til framkvæmda strax.

Út í hött. Vinnuveitendur koma aldrei til með að samþykkja slíkar kröfur einfaldlega vegna þess að fyrirtækin standa ekki undir frekari útgjöldum.

Lengi getur vont versnað og nú fer Framsóknarmaddaman Vigdís Hauksdóttir mikinn og lætur móðan mása um kjörna stjórnlagaþingmenn.                                                                             Raddir Framsóknarflokksins eru margar og sumar hverjar óttalega hjáróma. Skiptir þá engu máli úr hvaða horni er geyjað.

Hér kemur svo toppurinn oná tertuna:

"Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Sjómannasamband Íslands og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna mótmæla harðlega öllum hugmyndum um sölu ríkisins á aflaheimildum."

Mér finnst eðlilegt að allur viðbótarkvóti verði seldur í stað þess að rétta hann í hendur misgráðugra útgerðarmanna sem í alltof mörgum tilfellum hafa farið fram úr sjálfum sér.

Að lokum er hér smáklausa en þar er vísað til svara Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, við spurningum Þórhalls Gunnarssonar um málefni félagsins Stíms, sem eins og alþjóð veit að Landsbankastjóra kannski undanskildum, er undir sama hatti og Skinney-Þinganes en í þessum tilfellum virðast forsprakkarnir hafa fengið afskriftir í hvert skipti sem að endurnýjun einkabílsins var komið.

Tilsvör Steinþórs Pálssonar, bankastjóra, jaðra við snilld.

"Ég skal bara benda á eitt...Og þeir segja, ... og þeir gefa okkur góða umsögn... að jafnræðis sé gætt."

"Þetta er í grunninn mjög einfalt, við erum með reglur sem við vinnum eftir."

Með þessum viturlegu orðum býð ég öllum góða nótt og þar til næst.

P. S. Nú held ég að fj...... tölvan sé að hrynja.

 

 

     

       

 

 

 

                                                                                                      

 


mbl.is Ekki nógu vel staðið að framkvæmd launalækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er illt í efni.

Já...dapurlegt er ástandið.

Nú eru hvítflibbahöfðingjarnir, sannir synir Íslands, menn sem hafa haldið uppi orðstí þjóðarinnar á erlendum vettvangi, menn sem sumir hverjir hafa fengið Fálkaorðuna o.sv.frv. behandlaðir rétt eins og venjulegir skinkuþjófar.

Það er af sem áður var.

Dansinn í kringum kálfinn dunar ekki lengur. Gullátið heyrir fortíðinni til.

Í dag bárust oss þær hörmulegu fréttir að fyrrverandi stjórnendur Landsbanka Íslands (þess gamla) hafi verið teknir á beinið af, ekki bara slitastjórn bankans heldur líka skilanefndinni, og þeim brigslað um óheilindi í starfi sínu. Um er að ræða menn sem ekki mega vamm sitt vita. Í það minnsta að eigin sögn.                                    

Nú eru þeir rukkaðir um þvílíkt stjarnfræðilegar upphæðir að mér er til efs að nokkur maður hafi nokkru sinni geta stolið svo miklu, nema kannski eigendur bankans.

Það virðist, svona fljótt á litið, vera allt önnur saga.

Samúð mín er öll og óskipt með vesalings Sigurjóni Þ. Árnasyni. Ekki nóg með hann sé rukkaður um 37 milljarða heldur er hann líka atvinnulaus (að mestu) síðan í okt.2008.

Í onálag gæti hann orðið gjaldþrota líka.

Skítt með gjaldþrotið. slíkt er bara daglegt brauð í íslenska velferðarsamfélaginu en atvinnuleysi hlýtur að vera erfiður biti að kyngja.

Nú veit ég ekki hvort kallinn er á atvinnuleysisbótum eða hvort hann þiggur félagslega aðstoð en mér varð hugsað til jólanna. Synd ef hann fer í jólaköttinn.

Jólasteikinni getur hann reddað ef hann fer í einhverja af biðröðunum fyrir utan hjálparstofnanirnar (bara að búa sig vel) en svo er það jólagjöfin. Kannski einhver "Samverjinn" miskunnsami sig yfir hann.

Kannski reddast þetta allt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


Að kosningum loknum.

Ég óska nýkjörnum stjórnlagaþingmönnum til hamingju og hef trú á að þeir skili því mikla starfi, sem þeirra bíður, með sóma.

Þetta er að mínu mati góður og sannfærandi þverskurður af þjóðinni. Ég hefði reyndar kosið að sjá fleiri héðan af landsbyggðinni en kannski hefur kosningaþátttakan haft sín áhrif.

Nú vona ég að háttvirtir alþingismenn okkar sjái sóma sinn í að leggja þær breytingar sem fram eiga eftir að koma frá stjórnlagaþinginu óbreyttar í dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.

Það er ekki bætandi á ólguna í þjóðfélaginu.

Það er þetta litla og sakleysislega orð "ráðgefandi" sem vonandi hefur villst inn af vankunnáttu og aulahætti þó svo orð eins og  sjálfhygli og flokkadrættir hafi flogið fyrir.

Kjördæmapot og sjálftökur eiga að heyra fortíðinni til. Því miður sjáum við dæmin um slíkt allt að því daglega  þegar verið er að hygla vinum og vandamönnum með góðum stöðum hjá hinu opinbera og að sjálfsögðu á kostnað hins almenna borgara þessa lands. Svo koma réttlætingar og rökfærslur sem oftar en ekki eru viðkomandi til háborinnar skammar.

Að ógleymdu fj...... bruðlinu í utanríkisþjónustunni á sama tíma og allt er í upplausn hér heima fyrir.

Ef einhver glóra væri í forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar færu börnin okkar södd til sængur.

Ég bind vonir mínar og væntingar við stjórnlagaþingið. Annars er bara að treysta á innbyrðis deilurnar hjá ráðamönnum og efna til alþingiskosninga.

Frændur okkar Færeyingar létu ekki í ljós óánægju sína, snemma á síðasta áratug, með bumbuslætti en að alþingiskosningum loknum ´94 kom í ljós að helmingur þingmanna var úti og inn kom ungt og dugandi fólk sem fylgdi sannfæringu sinni og hugsjón.

Ég efast ekki um að slíkt fólk sé sitjandi á alþingi okkar en forystusauðirnir leiða hjörðina.

Með þessum hugleiðingum mínum kveð ég og þar til næst.

 


Áfram Nýja-Ísland!

Það er af sem áður var þegar kvótagreifar og aðrir greifar gátu valsað inn og út í bönkum bankaríkisins "Gamla Íslands" og slegið lán út á smettið á sér.

Í dag eru reglur!

Í dag kemst enginn upp með slíka háttsemi.

O sei sei nei.

Í dag verða menn að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það bankar enginn uppá hjá háttvirtum Nýja-Landsbankastjóra, Steinþóri Pálssyni, með milljarða skuld á herðum sér.

Fyrst skal afskrifa, sem er í góðu lagi því svo vitnað sé í orð áðurnefnds bankastjóra, skuldirnar lenda bara á "Gamla-Landsbanka."

Enn og aftur iðrast ég þess að hafa ekki lagt stund á viðskiptafræði í stað þess að hjakka í félagsvísindum. Það er hinsvegar aldrei of seint að snúa við blaðinu og sækja um hjá Jakobi Valgeiri Flosasyni og læra fræðin af honum. Það segir sig sjálft að fyrirtæki eins og Jakob ehf. og tengd félög, sem skulduðu 31, 8 milljarða við fall bankanna, svo vitnað sé í Rannsóknarskýrslu Alþingis, og komust upp með það sýnir ekkert annað en tæra snilld.

Guð láti á gott vita!

Smá tilvitnun hér: "Skuldir Jakobs Valgeirs og tengdra félaga við stærstu banka og fjármálastofnanir námu við fall bankanna í október 2008 samtals 31,8 milljörðum íslenskra króna, þar af 17,2 milljörðum við Landsbankann og 14,6 milljörðum við Glitni.  Það er ljóst að mikill hluti þessara skulda verður aldrei greiddur, enda veð bankanna að stórum hluta í hlutabréfum í þeim sjálfum eða tengdum fyrirtækjum einsog Exista hf. Auk þss tóku Glitnir og Landsbankinn að hluta til önnur veð fyrir lánunum. Þannig voru  bæði Þorlákur ÍS 15 og aflaheimildir hans, í eigu Jakobs Valgeirs ehf. og hlutabréf í útgerðarfélaginu Guðbjarti ehf. sett að veði fyfir lánum, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni."

Enn og aftur: Tær snilld.

Nú velti ég fyrir mér: Skyldi Landsbankastjóri hafa lært af Jakobi Valgeiri eða var það á hinn veginn?

Skyldum við Íslendingar hafa lært, og þetta veit hver einasti grunnskólanemi, að ef stofnað er til skulda þá þarf að greiða þær.

Skyldum við Íslendingar hafa lært, og þetta veit hver einasti framhaldsskólanemi, að ef skuldir eru afskrifaðar þá lenda þær á einn eða annan hátt á aumum herðum þeirra sem minnst mega sín.

Samanber frystingu lífeyris frá 1. jan. næstkomandi.

Það sem ég hef sett fram hér og stundum á kaldhæðinn hátt lýsir eingöngu mínum persónulegu skoðunum og hafi orð mín sært einhvern þá vona ég að slíkt hafi ratað rétta leið.

Ef viðkomandi aðilar eru ekki of siðblindir til að skilja boðskapinn.

Með þessum orðum kveð ég að sinni og þar til næst.

 

 

 


mbl.is Skuldsetning hafin á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum sárnar mér...

...sá tvískinnungur og óheiðarleiki sem blasir við mér í hvert skipti sem ég les fréttir dagsins og gildir þá einu í hvaða horn er litið.

Eins og fyrri daginn er af nógu að taka. Nú hefur stjórn Íbúðalánasjóðs ákveðið að ganga framhjá þremur þeim umsækjendum sem þóttu hæfastir í stöðu forstjóra sjóðsins og ráða mann sem "var ekki í hópi þeirra sem hæfastir þóttu, hvorki í fyrri eða síðari atrennu, en tvívegis var staðan auglýst laus til umsóknar sökum tafa og vandræðagangs." 

Beðið er í ofvæni eftir rökstuðningi stjórnarinnar, sem samkvæmt öllum kokkabókum verður án efa skrautlegur.

Ég reyni að vera bjartsýnn því þetta er jú hið "Nýja Ísland" þar sem hverjum steini skal velt við svo óhroðinn komi upp á yfirborðið. Málið er bara að steinarnir virðast rúlla í sama farið aftur.

Nú hefur Ríkisendurskoðun ákveðið að taka málefni meðferðarheimilisins Árbótar til skoðunar og varla að ástæðulausu.

Ég horfði á þá Tryggva Þór Herbertss. og Björn Val Gíslason skiptast á skoðunum varðandi áðurnefnt meðferðarheimili og kom þar eitt og annað fram sem reyndar er búið að vera í fjölmiðlum undanfarna daga.

Björn Valur reyndi að verja aðgerðir fjármálaráðherra sem, ásamt þáverandi félagsmálaráðherra, ákvað að dæla samanlagt 30 milljónum í apparatið, eftir lokun þess, á þeim forsendum að eftir hefðu verið tvö og hálft ár af samningstímabilinu og eitthvað var minnst á sanngirnisástæður.

Í samningnum kom reyndar skýrt fram að uppsagnarfresturinn var sex mánuðir og að tala um töpuð störf og sanngirni er þvílík tjara því eftir minni bestu vitund er rekið gistiheimili að Árbót í dag og eftir myndum að dæma er það ekki í lægri klassanum.

Hver skyldi svo borga brúsann þegar upp er staðið?

Það er ekki glætan að hátekjumenn eins og þeir báðir tveir skilji að þegar að gjalddaga kemur þá er það hinn íslenski launþegi sem borgar.

Kúlulánþeginn Tryggvi Þór fékk lánið sitt afskrifað og þáði sextán og hálfa milljón frá Askar Capital á sama tíma og hann gegndi stöðu efnahagsráðgjafa forsætisráðherra árið 2008. Ekki virðist sú efnahagsráðgjöf hafa gagnað neinum nema honum sjálfum.

Þegar Tryggvi Þór tók við sem efnahagsráðgjafi var rekstur Askar Capital erfiður og nam heildartap af starfseminni 12,4 milljörðum króna árið 2008.

Aðspurður hvort það hafi verið eðlilegt að þiggja bónusa þegar tap var af starfseminni segir hann: „Reksturinn fyrri part ársins 2008 var ekki erfiður. Ekki þannig. Tapið kemur ekkert í ljós fyrr en í hruninu."  Á sama tíma þáði hann laun sem efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar.

Björn Valur er ekki beinlínis á horleggjunum heldur með sínar þrjár húseignir: Íbúðarhús að Hlíðarvegi 34 í Ólafsfirði, Íbúðarhús að Stekkjargerði 12 á Akureyri, Íbúðarhús að Byggðavegi 96 á Akureyri (50%), (býst við því að konan eigi hinn helminginn), og svo eru það bílarnir:  Honda CR-V heimilisbifreið árgerð 2005 og Subaru Impreza heimilisbifreið árgerð 1998 (sem sennilega þyrfti að fara að endurnýja).

Ekki má gleyma "viðskiptafléttunni" hans Jakobs Valgeirs Flosasonar sem er unnin af þvílíkri snilld að jafnvel færustu viðskiptafræðingar þjóðarinnar klóra sér í kollinum í forundran.

Reyndar er honum tileinkaður hvorki meira eða minna en heill kafli í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Spurning hvort ég gæti ekki fengið starf hjá honum sem skutilsveinn, setið við fótskör hans og lapið í mig fróðleikinn, sem greinilega lekur af honum, og lært viðskiptafræðin sem hljóta að vera bitastæð úr því drengstaulinn getur rokkað á milli "Gamla og Nýja Landsbanka" og fengið milljarða afskriftir eftir behag.

Sem leiðir getum að störfum núverandi stjórnenda Landsbankans.

Svo ég dragi nú skoðanir mínar og hugsanir saman þá get ég bara sagt:

Stundum sárnar mér.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


O seiseinei.

Mörg eru gullkornin sem hrotið hafa af vörum Jóns Ásgeirs en þetta toppar allt.

"Rannsóknin snýr ekki að mér persónulega."

Auðvitað snerist rannsóknin ekki að honum persónulega. Sérstakur hefur sennilega ekki haft neitt fyrir stafni og leiðst aðgerðarleysið. Húsleitin sem framkvæmd var í húsakynnum 101 Hótels við Hverfisgötu hefur að öllum líkindum verið í þeim tilgangi að leita músa.

Þegar kemur að hugmyndafluginu á Jón Ásgeir fáa sína líka. Sem sést best á tilsvörum hans.

Nú í aðra sálma.

Fjármálaráðherra okkar hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, löngu tímabært en betra seint en aldrei. Reyndar finnst mér alltof seint um rassinn gripið þegar tekið er tillit til tímalengdar frá því okkur berast tíðindi af misferli óprúttinna aðila þar til ráðamenn þjóðarinnar vakna af drómanum.

Ég rak augun í frétt sem vakti áhuga minn en þar er fjallað um frumvarp sem efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði fram í dag og fjallar um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Það sem sló mig voru orð Eyglóar Harðardóttur er hún sagði að lögum um fjármálafyrirtæki hefði verið breytt sjö sinnum frá því bankarnir féllu haustið 2008 og því hefði verið mjög einfalt mál að setja inn þessar breytingar, sem nú væri verið að gera, fyrr og þingmenn hefðu þá getað gefið sér meiri tíma og haft textann skýrari.

Sjö sinnum?

Ef háttvirtir þingmenn okkar eyddu minni tíma í málþóf og argaþras þá kannski gengi greiðar að leysa þau vandamál sem að okkur steðja úr öllum áttum.

Til þess var jú mannskapurinn kosinn en því miður virðast alltof margir hafa gleymt því.

Ánægjulegu tíðindin, því þau gerast stöku sinnum, eru úthlutun verðlauna Jónasar Hallgrímssonar en þau hlaut frú Vigdís Finnbogadóttir og að mínu mati og meirihluta þjóðarinnar var engin að þeim betur komin en hún.

Með þessum orðum kveð ég að sinni og þar til næst.

 

 


mbl.is Ekki boðaður til yfirheyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landinn er samur við sig.

Eigi alls fyrir löngu lögðust (fyrrverandi) eigendur World Class í "útrásar" víking og herjuðu á Danaveldi og þá væntanlega í þeim tilgangi að lagfæra vöxtinn á danskinum.

En "ynk og jammer", eitthvað fór úrskeiðis því þegar upp var staðið reyndist hugmyndin sem froða í flæðarmálinu.

Ekki fer sögum af líkamsvexti Dana eftir þetta ævintýri.

Í frétt mbl. er smá klausa sem segir svo óhemju mikið.

" Sama dag og Þrek (sem áður rak W. C.) fór í þrot keypti annað félag helstu eignir úr félaginu. Sömu stjórnendur eru í báðum félögum, ýmist í stjórn eða framkvæmdastjórn."

Tær snilld. 2007 hugsunin enn við lýði.

Og áfram höldum við.

" Fyrir þetta greiddu eigendurnir fyrrverandi fimm milljónir króna í reiðufé og yfirtóku skuldbindingar gagnvart starfsmönnum fyrir 20 milljónir."

25 milljónir fyrir eignir sem metnar eru á 700 milljónir.

Burtséð frá þeirri staðreynd að hér ríkir réttlæti sem hefur í för með sér að svona gjörningum verður rift þá velti ég fyrir mér: Hvuddnin ætla fyrrv. eigendur að behandla þessar 20 milljóna króna skuldbindingar?

Skipta um kennitölu? Mér skilst að nú sé verið að vinna í því að koma böndum á kennitöluflakkið og löngu tímabært.

Rétt í þessu var Bjössi í WC að leiðrétta áður fram komnar upplýsingar. Hann heldur því fram að hann hafi greitt 300 millur, ekki 25 og segir að  eignarhaldsfélagið Þrek hafi farið yfir um vegna útrásar fyrirtækisins til Danmerkur!

Slíkt getur gerst þegar menn fara fram úr sjálfum sér.

Svo segir hér af atvinnurekanda einum sem fékk sekt upp á 92 milljónir og 9 mán. skilorðsbundinn dóm  fyrir stórfelld brot gegn skatta- og bókhaldslögum. Það kemur fram í fréttinni að viðkomandi hafði hvorki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum, né staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti á árunum 2004 til og með 2008.

Það er ekki nýtt af nálinni hérlendis að menn laumi undan krónu hér og krónu þar. Svona þegar sjálfsbjargarviðleitnin er komin út í öfgar. Það sem hins vegar vekur undrun mína er hvernig í ósköpunum hann komst upp með þetta árum saman.

Er ekkert eftirlit með svona löguðu eða sváfu menn á verðinum?

Speki dagsins kemur, eins og svo oft áður, úr munni Vilhjálms Egilssonar er hann lýsir því yfir að 20 milljón króna árslaun framkvæmdastjóra Glitnis séu ekki of há miðað við það vandasama starf sem hann inni af hendi.

Fyrir nokkrum dögum hélt þessi sami maður því fram að þar sem atvinnuleysisbætur væru hærri en lægstu laun þá ætti að lækka þær. Hann sér augljóslega bara aðra hliðina á peningnum.

Úr því ekki virðist vera til í dæminu að hækka lægstu leyfilegu laun svo ungarnir okkar geti í það minnsta farið södd til hvílu (lesist: Þurfi ekki að gramsa í ruslatunnum) þá ætti hann að reyna á sínum eigin skráp að draga fram lífið á þeirri smánarupphæð sem alltof margir þegnar þessa lands mega sætta sig við. Reyndar er hvergi til sá lagabókstafur sem bannar vinnuveitendum að hækka laun starfsfólks síns svo ég vitni nú í formann Verkalýðsfél. Akraness.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


Úr einu í annað.

Ég rak augun í frétt sem fjallaði um hönnun væntanlegs gistihúss á vegum hins opinbera, þ. e. 50 manna fangelsisrými sem, miðað við forgangsröðunina hjá  núverandi ráðamönnum, kemur seint til með að rísa.

Það sem reyndar vakti athygli mína var að leitað hefur verið til Dana hvað varðar hönnun áðurnefnds hótels þegar íslenskir arkitektar ganga atvinnulausir í tugatali.

Hvernig á að réttlæta slíkt?

En svo litið sé í fleiri horn þá hefur flogið fyrir að byggingin gæti kostað allt að 700 milljónir. Á sama tíma stendur gamli Vífilsstaðaspítalinn auður. Sjálfsagt þarf að hressa upp á húsnæðið en það yrði öllu ódýrara en að byggja.

Svo má líka nefna Arnarholt á Kjalarnesi þar sem tómar byggingar fá, ef allt fer samkvæmt vinnubrögðum ráðamanna vorra, að grotna niður en þar mætti hæglega innrétta fyrir 40 - 50 gesti.

Það er ekki eins og þurfi að rjúka upp til handa og fóta og byggja 5 stjörnu hótel.

Það er jú kreppa þó hálaunafólkið merki það ekki á sínu skinni.

Mér eru minnisstæð orð fyrrverandi dómsmálaráðherra þegar hún sagði að peningar væru ekki til.

Illu heilli þá er hún ekki lengur í því embætti og ekki ein einasta glæta að orð hennar hafi síast inn í heilabú misvel gefinna stjórnmálamanna okkar.

Einnig má nefna sumarhús Sigga garmsins Einarssonar að Veiðilæk í Borgarbyggð þar sem fyrir forsjálni kallsins var sett skothelt gler í glugga, hver svo sem ástæðan kann að hafa verið, og væri tilvalið sem "gistihús" í það minnsta fyrir hvítflibbakrimmana.

Austur-evrópsku glæpagengin sem haslað hafa sér völl hérlendis ber að endursenda til síns heima þar sem þeir fá að kynnast vist upp á vatn og brauð.

Í orðsins fyllstu merkingu.

Nú hefur ríkisstjórnin lagt fram atvinnumálatillögur sínar á Suðurnesjum og stjórnarandstaðan brást við á hefðbundinn hátt og lýsti yfir frati á allan pakkann.

Einfeldningurinn ég hélt að liðið sem kosið var til Alþingis hefði það að markmiði að starfa að uppbyggingu gjaldþrota þjóðfélags en öllum getur skjátlast, meira að segja mér.

Í onálag megum við búast við því að borga skuldir óreiðumanna (og þar rataðist Davíð satt á munn) upp á litla 92 milljarða sem sóttir verða í vasa almennings á einn eða annan hátt. Hvernig hægt er að réttlæta slíkar aðgerðir, því Landsbankinn var jú einkabanki, er ofvaxið mínum skilningi og sérstaklega þegar fyrrverandi eigendur bankans virðast geta fengið afskriftir eftir pöntun á sama tíma og sportað er eins og ekkert hafi í skorist.

Það er margt skrítið í kýrhausnum og með þessum orðum kveð ég ykkur og þar til næst. 

 

 


Af afskriftum, bruðli og fleira djúsí.

Enn og aftur berast okkur óbreyttum fréttir af aðgerðum hinnar nýju yfirstéttar landans, þ. e. bankastarfsmönnum.

Nú skal afskrifa.

Í þetta skiptið er um að ræða fyrirtækið Skinney-Þinganes, sem hér á árum áður var eitt af best reknu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.

Hvað sem því líður þá er staðan greinilega önnur í dag.

"Skinney-Þinganes hagnaðist um 3,6 milljarða króna í fyrra; en afskriftir hjá dótturfélagi námu tveimur og hálfum milljarði króna."

Í hvaða tilgangi skyldi nú dótturfélagið "Nóna" hafa verið stofnað og hversu stór skyldi nú kvótinn hafa verið?

Á sama tíma er verið að ganga að sambýlisfólki á Selfossi sem lét glepjast af gylliboðum bankamanna, tók lán uppá 17,8 milljónir - í erlendri mynt - sem í dag stendur í 58 milljónum króna.

Skyldi bankinn afskrifa?

Ég rak augun í frétt sem fangaði athygli mína en þar er um að ræða niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur gegn fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi, en hann höfðaði mál á hendur Ríkisskattstjóra vegna skattálagninga á söluréttarsamningum af hlutabréfum í Kaupþingi.

Niðurstaðan kom mér á óvart því ég hef alltaf haldið að stórkallarnir slyppu.

Í fréttinni er smá klausa sem segir allt sem segja þarf.

"Fólst í þessu var að X var í aðstöðu til þess að afla sér tekna sem myndast kynnu við mismun verðs hlutanna er sölurétturinn félli úr gildi en áhætta hans vegna lækkunar verðs var engin."

Nú barmar viðkomandi sér yfir yfirvofandi gjaldþroti en að menn verði gjaldþrota í dag er ekki ný frétt. Hér verða vísitölufjölskyldurnar gjaldþrota hvern dag. Án ofurlána.

Svona rétt í lokin langar mig til að segja ykkur frá bréfi sem ég sendi á alla alþingismenn okkar.

Um er að ræða fyrirspurn sem snertir forgangsröðun mikilvægra verkefna.

Ég birti þennan bréfstúf hér og hvet alla til að afrita og líma (copy ´n´paste) og senda á alla þingmenn okkar. Netföngin fylgja í athugasemdadálkinum.

"Getur verið að á sama tíma og niðurskurðarhnífurinn er á fullu eigi stjórnmálaflokkarnir að fá 304,2 milljónir?
Getur verið að á sama tíma og börn okkar gramsa í ruslatunnum vegna þess að heimilin eru matarlaus eigi að halda uppi stjórnlausri sýndarmennsku í utanríkisráðuneytinu?
Getur verið að á sama tíma og til stendur að skera niður um tæpar tvö hundruð milljónir í heilbrigðisþjónustu Vestfjarða sé verið að henda tugum milljóna í nýja heimreið að Hrafnseyri við Arnarfjörð?
Getur verið að háttvirtir ráðamenn þjóðarinnar hafi ekki uppgötvað að hér ríkir kreppa sem, samkvæmt íslenskri hefð, lendir á herðum þeirra sem minnst mega sín?
Finnst ykkur ekkert athugavert við forgangsröðunina?
Með von um greinargóð svör.
Virðingarfyllst"
Þ. Jökull Elisson

Ég hvet alla til að taka undir því fjöldinn er sterkur!

Þar til næst.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband