Losins kom eitthvað af viti.

Á þessum umhleypingatímum er einstaklega ánægjulegt að fá frétt sem þessa. Þó fyrr hefði verið.

Nýgræðingur eins og Birgitta Jónsdóttir stendur sig vel og vonandi heldur hún sínu striki.

Mér virðist eftir öllu að dæma að þarna sé komin manneskja sem hefur bein í nefinu og er óhrædd við að halda sínum skoðunum fram. Ólíkt gamla genginu.

Svo er reyndar önnur sem þorir að standa upp í hárinu á "gamla genginu" en það er Lilja Mósesdóttir.

Nú sverja bankastjórnendur af sér allar ætlanir um bónus til starfsmanna og einn þeirra tekur svo sterkt til orða að segja að ekkert slíkt hafi komið til umræðu.

Ekki það?

Hér er samt smá tilvitnun í frétt frá Landsbanka Íslands, sem vel að merkja fékk milljarða styrk frá okkur skattgreiðendum svo allt rúllaði ekki á hausinn.

"Að frumkvæði kröfuhafa var gert samkomulag á milli skilanefndar Landsbanka Íslands hf.  (gamla bankans), fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs og Landsbankans (NBI hf.) um að hluti hlutabréfa í NBI hf. sem skilanefndin heldur nú á, myndi stofn fyrir kaupaukakerfi sem næði til allra starfsmanna og kæmi til framkvæmda  á löngum tíma."

Og áfram með óþverrann.

"Hugsanlegt er því að kaupaukakerfi taki gildi eftir að þessi hluti eignasafns bankans hefur verið endurmetinn í árslok 2012 eins og gert er ráð fyrir í samningunum."

Hver skyldi annars vera munurinn á kaupaukakerfi og bónusgreiðslum?

En nú skulum við snúa okkur að öðru.

Bakkabræður skála nú í einum dýrasta klúbbi Lundúnaborgar og hrósa happi yfir áframhaldandi velgengni sinni, á kostnað okkar skattgreiðenda þ.e. þeirra okkar sem ekki hefur tekist að forða aurunum okkar í skattaskjól erlendis, gera grín að þessum vesalingum sem hérlendis hefðu átt að geta komið í veg fyrir þeirra gjörning og gefa okkur almúganum langt nef.

Ýmsar áleitnar hugsanir vakna hjá mér, t.d. fyrir hverja starfa tekjuhæstu menn landsins þ.e. starfsmenn skilanefnda bankanna?

Skyldu þeir telja allt fram og skyldu þeir verða við ósk ríkisskattstjóra um upplýsingar varðandi þá sem stungið hafa undan skatti?

Ég lærði strax í bernsku að skattasvik væru bara ein útgáfan af þjófnaði. Í dag með allan þann her af allskyns fræðingum (sem fæstir hafa nokkru sinni séð fisk nema þá í neytendaumbúðum) hafa óefað allskyns nýyrði skotið upp kollinum. Það má víst ekki særa neinn.

Ekki einu sinni í réttarsalnum.

En nú fer að styttast í hengingarólinni hjá ýmsum, svo fremi sem rannsóknarskýrslan margfrestaða og margumtalaða verður birt ófegruð.

Ég vil vera svo bjartsýnn að ætla svo að þar verði engu undan stungið. Næstu dagar leiða það í ljós.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Formenn halda samstöðufund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þú og við megum bíða lengi enn eftir skýrslunni það er verið að þvo hana! Það sem Birgitta lagði til er frábært framtak nú er að bíða og sjá hvort vilji er fyrir samstöðu krakkana á þingi

Sigurður Haraldsson, 17.3.2010 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband