Nú er að láta hendur standa fram úr ermum...

...og byrja að byggja.

Oss hafa jú borist fregnir úr búðum yfirvalda að nú sé (loksins) byrjað að grisja skóginn.

Af nógu ku vera að taka.

Tvær handtökur munu vera rétt dropi úr hafsjó þess fjármálafyllerís sem hér ríkti alltof lengi og ríkir kannski enn.

Hver veit?

Ég tek ofan fyrir sérstökum saksóknara. Hann hefur sýnt og sannað að hann er starfi sínu vaxinn þrátt fyrir hrakspár hér í Bloggheimum. Ég hef grun um, þegar upp er staðið, verði hann sæmdur Fálkaorðunni sem hann á fyllilega skilið.

Svo fremi við verðum búin að fá nýjan forseta því það fer ekki  saman að æðsti maður þjóðarinnar,sem hengdi orður um háls "útrásarvíkinganna," sæmi svo þann mann, sem er á góðri leið (mjög góðri) með að fletta ofan af áðurnefndum víkingum, sama heiðursmerki.

Þar sem allar líkur benda til þess að væntanlegur hótelgestum hins opinbera fari fjölgandi á næstu misserum vil ég enn og aftur benda á þá leið sem ég tel farsælasta og ódýrasta.

Það mætti slá tvær flugur í einu höggi. Byggja öryggisfangelsi og virkja um leið væntanlega gesti í byggingarvinnu, launalaust að sjálfsögðu því það myndi létta á syndabagganum og byggja upp góða heilsu, (útivinnan eins og þið vitið), framkvæmdir myndu ganga fljótt og vel fyrir sig og launakostnaður yrði nálægt núllinu því nægjanlegt framboð yrði á verkamönnum ef nota má svo ófínt orð um þá höfðingja sem þar myndu leggja hönd á plóginn.

Það liggur í augum uppi að þessir "höfðingjar" yrðu að fá að búa útaf fyrir sig því þeirra gjörðir koma hverjum einasta heiðarlegum skinkuþjófi til að sárskammast sín, eins og vinur minn Breiðavíkurdrengurinn Lalli Jones kvað upp með, hérna um árið : "Ég vil ekki sjá þessa gúbba nálægt mér. Ég stel oní mig að éta og stundum líka til að fá að halda jólin á Hrauninu. Það er betra en að liggja úti." Ég trúi orðum Lárusar því við kynntumst vel þegar við unnum saman fyrir ca.  aldarfjórðungi í fiski hér fyrir "westan."

Nú leikur mér hugur á að vita hvort búið sé að teikna hótelið eða hvort stjórnvöld ætli að draga lappirnar í þeim málum eins og mörgum öðrum.

Þætti vænt um ef einhver lesandinn gæti frætt mig um slíkt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


mbl.is Hreiðar Már í skýrslutöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband