Færsluflokkur: Dægurmál

Góði farðu nú að vakna.

En Guðbjartur, hvenær hækkar lífeyrir aldraðra og öryrkja ?? Við áttum jú að fá "leiðréttingu" 1. júlí síðastliðinn. Erum við gleymda fólkið ?? Ég vil benda á að fjöldi aldraðra og öryrkja er um 75 þús. manns. Ég hef grun um að öll þessi atkvæði falli þér ekki í hag þegar gengið verður til kosninga.

Fjögur þúsund króna hækkun á húsaleigubótum hefur lítið að segja þegar horft er á þá átján þúsund króna upphæð sem staðið hefur í stað árum saman.

Það er þó huggun harmi gegn að vita til þess að í vor verður þú að leita þér að öðru starfi.

Nema stofnað verði eitt sendiherraembættið enn.

Það fer enginn heilvita maður að kjósa mann (flokk) sem lofar til vinstri en svíkur til hægri.

Samanber launahækkunartilboð þitt uppá hálfa milljón, oná þokkalegustu mánaðarlaun, til handa forstjóra Landsspítalans.

Á sama tíma og þau tæki sjúkrahúsanna sem ekki eru hrunin nú þegar eru límd saman með málningarteipi.

Ég lá á hjartadeildinni í sex vikur á síðasta ári. Ég tek ofan fyrir því fólki sem þar starfar. Á sama tíma  fá þau að launum niðurlægingu.

Forgangsröðun er augljóslega nokkuð sem þið stjórnarliðar virðist ekki skilja.

Þegar að stjórnarskiptum kemur verð ég kominn í startholurnar og tilbúinn að flytja af landi brott.

Ég er búinn að fá nóg.

Ég finn til með þeim sem eftir sitja.

Þar til næst.


mbl.is Húsaleigubætur hækka á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég verð stór...

...ætla ég að komast á ríkisspenann.

Þá mun ég eiga náðugt og áhyggjulaust ævikvöld.

Þá mun ég geta borgað reikningana.

Þá mun ég geta borðað hollan og góðan mat allan mánuðinn.

Þá mun ég geta keypt mér aðgang að öðrum fjölmiðlum en nauðungarhörmunginni.

Þá mun ég geta styrkt þau hjálparsamtök sem sjá til þess að fólk svelti ekki.

Þar til næst.

P.S. Lengi lifi hið íslenska velferðarsamfélag.


mbl.is „Það er ekki hægt að þola þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.

Þann 1. júlí 2009 voru laun opinberra starfsmanna, þingmanna, ráðherra og fleiri eðalmanna fryst til þriggja ára sökum efnahagsástandsins.

Að sjálfsögðu var vegið að öldruðum og öryrkjum á sama hátt þó úr litlu hefðu að moða.

Þann 1. júlí síðastliðinn fengu svo háttvirtir ráðamenn vorir "leiðréttingu" launa sinna sem er hið besta mál því, svo ég vitni nú í efnahagsráðgjafa "Hrunstjórnarinnar" þá þurftu menn að borga með sér.

En...bíða nú.

Ekki bólar á "leiðréttingu" á kjörum aldraðra og öryrkja enn.

Er gamla viðhorfið að við "eymingjarnir" megum vera þakklátir fyrir þau bein sem til okkar er fleygt kannski enn við lýði ??

Eina skýringin sem ég hef rekist á er að unnið sé að endurskoðun tryggingakerfisins.

Sem...ef gengið er út frá því að starfandi (?) ríkisstjórn hafi hafist handa strax 2009...þá finnst mér hægt unnið.

Milljarður til þróunaraðstoðar sem á fullan rétt á sér ef aurarnir eru til,en  á sama tíma stendur fólk í biðröðum hér heima fyrir eftir matargjöfum því ekki hrekkur lífeyririnn til.

Hér áður fyrr var haft á orði að það væri háttur aumingjans að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.

Túlki hver fyrir sig og þar til næst.


Nei, ég er ekki hættur....

...að rífa kjaft hér á blogginu.

Ég hef bara verið lasinn.

Ákvað á endanum að halda í líftóruna þó svo væri ekki til annars en að halda áfram að hrella fólk hér á netinu :)Tounge

Sem lýsir innræti mínu ákaflega vel.

Það er svo langt síðan ég var hér að ég veit varla hvar skal byrja. Því af nógu er að taka. Mér kemur reyndar í hug innanhússdansinn sem Framsóknarfylkingarnar báðar stíga.

"Eitt til vinstri, tvö til hægri, tvö til hægri, eitt til vinstri...

Svo fokkast Noregsfarinn eins og fjandans jójó.

Svo fæddist maður inn í þetta.

En...eins og gefur að skilja þá var það ekki mín sök.

Enda löngu búinn að stimpla mig út.

Ekki tekur betra við hinum megin þar sem háttvirtur Engeyjarpjakkurinn rífur kjaft og eys drullunni yfir stjórnarliða og blammerar þá sökum niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu.

Hann gleymir reyndar að minnast á 50% niðurskurð innan heilbrigðiskerfisins 2002 þegar hans fólk reyndi að stýra skútunni.

En...það eru kosningar framundan þannig að hanaslagurinn er byrjaður.

Ég bíð í ofvæni, loksins fer eitthvað að gerast. Mig klæjar í lófana því nú fæ ég tækifærið, að viðra skrifhæfileika mína þegar ég fer að lýsa leðjuslagnum Wink

Ef ekki væri fyrir pólitíkina væri ansi dauft hér á fb.

En nú slæ ég botninn í þetta, var bara að vara ykkur við.

Þar til næst.


Listann takk !!

Uppi voru háværar raddir meðal stjórnarliða í upphafi kjörtímabilsins. Talað var um tiltekt, gagnsæi, allt upp á yfirborðið, hverjum steini yrði velt við o.sv.frv.

Þessar raddir hafa þagnað og enn minna hefur farið fyrir efndum. Þar til nú enda styttist í kosningar.

Þrátt fyrir (kosninga)loforð hefur ekkert verið gert til að koma í veg fyrir kennitöluflakk með tilheyrandi stofnun skúffufyrirtækja þar sem lenskan er að flytja gróðann til A en skilja skuldirnar eftir í B.

Þrátt fyrir loforð varð ekkert af rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Í sjávarútvegsmálum hefur stefnan greinilega verið sú að rokka fram og til baka enda lítið sem ekkert eftir af  því sem lagt var upp með.

Nægur var tíminn samt...

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hefur verið, frá upphafi, að troða okkur inn í ESB. Með góðu eða illu.

Ég hef ekki trú á að orð Atla nái nokkrum byr. Ekki einu sinni meðal hans eigin manna.

Eftir hálft fjórða ár virðast öll "stóru málin"  hafa lent undir einhverjum steininum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála næstu mánuði.

Þar til næst.


mbl.is Útrásarvíkingana á válista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við stígum trylltan dans...fyrir þinglok...

Þetta fólk kusum við yfir okkur.

Við Íslendingar erum einstaklega lagnir að verða okkur til athlægis á vettvangi erlendis.

Skrípaleikurinn sem fram fer á Alþingi þessa dagana er bara eitt dæmið í viðbót.

Annars vil ég benda á þá staðreynd að væntanlegar breytingar á stjórnarskránni samræmast fullkomlega þeim tillögum sem Framsóknarflokkurinn lagði fram á sínum tíma.

Sem...samkvæmt málflutningi þeirra undanfarna daga og vikur veldur mér áhyggjum.

Ekki eru höfð mörg orð um Noregsferðina á sínum tíma sem...... þrátt fyrir orð Sigmundar Davíðs um óhóflega skuldasöfnun, já og ekki kæmi til greina að auka við skuldirnar......var ekkert annað en sníkjuferð.

Vonandi, bara vonandi, vex þetta lið upp úr sandkassaleiknum og opnar augu sín fyrir veruleikanum og kannski í leiðinni uppgötvar til hvers þau voru kosin.

Þessari athugasemd minni er beint til allra þeirra sem sitja á Alþingi í dag og um leið vil ég benda háttvirtu liðinu á staðreynd sem virðist hafa farið fram hjá þeim sumum að þau eru ekki æviráðin.

Þar til næst. 


mbl.is Málþófið spillt nýliðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá hugleiðingar svona í miðri viku.

Ég vil biðja þessa fáu og tryggu áhangendur mína afsökunar fyrir letinni. Það er jú mest letinni að kenna að ég hef ekki bloggað.

Það sem kom mér í gang var 3ja mán. dagsetningin hjá Blogggáttinni. Smile

Þegar litið er til baka og það þarf ekki að líta langt þá hefur heilmikið gerst. Ég er allur af vilja gerður en ef eitthvað hefur farið fram hjá mér þá endilega pikkið í mig.

Fyrst má telja þann landskennda "Landsdóm" sem nú ku hafa lokið verki sínu.

Þetta er reyndar í fyrsta skipti í langan tíma sem ég sætti mig við nauðungarafnotagjaldið því það litla sem við höfum fengið að sjá frá réttarhöldunum slær öllum bandarískum sápuóperum við.

Svo er Rúv. að fara yfir lækinn eftir góðu sjónvarpsefni. Nei nei. Við eigum að byrja heima fyrir !!

Frammistaða fyrrverandi forsætisráðherra okkar og viðbrögð eftir dómsbirtinguna sýna og sanna að við  Íslendingar hljótum að vera fæddir húmoristar !!

Reyndar er þetta besta "stand upp" sem ég hef séð í langan tíma.

Spurning hvort ekki sé hægt að selja aðgang.

Nú erum við  að fá nýjan biskup og það kvenbiskup að auki.

Ég er ánægður. Ég er hæstánægður !!

Furðulítið hefur farið fyrir leðjuslagnum en bíða nú...það kemur að forsetakosningum.

Ég óska Agnesi velfarnaðar í sínu nýja embætti.

Senn líður að forsetakosningum og nú munu vera nokkrir sem berjast um bitann. Samkvæmt hefðinni þá er drullukastið byrjað. Ég hef reyndar lúmskt gaman af öllum látunum því allt skal jú tínt til. Nú hefur eiginmaður væntanlegs forseta íslenska lýðveldisins stigið fram og viðurkennt að hafa slæmt höndinni til skólabróður síns í hita leiksins (þetta var á skólaballi ) nú, glóðaraugu og blóðnasir voru bara fylgifiskar sveitaballanna hér áður fyrr. Í það minnsta þegar ég var að vaxa upp hér fyrir vestan. Gæti orðið ögn skemmtilegt að fylgjast með framvindu mála á næstunni. Í það minnsta að kíkja á fb.

Mótframbjóðendur hljóta að koma með eitthvað djúsí til að toppa þetta. LoL 

Síðast þegar ég taldi þá voru komnir sex frambjóðendur. Sem segir mér að fimm frambjóðendur koma til með að sleikja sár sín á meðan þeir velta fyrir sér hvernig í fjandanum þeir eigi nú að dekka kostnaðinn.

Það er ekki gefins að bjóða sig fram til forseta í norræna velferðarsamfélaginu. Það kostar. Og það ku kosta mikið!! Níutíu millur hafa verið nefndar sem þýðir að sveitastrákur að vestan verður að öllum líkindum ekki í framboði. Þetta fer að minna smá á bandarísku forsetakosningarnar en vonandi verður skítkastið ekki svo mikið. 

Lítið annað hefur gerst ef litið er fram hjá þessum hefðbundnu afskriftum á alls slags greifa sem greifast aldrei sem fyrr.

Þrátt fyrir milljarða afskriftir.

Nú gæla menn við hugmyndina um milljarða eignir í erlendum skattaskjólum. Við það fólk vil ég segja að betri er einn fugl í hendi en tíu í skógi.

Blessi ykkur öll og þar til næst.

P.S. Enn verslar Bjöggi jr.


...að höggva mann og annan.

   Eitt og annað hefur gengið á undanfarna daga og væri nóg til að gera hvern manninn vitlausan.

Kolgeggjaðan reyndar.

Þar má nefna innanbæjarrugl Kópavogsbæjarstjórnar þar sem enginn virtist vita í hverja áttina vindurinn blés.

Eftir síðustu fréttum að dæma þá eru málin komin í hring. Íhaldið fellt..íhaldið komið til valda aftur.

Þar til vindáttin breytist.

Nú ber efst á baugi dómur Hæstaréttar um vaxtagreiðslur...löglegar/ólöglegar, og sýnist sitt hverjum. Nú er ég ekki talnafróður maður en hafi ég skilið rétt þá er verið að rukka mig um vaxtagreiðslur af láni sem ég lauk við að borga í árslok 2009. Afturreiknað ?? Ég ætla ekki að nefna bílkaupin einu orði. Borgaði drusluna hérumbil á borðið.

Nú að þeirri gleði sem virðist allsráðandi í búðum ríkisstjórnar vorrar þar sem gengið er í því að sannfæra hvert annað að þessi dómur sé akkúrat það sem þau bjuggust við og allt sé bara gúddí gúddí. Þau vissu þetta jú alltaf. Þrátt fyrir lagasetningu 151/2010.  

Þær þúsundir manna sem misst hafa húsnæði sitt eru kannski á öðru máli.

Nú komum við að því sem kallast "Íslensk réttvísi".

Nú skal höggva.

Sökudólgurinn er fundinn. Forstjóri FME ber alla sökina. Hvaða sök hann ber hefur reyndar ekki verið borið á borð fyrir okkur óbreytta þegna þessa velferðarsamfélags sem við ku lifa í.

Verið er að grafa upp einhverjar ellefu ára athafnir í þeim tilgangi einum, að því mér virðist, að leggja grunninn að áframhaldandi óþverrabrögðum.

Eins og til dæmis að draga til baka ákæru á hendur Geir Haarde...sem hefur verið skrípaleikurfrá A til Ö, á sama tíma og Samfylkingin ákvað að hlífa sínu eigin fólki. Sem er skammarblettur á íslensku réttarfari.

Það er vitað mál að vitnaleiðslurnar gætu komið þeim... sem þessa dagana verma stólana... frekar illa.

Gunnar Andersen hefur komið 77 málum áfram til Sérstaks. Skyldi fara um einhverja ??

Þetta leiðindamál hlýtur að skýrast á næstu dögum og í stað þess að heyra um einhvern feluleik G. Andersen varðandi Aflandsfélög Landsbankans árið 2001, þá fáum við vonandi að heyra eitthvað um feluleik ríkisstjórnarinnar varðandi fjármálafyrirtækin og AGS...sem...eins og komið hefur á daginn...hefur eingöngu snúist um að bjarga bönkunum á kostnað alþýðunnar.

Ég kaus til vinstri á sínum tíma í þeirri góðu trú að við fengjum Nýtt Ísland, þar sem allt kæmi upp á yfirborðið, þar sem hverjum steini yrði velt við.

Kjaftæði !!

Ég sárskammast mín. Fyrir að hafa látið hafa mig að fífli. Í næstu kosningum get ég vonandi bætt ráð mitt svo fremi að fram komi fólk sem hægt er að treysta að standi við orð sín.

Ég vona að þessar hugrenningar mínar komi ekki illa við neinn, nema þá aðila sem eiga það skilið , og óska ykkur öllum góðs svefns.

Þar til næst.


Þegar litið er til baka...

...þá er í rauninni fátt sem stendur uppúr.

Nema þá helst þessi eilífa togstreita sem virðist vera viðloðandi stjórnarflokka okkar.

Nú er verslað með embætti. Sem er reyndar engin nýlunda því slíkt hefur viðgengist frá upphafi lýðveldisins.

Að vísu  hefur staðan breyst frá því að Halldór Sigurðsson reisti sér þann minnisvarða að byggja "Halldóru", brúna sem tók af rúntinn fyrir Borgarfjarðarbotn og hefur án efa margborgað sig.

Í dag, á tímum kreppu og blankheita keppast núverandi stjórnarliðar við að reisa sér minnisvarða.

Ögmundur vill nýtt öryggisfangelsi. Sem kemur til með að kosta tvo komma fjóra milljarða. Gott og vel.Slíkar umræður hafa verið í gangi frá miðjum sjöunda áratugnum.

En er nauðsynlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir nú ??

Til er nóg af húsnæði sem mætti nýta, fyrirbils, í stað þess að æða áfram og steypa okkur í enn stjórnlausari skuldir.

Nú skal komið að hugmyndum háttvirts forsætisráðherra okkar sem, burtséð frá ESB kjaftæðinu sem   hefur  kostað okkur á annað hundrað milljónir (á sama tíma og skorið er niður, inn að beini í heilbrigðisþjónustunni).

Nú skal byggja. Stórt skal það vera. Flott skal það vera.

Sjúkrahús skal það vera.

Fáránleikinn er þvílíkt yfirgengilegur að ég velti fyrir mér hvort ekki sé kominn tíminn á "retirement" á viðkomandi.

Að gjörbylta öllu 101 hverfinu til þess að byggja og byggja meira er að mínu mati út úr kortinu.

Flogið hafa fyrir tölur upp á 50 (fimmtíu) milljarða sem, NB. ekki eru til. Burtséð frá þeirri staðreynd þá sýna allar fjárhagsáætlanir Lsp. framúrakstur uppá 20 %.

Minnisvarðinn eftir mannskapinn kemur til með að verða aukinn skuldabaggi sem samkvæmt hefðinni lendir á herðum þeirra sem minnst mega sín.

Þá er betur heima setið.

Blessi ykkur öll á þessum versnandi tímum og þar til næst.


Ég óska ykkur öllum...

...gleðilegs nýs árs. Í þeirri veiku von að nú fari að létta til..

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband