Færsluflokkur: Dægurmál

Er þetta nú rétti tíminn ?

Mér finnst dagsetningin nok so skondin. Svona daginn áður en mál Íslands verður tekið fyrir hjá AGS.

Ég var að vona að svona í eitt einasta skipti gætu öll dýrin í skóginum verið vinir. Eins og " Dýrin í Hálsaskógi." En því miður virðumst við ekki hafa öðlast nægilegan þroska til þess.

En það er bara að bíta á jaxlinn, vera jákvæður, og kíkja á fréttasíðurnar og lesa um "peningaþvætti, bókhaldsóreiðu hjá bönkunum og jafnvel nýtt "Gulag" sem ég hef reyndar enga trú á. Einfaldlega vegna þess að við eigum ekki eina einustu krónu og hvergi hægt að slá lán. Svo í onálag lækkar gengið.

Var annars búið að rífa alla braggana upp í Hvalfirði?

Spyr einn fáfróður.

Þar til næst.

 

 

 


mbl.is Hafa ekkert nálgast niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona vítt og breitt.

Að vakna á svo fallegum vetrarmorgni bókstaflega býður jákvæðum hugsunum heim, í það minnsta þar til ég fer að lesa fréttasíðurnar.

Annars er fátt fréttnæmt þennan morguninn. Líkamsárás hér, innbrot þar, semsagt ofur venjuleg helgi á Reykjavíkursvæðinu. Þá er rólegra hér fyrir "westan."

Í Mbl. las ég grein sem heitir "Ásakanir um peningaþvætti." Sjaldnast er ein báran stök, hugsaði ég bara. Greinin er vel skrifuð en þar er fjallað um lánveitingar bankanna til tengdra aðila og breskra kaupsýslumanna. Sosum ekki nýtt af nálinni.

Hvað skyldi annars "óhefðbundnir lánasamningar" þýða?

Nú, en áfram með smjörið.

Í greininni kemur líka fram að allir bankarnir þrír, Kaupþing, Landsbanki og Glitnir, hafi lánað háar fjárhæðir til stærstu eigenda sinna á góðum kjörum. Yfirdráttarheimildin sem ég græt stöku sinnum út  í bankanum mínum er á ofur venjulegum kjörum enda hef ég aldrei verið bankaeigandi, það hefur frekar verið á hinn veginn.Crying

Í DV. rak ég augun í frétt um Kalla karlinn Wernersson og það má með sanni segja að hann Kalli kemur víða við. Enda "útrásarvíkingur." Nú er það Rúmenía með nokkrum ehf. félögum á milli þó.

Þar er líka frétt sem fjallar um nafnaskipti og kom glottinu út í annað munnvikið. Sérstaklega niðurlagið. 

"Varðandi nafnabreytinguna þá er ég ekki í neinum feluleik um hver ég er ......... Það var ekki hugsunin að hafa einhvern feluleik bak við það.“ Hver skyldi hugsunin ( tilgangurinn ) annars hafa verið?

Ég var að hlusta á Mikael Torfason í morgunútvarpinu áðan. Nafnið á nýju bókinni hans "Vormenn Íslands" vekur upp ljúfsárar minningar því á æskuárunum las ég bók með sama nafni , eftir þann mæta höfund Óskar Aðalstein, sem kom út 1956 og endurútgefin 1972.

Já, tíminn líður.

Eigið öll góða helgi og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Þögn er gulls ígildi...

... virðist vera mottó þeirra Landsbankamanna þessa dagana.

Nú berast oss þær fréttir, óstaðfestar enn sem komið er, að kennitölubreyting (kt.flakk) ónefndrar líkamsræktarstöðvar og færsla eigna yfir í nýtt hlutafélag hafi verið framkvæmd með aðstoð lánardrottins sem ku jú vera Landsbankinn.

Um er að ræða einn milljarð.

Í svörum Landsbankans við fyrirspurn DV ber bankinn fyrir sig lögum um bankaleynd, sem er ofur eðlilegt en ef þessi frétt reynist sönn þá blöskrar mér minnisleysið sem virðist vera farið að hrjá landa mína.

Fyrst kom Icesave, sem ég og börnin mín tvö komum til með að súpa seyðið af um ókomna framtíð. Svo fljúga furðusögurnar fjöllum hærra um allskyns baktjaldamakk.

Getur það staðist að verið sé að afskrifa skuldir einhverra ævintýramanna sem ætluðu sér að lagfæra vöxtinn á danskinum?

Ljótt er ef satt reynist.

Ekki er bitið úr nálinni enn því nú er Landsbankinn búinn að ráða upplýsingafulltrúa sem sjálfsagt hefur verið þörf á, en það láðist þeim að auglýsa stöðuna.

Nú skilst mér, og leiðrétti mig einhver fari ég með rangt mál, að öllum ríkisstofnunum sé skylt að auglýsa þær stöður sem til kunna að falla. Þar sem Landsbankinn er nú í eigu minni og ykkar þá hljóta þessar reglur að gilda þar eða erum við komin í "2007 ástandið" að nýju?

Til þess að toppa nú allan óþverrann kom þessi hefðbundna klausa:

"Ekki hefur náðst í Ásmund Stefánsson, bankastjóra Landsbankans, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir."

Ég spyr sjálfan mig oft hvað sé eiginlega í gangi. Svör fást ekki því miður, en varla er hægt að tala um "Nýja Ísland" í tilfellum sem þessum. Í mínum augum hefur ekkert breyst nema nú heldur svokölluð vinstri stjórn um stýrið í stað fráfarandi hægri stjórnar. Munurinn er hverfandi lítill.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


Saklaus uns sekt er sönnuð...

...klausa sem enn er í fullu gildi en því miður vill oft gleymast.

Baldur Guðlaugsson fyrrverandi ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur verið helsta umræðuefnið í Bloggheimum í dag og þó sitt sýnist hverjum eru þeir býsna margir bloggararnir sem nú þegar hafa dæmt manninn sekan og það áður en til kasta dómstólanna kemur.

Ég er ekki að taka hanskann upp fyrir Baldur eða yfirhöfuð nokkurn sem gæti verið viðriðinn einhver fjárglæframál, þeir eru jú reyndar nokkrir sem komnir eru með stöðu grunaðra, en það er ekki í mínum ( eða ykkar ágætu bloggarar )  verkahring að kveða upp dóm.

Ég er bjartsýnn að eðlisfari, svo bjartsýnn að ég trúi því og treysti að innan stjórnsýslunnar sé til  fólk sem sópar engu undir teppið heldur taki á öllum þeim málum, sem án efa eiga eftir að dynja á okkur á næstunni,  af heiðarleik og réttsýni.

Ykkur er velkomið að ausa úr skálum reiðinnar yfir mig, ég er með þykkan skráp.

Þar til næst.

 

 


mbl.is Baldur lætur af störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.

 Fjármunabrot, þjófnaðir, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot, skjalafals og peningaþvætti.

Sú rannsókn sem hófst vegna gruns um mansal teygir sig víðar, en ofangreind brot eru nú rannsökuð í tengslum við málið.

Svo ótrúlegt sem það kynni að virðast þá hófst þetta allt með komu ungrar stúlku til Íslands.

Ég hjó eftir því í sjónvarpsfréttum að bandarísk stjórnvöld teldu þau íslensku ekki í stakk búin til að takast á við mansalsmál. Þetta er nú einu sinni frumraun íslensku réttvísinnar og fer vel af stað.

Í fréttinni er smáklausa sem kom illa við mig.

"Margir glæpahópar hérlendis falla undir skilgreiningu evrópsku lögreglunnar Europol um skipulagða glæpastarfsemi, þar á meðað pólskir, litháískir og íslenskir glæpahópar með tengsl erlendis."

Á sama tíma og afbrot færast í vöxt er niðurskurðarhnífurinn á lofti. Hyggilegt væri af stjórnvöldum að endurskoða sparnaðaráætlun sína og í stað þess að svelta löggæsluna væri viturlegra að auka framlögin til muna. Ég er þess fullviss að þeir fjármunir eigi eftir að skila sér.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


mbl.is Margir glæpahópar með erlend tengsl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi frétt toppar allt annað sem ég hef heyrt.

Það er sjaldan, já reyndar sárasjaldan sem ég skellihlæ þegar ég fregna af þjófnaði.

Enda mjög óviðeigandi.

Í þetta skiptið gat ég hinsvegar ekki haldið aftur af mér, ég veltist um af hlátri.LoL

Hér kemur smá tilvitnun í frétt Mbl. stolin eins og fyrri daginn.

"Lögreglan á Selfossi hefur upplýst  þjófnað úr ferðamannaverslun við Geysi í Haukadal. Hafa þrír karlmenn og ein kona játað brotið."

"Allt er fólkið af erlendum uppruna."

Áfram með smjörið.

"Vörum fyrir um 400 þúsund krónur var stolið úr versluninni við Geysi í síðustu viku og fékk Selfosslögreglan svo  ábendingu um að mennirnir hefðu verið staddir á Geysissvæðinu í hádeginu í gær, líklega til að endurtaka leikinn frá því vikunni áður."

Í sem stystu máli, þá voru þremenningarnir handteknir og í framhaldi af því var hafin leit að þeim fjórða sem grunaður var um aðild og fannst eftir að leitað hafði verið á tíu stöðum í höfuðborginni.

Það leikur enginn vafi á því að hér er um að ræða skipulagða glæpastarfsemi að ræða.

Á sama tíma ætla stjórnvöld að skera niður framlög til löggæslu.

Hver skyldi nú forgangsröðunin vera?

Játning liggur fyrir, málið telst upplýst en, hér kemur svo toppurinn oná tertuna.

"Fjórði karlmaðurinn átti engan þátt í brotinu og hafði góða og gilda fjarvistarsönnun þar sem hann dvaldi í fangelsi á þeim tíma sem þjófnaðurinn átti sér stað. "Grin

Glæpagengin hafa greinilega skipt um kós.

Mér dettur helst í hug að nú sé farið að þrengjast svo í búi hjá þessu vesalings fólki, í þeirra heimalandi, að nú finni það sig knúið til að koma hingað í þeim tilgangi einum að sníkja sér gistingu hérlendis á kostnað okkar skattgreiðenda. 

Útlendingastofa mun svo taka ákvörðun um hvort fólkinu verður vísað úr landi.  

Ég vona að svo verði, við höfum nóg með okkar eigin glæpamenn þó svo við þurfum ekki að halda uppi annarra þjóða kvikindum líka.

Svo verðum við líka að hafa pláss fyrir fjárglæframennina þegar þar að kemur.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Játuðu þjófnað við Geysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilaborgin hrynur.

Enn og aftur berast oss fréttir af mjög svo vafasömum viðskiptum Kaupþings og eins og fyrri daginn er af nógu að taka.

Meðal annarra mála sem borist hafa inn á borð sérstaks saksóknara eru kaup sjeik Mohameds Bin Khalifa Al-Thani frá Katar á hlut í bankanum, en sjeikinn keypti 5% hlut þann 25. september 2008, tveimur vikum fyrir hrun.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í frétt Mbl. þar sem segir:

"Í ljós hefur komið að Kaupþing hlutaðist til um kaupin með því að kaupa eigin bréf upp að lögbundnu hámarki og selja þau svo sjeiknum. Kaupþing lánaði tveimur félögum sem skráð eru á Tortola-eyju fjármagn, sem þau lánuðu svo Q Iceland Finance, félagi sjeiksins."

Þegar minnst er á Tortola virðist gullfiskaminnið herja á ansi marga "útrásarvíkingana" sem eru svo illa að sér í landafræði að þeir virðast ekki vita hvar eyjan er þó svo þeir hafi óvart stofnað fyrirtæki þar.

Svo ég vitni áfram í fréttina þá kemur hér eftirrétturinn.

"Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson hafa báðir réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn á máli Al-Thanis."

Þó mér og að öllum líkindum meirihluta þjóðarinnar finnist hlutirnir ganga ósköp hægt fyrir sig þá geri ég fastlega ráð fyrir að nú sé vandað til verka.

Ég velti því stundum fyrir mér hver staðan, í þessu örlitla frændþjóðfélagi væri, hefði Eva Joly ekki komið til sögunnar.

Ég þreytist aldrei á að rifja upp þá unaðstilfinningu sem ég upplifði þegar hún rassskellti íslensk stjórnvöld í Kastljósi forðum daga, svo undan sveið.

Þá fyrst komst skriður á málin.

Annars sá ég alveg einstaka frétt í sjónvarpinu áðan þar sem bandarískur bankaræningi iðraðist gerða sinna, áður en honum tókst að ljúka ætlunarverki sínu, féll á kné og bað Guð að hjálpa sér.

Hvenær skyldu íslenskir "bankaræningjar " iðrast og játa syndir sínar?

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Skilanefnd rannsakar mörg mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er að ljúga?

Örvæntingarfullar tilraunir Kaupþingsmanna til að réttlæta gjörðir sínar minna helst á kattarskömmina mína þegar hún er að reyna að klóra yfir kúkinn í kassanum sínum, þegar ég gleymi að skipta um sand hjá henni.

Þær eru margar ansi góðar klausurnar í þessari frétt sem sýna okkur og sanna að þrátt fyrir hryðjuverkalög höfðu Bretar þó nokkuð til síns máls.

Reyndar allmikið, svo mikið að ég veit varla hvar byrja skal.

Ég ætla samt að gera smá tilraun.

Kaupþingsmenn héldu því fram að aðgerðir breskra stjórnvalda, að færa Edge innlánsreikningana til hollenska netbankans ING Direct hefðu verið ólögmætar, skaðað móðurbankann á Ísland og valdið falli hans.

Stór orð sem að sjálfsögðu féllu í grýttan jarðveg.

Þetta er ekki búið enn, langt í frá, því áfram dunaði "hrunamanna"dansinn.

Hér kemur ein lygin enn. "Bankinn sagðist hafa samið við breska fjármálaeftirlitið um að afla 1,25 milljarða punda, jafnvirði um 250 milljarða króna á núverandi gengi, en fjármálaráðuneytið breska hefði gripið til aðgerða áður en frestur rann út.

Þarna er verið að brigsla breska fjármálaráðuneytinu um óheiðarleika sem -  burtséð frá öllum öðrum bömmerum sem þeim Kaupþingsmönnum tókst að afreka -  er saknæmt athæfi

Spillingin og viðbjóðurinn, sem hægt er að lesa úr hverri einustu línu, á sér engin takmörk.

Svona mætti halda áfram í það óendanlega, en það sem mér leikur hugur á að vita er, hvar eru þeir Kaupþingsstjórar í dag?

Hafa þeir fengið stöðu grunaðra eða velta þeir sér upp úr vellystingum einhversstaðar erlendis?

Þær eru margar spurningarnar sem kannski fást seint eða aldrei svör við.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Mál Kaupþings óraunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekið er stórt upp í sig.

Seint linnir látunum.

Nú lætur Framsóknarmaddaman Eygló Harðardóttir gamminn geysa og upplýsir okkur fávísan almúgann um þá ógn sem að okkur steðjar, verði farið út í fyrningu aflaheimilda, sem svo muni leiða til gjaldþrots Landsbankans.

Áfram er haldið.

Nú er okkur tjáð að áðurnefndur banki sé með um 50% af öllum skuldum sjávarútvegsins og fyrning aflaheimilda kæmi til með að hafa mikil áhrif á þau veð sem bankinn hefur fyrir þessum skuldum.

Það liggur í augum uppi að daman hefur ekki unnið heimaverkefnin sín.

Þau veð sem Landsbankinn hefur, hafa ekkert með aflaheimildir að gera því bankinn hefur aðeins tekið veð í fiskiskipunum en ekki aflaheimildum.

Í lögum um fiskveiðistjórnun segir:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum".

Það segir sig sjálft að ekki er hægt að veðsetja eign annarra.

Aflaheimildirnar halda áfram að vera til og verða settar í nýtingu jafnóðum og þær losna til leigu. Þeim verður ekki stungið undir koddann.

Ein stærsta breytingin verður að öllum líkindum sú að komið verður í veg fyrir áframhaldandi kvótabrask sem sett hefur skammarblett á íslenska útgerð. Vonandi fer það ekki fyrir brjóstið á Framsóknarmönnum. 

Svona rétt í lokin væri fróðlegt að fá að vita hver raunveruleg skuldastaða sjávarútvegsins er því í fréttinni er talan 400 milljarðar nefnd en talan 800 milljarðar hefur einnig heyrst.

Þar til næst.                        

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Fyrning setur fjárhag Landsbankans í voða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn við sama heygarðshornið.

Sigmundur Davíð hjakkar enn í sama farinu.

Nú finnur hann samstarfi stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) flest til foráttu. Auðvitað hefur margt breyst síðan stofnað var til samstarfsins fyrir um ári en að fullyrða að aðkoma sjóðsins að málum hér sé ekki nauðsynleg lengur er gjörsamlega út í hött.

Ég leyfi mér að vitna  í orð hans þar sem hann segir "Þjóðin er fyrst og fremst í skuldakreppu, af hverju er þá verið að auka skuldirnar?"

Gott og vel. Þetta vitum við öll. Hins gæti það hafa farið framhjá einhverjum að ekki alls fyrir löngu brugðu tveir Framsóknarmenn undir sig betri fætinum og herjuðu á Noreg í þeim tilgangi að slá smá lán upp á litla tvö þúsund milljarða, svona upp á kunningsskap.

Þeir fóru erindisleysu.

Eðlilega. Þessir ungu menn virðast ekki þekkja meginreglu allra viðskipta en það er að standa í skilum. Oftar en ekki hefur okkur Íslendingum verið bent á að taka til í okkar ranni áður en nokkrar lánveitingar koma til greina.

Auðvitað má gagnrýna samstarfið við AGS og þar er margt sem þarfnast endurskoðunar en þegar allt kemur til alls þá er þetta skásti kosturinn.

Um hlutdeild Bjarna Ben. og Birgittu Jónsd. í þessum umræðum er best að hafa sem fæst orð því þar var niðurrifsstarfsemin í fullum gangi, engar úrlausnir frekar en fyrri daginn.

Ég horfði á Kastljós í gærkvöldi og þó ég sé ekki alltaf á sama máli og Þorgerður Katrín fannst mér hún skila sínu með sóma eins og svo oft áður.

Í ljósi þess að Icesave skuldin er bara brot af heildarskuldum þjóðarbúsins finnst mér skjóta skökku við hve miklum tíma alltof margir þingmenn hafa eytt í gagnrýni og málþóf í stað þess að reyna nú að sjá stöðuna í réttu ljósi og starfa samkvæmt því.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband