Færsluflokkur: Dægurmál
27.7.2010 | 06:15
Ég ætla að gerast útrásarvíkingur þegar ég verð stór.
Þeir eru jú svo fjandi klárir að þó íslenska þjóðin sitji nú með sárt ennið og skuldir upp á herðar þá þurfa þeir greinilega ekki að sækja sér mat til hjálparstofnana.
Nú flykkjast PR-fulltrúar Björgólfs yngri fram á sjónarsviðið og keppast um að telja okkur óbreyttum trú um að Bjöggi pjakkurinn sé ekki jafn slæmur og fjölmiðlar hafa í veðri látið vaka.
Samkvæmt fréttum síðustu daga hefur höfðinginn gengið frá samkomulagi um uppgjör skulda við erlenda og innlenda lánardrottna sína. Engar skuldir verða gefnar eftir. Talan er litlir tólf hundruð milljarðar
Hvað með Icesave?
Eitt er það sem ég skil þó ekki. Drengurinn lýsti því yfir í viðtali hér á dögunum að minnstu hefði munað að hann yrði gjaldþrota í kjölfar efnahagshrunsins hér um árið vegna persónulegra ábyrgða sem fallið hefðu á hann sökum lánsviðskipta.
En nú ætti sem sagt allt að vera gúddí gúddí. Maðurinn er jú í því að biðja íslensku þjóðina afsökunar "á augljósum mistökum sínum í aðdraganda hrunsins."
Hér koma hinsvegar gullkorn sem hrutu af vörum hans.
"Starfsemi mín mun, hér eftir sem hingað til, einkennast af raunverulegum viðskiptum með raunverulegar eignir."
Er þetta ekki kallað að fara fram úr sjálfum sér?
Nú kemur til sögunnar Ragnhildur nokkur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Björgólfs/Novators, og segir "Að baki skuldbindingum Björgólfs Thors voru miklar eignir en ekki bara loft." Áfram lætur hún gamminn geisa og segir að drengstaulinn beri enga ábyrgð á Icesave-reikningunum. "Sumir fóru offari og höguðu sér á þann hátt sem með ólíkindum er, en það á ekki við um Björgólf Thor."
Hér mætti sem best setja amen á eftir efninu ef ekki væri af nógu öðru að taka.
Það mætti benda Ragnhildi á að lesa skýrslu rannsóknarnefndar alþingis þar sem nafn Björgólfs Thors ber á góma og varla að ástæðulausu, en PR vinnubrögðin eru nákvæmlega þau sem Eva Joly sagði að við mætti búast þegar menn færu að snúa vörn upp í sókn.
Að lokum nokkur gullkorn úr munni Björgólfs Thors í Fréttablaðinu þ. 14.apríl sl. er hann bað íslensku þjóðina afsökunar á "mistökum" sínum en sagði svo "Ég get sjálfur haldið því fram að ég hafi á hverjum tíma tekið ákvarðanir sem ég taldi skynsamlegar og réttar og ég tel víst að ég hafi engin lög brotið."
Þá vitum við það en hvaða tilgangi skyldi svo afsökunarbeiðnin þjóna? Íslenska þjóðin kemur ekki til með að gleyma neinu svo skiptir næstu kynslóðum.
Þar til næst.
Heimildir: Morgunblaðið, Viðskiptablaðið, Fréttablaðið, DV, Vísir,Rúv. Skýrsla rannsóknarnefndar alþingis.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.7.2010 | 19:57
Smámál dagsins.
Áfram dynja á okkur fréttir af "vafasömum" viðskiptaháttum Magma fyrirtækisins og, samkvæmt venju landans, sýnist sitt hverjum.
Eitt og annað er það sem vekur furðu mína í þessum viðskiptum. Allir þögðu þunnu hljóði þar til kaupin voru í höfn en þá varð allt vitlaust. Undarlegt í ljósi þess að kaupin áttu sér langan aðdraganda. Stjórnarandstaðan gargar sig hása þessa dagana , kennir ríkisstjórninni um og brigslar þeim um aðgerðarleysi, sem reyndar er ofvaxið mínum skilningi því stjórnin kom ekki nálægt þessum viðskiptum og mér vitanlega er háttvirtur bæjarstjóri Reykjanessbæjar stækur Sjálfstæðismaður. Þar fyrir utan hefur mér virst það fullt starf hjá núverandi ríkisstjórn að hreinsa upp eftir forvera sína.
Þó brennur á vörum mínum spurningin: Af hverju stofnaði Magma fyrirtækið ekki dóttur (skúffu) fyrirtæki hérlendis í stað þess að leita á náðir Svíanna? Annað eins gæti jú gengið.
En það gerist líka eitthvað jákvætt þessa dagana. Samkvæmt blaðafréttum hefur Jón Ásgeir lýst því yfir að þau systkin séu perluvinir. Ekki er ýjað einu orði að undirskriftafölsun (fréttir fyrri daga) sem gæti skrifast á óvönduð vinnubrögð blaðamanna sem ég hef þó litla trú á. Ég hallast helst að því að coke neysla Jóns, hér á ég að sjálfsögðu við diet-coke þambið, sé farin að trufla heilastarfsemina því það er sykur í diet-coke þó í litlum mæli sé.
Ég gleðst yfir þessari frétt því það er alltaf sárt til þess að vita að eitthvert smáauramál skuli leiða til sundrungar innan samheldinnar fjölskyldu.
Í framhaldi af því vonast ég til að Jóni Ásgeiri snúist nú hugur og hann láti ekki verða af því að kæra allt og alla.
Þar til næst.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.7.2010 | 03:53
Að tala tungum tveim.
Margt misjafnt hefur dunið á hlustum okkar undanfarna daga og þá ekki eingöngu "Magma offorsið" sem útkeyrð og dauðuppgefin þjóðin hefði að öllum líkindum látið fara fram hjá sér hefði ekki verið fyrir útsjónarsemi tveggja bloggara sem vöktu athygli landans á því að einhversstaðar væri óhreint mjöl í pokahorninu.
Þá vöknuðu ráðamenn þjóðarinnar af Þyrnirósarsvefninum með þvílíkum látum að helst minnti á havaríið í hænsnakofanum þegar rebbi kallinn var að sækja sér í kvöldmatinn.
Þó hverfa þessar fréttir í skuggann af þeim válegu tíðindum sem oss berast úr Bretaveldi en þar er verið að taka Jón nokkurn Ásgeir Jóhannesson á beinið . Varla að ástæðu lausu. Ljótt er að ljúga en helmingi verra ku vera að ljúga að Englending. Í gegnum árhundruðin hafa enskir löggæslumenn verið þekktir fyrir árvekni og vandvirkni í sínu starfi og mætti þar nefna Scotland Yard, S.F.O. (Serious Fraud Office) og að ógleymdum þeim sem toppa allt, þ. e. Sherlock Holmes og Miss Marple.
Nú er Jón garmurinn Ásgeir semsagt í vondum málum.
Flogið hefur fyrir hugtakið "Sambúðarheyrnarleysi" sem ku hrjá fólk, sérstaklega eftir silfurbrúðkaupsdaginn, samanber fréttir frá Dönum þar sem fjallað er um aukna tíðni hjónaskilnaða þegar nýjabrumið er farið af.
Nú hefur skotið upp kollinum annað hugtak sem kallast "Sambúðargleymska." Illar tungur vilja heimfæra slíkt upp á Jón Ásgeir og frú og þá vitnað t. d. í Róllsinn, þið vitið, þennan á 17 millurnar, sem höfðinginn gaf konunni sinni í afmælisgjöf ( fallega gert ) en hann gleymdi nafnaskiptunum.
Fleiri dæmi má nefna eins og Hótel 101 sem fyrir "gleymsku " er óvart á nafninu hans líka, rétt eins og lúxusíbúðirnar við Gramercy Park þar sem hann hefur "gleymt" eignaraðild sinni, utan þess eina skylduprósents sem hann þarf að eiga ef makinn skyldi falla frá.
Franski skíðaskálinn, tvö íbúðarhús frúarinnar í Rvk. sem veðsett eru í botn (eins og hótelið).
Allsstaðar blasir sambúðargleymskan við okkur.
Við íslenskir Samverjar verðum nú að taka okkur saman og, ef svo illa vildi til að gyðja réttvísinnar snéri nú blinda auganu að þeim, hjálpa þeim í gegnum erfiðleikana t.d. benda þeim á súpueldhúsið á 19. hæð í Kópavogsturninum svo var líka verið að opna mötuneyti í Stýrimannaskólanum nú og svo má líka benda á samskotabauka hist og her.
Hér, í íslenska velferðarþjóðfélaginu skal enginn svelta.
Eða hvað?
Að þessum leiðbeinandi hugleiðingum mínum loknum býð ég ykkur góða nótt og þar til næst.
Dægurmál | Breytt 17.10.2010 kl. 03:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.7.2010 | 19:00
Af bjórþurrð Í Danmörku o.fl.
Enn og aftur hafa strákaskammirnar yngri bræður mínir lagt land undir fót og herjað á Danaveldi að nýju. Í þeim tilgangi einum, að mér virðist, að níðast á frændum okkar.
Ekki var verið að gera boð á undan sér svo bjórverksmiðjurnar gætu verið undirbúnar innrásinni og aukið framleiðslu sína sem svar við allt að því ótrúlega aukinni neyslu afurðanna. Slíkt samræmist ekki innrætinu.
Ég, sem ágætlega viti borinn og vel innrættur drengur, ákvað að halda mig heima því þó ég hafi ekki fyrirgefið Dönum enn hvernig þeir fóru með okkur á tímum einokunarinnar þá er mér ekki svo illa við þá að ég leggi á þá að fá allan pakkann á einu bretti.Það verður nógu erfitt fyrir þá að díla við 75% okkar bræðra.
En nóg um það.
Ég vil taka skýrt fram að þó ég hafi ekki bloggað síðan 16. júní þá er það ekki leti um að kenna. Ég, talnablindur garmurinn, er að berjast við stærðfræðina og þetta er bara undirbúningsnámskeið. Martröðin sjálf hefst svo 20. september. Ég fæ hnút í magann bara við tilhugsunina um þessa tvo skylduáfanga sem ég neyðist til að taka í frumgreinadeildinni. Það er bara að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti.
Þegar ég renni augunum yfir fréttasíður dagsins þá er nú ekki af stóru að taka. Jón garmurinn Ásgeir Jóhannesson, jafn staurblankur og hann ku vera, hefur snúið vörn í sókn. Eitthvað hefur heyrst um aurainneign í kanadískum banka. Sel það þó ekki dýrar en ég keypti. Fátt annað er áhugavert. Búsáhaldabyltingin virðist vera byrjuð að nýju en hálf máttleysislega þó.
Ég læt þetta nægja að sinni og þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2010 | 01:12
Ég hugsa mér gott til glóðarinnar.
Enn og aftur hefur Framsóknaríhaldinu tekist að koma í veg fyrir afgreiðslu vatnalaganna og þá væntanlega með hótunum um málþóf, eins og þeirra er von og vísa.
Í fyrstunni læddist að mér sá ljóti grunur að nú ætti að fara að hygla rétttrúuðum óðalseigendum og tryggja þeim full yfirráð yfir því vatni sem fyrirfinnst á þeirra landareign og jafnvel rigningarvatninu líka.
Samanber Bólivíu.
Eftir á að hyggja komst ég að raun um að þetta væri að öllum líkindum farsælasta lausnin á blankheitum þó nokkurra útrásarvíkinga sem ku jú eiga jarðir hist og her, ekki bara í Skagafirðinum eða Borgarbyggð, því eymingjans mennirnir hljóta að vera orðnir auralitlir .
Stjörnulögfræðingar kosta jú sitt.
Í onálag fékk ég þessa líka brilljant hugmynd! Jess sir! Þar sem við bræðurnir erfðum ættaróðalið að föður okkar gengnum, sem nú stundar sinn búskap á hinum eilífu sláttulendum, þá væri ekki úr vegi að hala inn smá pening svona til að dekka föst útgjöld eins og t.d. fasteignagjöld, viðhaldskostnað, stöku hraðaksturssektir ( maður gleymir sér stundum og spýtir í hér í drulluforinni sem skilgreind er sem þjóðvegur ) og svo náttúrlega nefskatturinn til Rúv. hítarinnar sem er álíka gáfulegt uppátæki og að reyna að fylla sálina prestanna.
Lausnin er fundin.
Nú skulu ferðamennirnir sem eru að tjalda hér í móunum aldeilis fá að borga brúsann. Ekki hef ég hugsað mér að rukka fyrir tjaldstæði hér í kargaþýfinu en vatnsdropinn er dýr. Það þýðir ekki að stelast í bæjarlækinn lengur eftir vatni í tesopann. Nú skal borga. Hvað varðar almenningsklósettin sem ég hef hugsað mér að setja upp þá er sára einfalt að afgreiða slíkt. Hver og einn sem á þeirri þjónustu þarf að halda kaupir ákveðið magn af vatni ( á verði sem ég ákveð ) og hellir í klósettið að athöfn lokinni.
Rigningarvatnið vefst hins vegar fyrir mér. Reyndar hefur mér verið bent á að setja mig í samband við eigendur álversins á Reyðarfirði til að afla mér upplýsinga og fylgdi með að þeir væru vel kunnugir í Bólivíu. Þetta sel ég hins vegar ekki dýrar en ég keypti.
Jamm, það er ekki verra að geta með stolti sagst vera kominn innundir hjá elítunni því þó jörðin sé lítil þá er þó alltaf bæjarlækurinn.
Að þessum hugleiðingum loknum býð ég ykkur góða nótt.
Þar til næst.
Dægurmál | Breytt 30.6.2010 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2010 | 00:29
Timburmenn kosninganna.
Nú, að kosningum loknum hefði verið einstaklega notalegt að geta kveikt á útvarpinu og hlustað á huglúfa tónlist, ef ekki hefði verið fyrir þessa háværu ungu menn sem gera sér engan veginn grein fyrir að þeirra tími er liðinn.
Hæst ber að sjálfsögðu Engeyjarguttann Bjarna Ben. sem nú fer hamförum og lýsir því yfir, aðspurður um styrkveitingar til Guðlaugs Þórs sem reyndar námu ansi mörgum verkamannalaunum, að Guðlaugur Þór sækti ekki umboð sitt til hans, (ergo, bara sitja sem fastast og sitja sem lengst.Takk fyrir.)
Þá rifjast upp fyrir mér orð hans varðandi Ásbjörn Óttarsson, sem skammtaði sér ómældar milljónir í arðgreiðslur og bar því við að hann hefði ekki vitað betur, eftir rekstur útgerðar hátt á fjórða áratug, (Kommon Ásbjörn. Ef þú veist ekki betur eftir allan þennan tíma, er þá ekki kominn tími til að hætta?) Þar hrutu þau spakmæli af vörum Bjarna, sem örugglega eiga eftir að festa sig á spjöld sögunnar, að úr því að Ásbjörn kallinn Óttarsson væri búinn að skila áðurnefndum greiðslum þá nyti hann fyllsta trausts innan síns flokks.
Ekki tók nú betra við í dag þegar ungur pjakkur, Sigmundur Kári Kristjánsson að nafni, vændi forsætisráðherra vorn um spillingu og lygar og til að kóróna nú kjaftæðið, þá sagðist hann hafa heimildir ! Nú er bara fyrir drenginn að viðra sínar heimildir. Þær hljóta að vera áreiðanlegar úr því hann fer svo geyst. Eitt ætti hann samt að hafa hugfast. Til er nokkuð sem kallast siðferði ( það má líka nefna almennar kurteisisvenjur ) og gildir jafnt á Alþingi sem og annars staðar. Strákskömmin veit kannski ekki hvað orðið þýðir.
Talandi um siðferði, nú hafa lög um gagnaver í Reykjanesbæ verið samþykkt. Þar kemur Björgólfur nokkur Thor við sögu. Þarf varla að hafa fleiri orð um það.
Margt fleira bitastætt hefur gerst. Það má landinn eiga að þegar kemur að ósamlyndi og sundurþykkju þá eigum við enga okkar líka.
Svona rétt í lokin er hér smásaga um finnska búfræðinemann sem kom hingað til lands til starfa á mjólkurbúi en sagði svo eftir að starfstímanum var lokið. "Sko í Finnlandi lagfærum við girðingarnar áður en liðinu er hleypt út. Hérlendis er ykkur nokk svo sama."
Alveg lýsandi fyrir okkur Íslendinga.
Þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2010 | 17:35
Sona sitt af hverju.
Enn heldur sandkassaleikurinn hjá háttvirtum þingmönnum okkar áfram. Nú bítast þeir á Einar K. Guðfinnson og Össur Skarphéðinsson um hvussu beri að túlka ályktun meirihluta utanríkismálanefndar, og eins og okkur Íslendingum einum er lagið þá ganga hártoganirnar á víxl. Ég sem var svo einfaldur að halda að nú á krepputímum gætu öll dýrin í skóginum verið vinir og hjálpast að og fundið lausn á okkar vandamálum. Áður en byrjað er að þjarka um utanríkismálin.
Vissulega eru það hörmulegir atburðir sem áttu sér stað í gærmorgun þegar Ísraelsmenn, í skjóli "stóra bróður," þóttust vera að verja sig gagnvart hryðjuverkamönnum sem voru jú þrælvopnaðir lyfjum og öðrum nauðsynjum til hjálpar þurfandi palestínskum konum og börnum.
Einhverjir ku hafa verið vopnaðir bareflum og teygjubyssum.
Einar K. heldur því fram að sú krafa að opna verði án tafar fyrir flutninga á hjálpargögnum til Gasasvæðisins stangist á við ályktun meirihluta utanríkismálanefndar. Hvaðan hann hefur þær upplýsingar er mér óskiljanlegt því hvergi nokkurs staðar hefur verið minnst á slíkt í fjölmiðlum.
Enn bætir Einar í seglin og kveður upp þann úrskurð að meirihlutinn hafi ekki kosið að taka undir undir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í nótt sem meðal annars fól í sér kröfu um tafarlausa alþjóðlega rannsókn á árásinni í gær.
Þá vitum við það. Svona hjali hljóta allir að vísa til föðurhúsanna.
Hvað varðar pólitíkina þá vita allir að þeir sem unnu voru fjórflokkarnir - þrátt fyrir tap - hérumbil allsstaðar. Óþarfi að hafa fleiri orð um það.
Hér er svo frétt sem kom mér þægilega á óvart en lestur "Skýrslunnar" gæti fengið Grímuna, sem fyrir þá sem ekki vita, eru verðlaun sem úthlutað er einu sinni á ári fyrir þá sýningu sem áhorfendum finnst bera af.
Það skyldi þó aldrei fara svo.
Svona rétt í lokin er svo frétt frá Noregi sem sýnir okkur að aldrei er nógu varlega farið. Um er að ræða húsið sem hvarf til himins og mín fyrsta hugsun var: Djöf...... hefur landinn verið sterkur, en húseigandinn hafði víst verið að framleiða dýnamít sem ku vera löglegt í Noregi. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni í hvaða tilgangi flugeldarnir voru framleiddir.
Kveð ykkur að sinni og minni á að þrátt fyrir allar hrakspár heldur ísl. krónan áfram að styrkjast og það án inngripa Seðlabankans.
Þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2010 | 07:47
Að loknum kosningum.
Það má með sanni segja að skjótt hafi skipast veður í lofti í íslenskum stjórnmálum sl. sólarhring þegar gamalreyndir stjórnmálamenn urðu, og gerðu sig að fíflum og "fíflin" urðu, flestum að óvörum og þá kannski sjálfum sér mest , að stjórnmálamönnum.
Viðbrögð formanna fjórflokkanna eru með ólíkindum. Sigmundur Davíð sagði að flokkurinn hefði víða um land unnið stórsigra. Eins og hans er von og vísa þá forðast hann að fara út í smáatriði og nefnir ekki hvort stórsigrarnir hafi átt sér stað í Surtsey eða Kolbeinsey. Ætlar strákskömmin aldrei að vitkast?
Ekki tekur betra við þegar Engeyjarguttinn Bjarni Ben. opnar hvoftinn og segir að úrslitin í Reykjavík séu ekki áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn. "Það eru vinstri flokkarnir sem eru að stórtapa í þessum kosningum."
Það eru greinilega engin takmörk fyrir vitleysunni. Sem sagt, allir hrósa sigri nema kannski Jón Gnarr sem stendur með pálmann í höndunum og gefur fjórflokkagenginu langt nef. Sem var löngu tímabært.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í náinni framtíð en þar sem ég hef staðið kosningavöku nú í mun lengri tíma en ég ætlaði mér þá læt ég ykkur góðu lesendur það eftir
því nú ætla ég að fara að halla höfði. Kveð ykkur að sinni og þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2010 | 18:36
Af feluleik, forgangsröðun o.fl. djúsí.
Býsna fróðlegt að fylgjast með styrkveitingum til stjórnmálamanna vorra. Minnir smá á ameríska kerfið þar sem þeir sem mest fjármagnið hafa millum handanna komast til metorða þegar hinir hverfa í gleymskunnar djúp.
Undarleg finnst mér þessi leynd sem virðist hvíla yfir upphæð styrkjanna til nokkurra af okkar ástkæru stjórnmálamönnum, minnir ögn á feluleikinn sem við vinirnir fórum í sem börn þó svo hann væri annars eðlis.
Gísli Marteinn ber við önnum og gleymsku enda upptekinn af því að mennta sig í Edinborg á okkar kostnað. Kommon Gísli, það eru liðin fjögur ár. Svo langan tíma tók námið ekki.
Frá hinum heyrist ekki bofs og samkvæmt íslenskri hefð næst ekki einu sinni símasamband við þá.
Guðlaugur Þór Þórðarson þáði 24,8 milljónir í styrki fyrir þingkosningarnar 2007. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðunar þáði enginn hærri styrki en hann.
Í Kastljósi 4. maí sagðist Guðlaugur ætla að upplýsa hverjir styrktu hann og birta það mjög fljótlega."
Svo við snúum okkur að samgöngumálum þá kíkti ég á síðu Vegagerðar innar og trúði varla mínum eigin augum. Getur það virkilega verið að nú eigi að fara að bora í gegnum Vaðlaheiðina?
Ókei, ókei. Ég veit að bæði getur Vaðlaheiðin verið þungfær að vetri til og líka að leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur styttist um 15,5 kílómetra en fyrr má nú vera. Mér koma í hug orð eins færeysks vinar míns, skömmu eftir að ég flutti til Færeyja árið 1990. "Við máttum ekki sjá hundaþúfu án þess að bora í gegnum hana." Áfram hélt hann og sagði mér frá einni af smærri eyjunum, minnir það hafi verið Skúvoy, en þar voru boruð fimm göng.
Síðan hefur sú eyja verið kölluð "Blokkflautan."
Áfram með smjörið. Gamlir og úr sér gengnir malarvegir eru eini samgöngumátinn milli smærri byggða t.d. á Vestfjörðum og samkvæmt niðurskurðaráformum verður frekara viðhaldi ýtt út í horn því það þarf að bora!
Hvað Vaðlaheiði snertir vil ég benda þeim sem ekki þekkja til að hún er í kjördæmi samgöngumálaráðherra okkar.
Ummæli vikunnar eru án efa orð Ólafar Nordal í þætti á ÍNN þar sem hún sagði: Við vitum það auðvitað, við höfum farið yfir það áður, að þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið.
Í sama þætti féllu önnur ummæli sem að mínu mati eru ekki síðri en þar segir Guðlaugur Þór Þórðarson orðrétt: Íslensk þjóð hefur ekki efni á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái skell í þessum kosningum."
Ég hef grun um að hvorugt þeirra ríði feitum hesti frá þessum kosningum og svona rétt í lokin vil ég sem landsbyggðarmaður þakka fráfarandi borgarstjóra fyrir vel unnin störf því alþjóð veit að Hanna Birna er bæði heiðarleg og eldklár, en það kemur maður í manns stað. Með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni og sný mér að öðru sem þessa stundina er mér hugleiknara en allt sem viðkemur kosningunum en það er að uppræta njólann úr garðinum. Vonandi tekst jafnvel að uppræta þessa landlægu spillingu sem alltof lengi hefur tröllriðið húsum hérlendis.
Þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2010 | 15:35
Próflok = Sumarfrí !
Jebb, það er loksins komið að langþráðu fríi. Mér tókst að klóra mig í gegnum lokaprófið. Þriggja tíma törn í íslensku.
Talandi um þrjá tíma, ég ráðlegg öllum sem eiga eftir að standa í slíku að fá sér ALLS EKKI kaffi áður en hafist er handa. Það getur haft í för með sér mjög svo, hmm, óþægilega líðan því pásan er engin. Nú er ég sem sagt kominn í sumarfrí - fram að stærðfræðinni sem er minn veiki punktur - en ég ætla ekki að fara að eyðileggja daginn með því að hugsa um hana.
Ég var að renna augunum yfir fréttir síðustu daga og komst að raun um að það hefur verið ósköp tíðindalítið og friðsælt undanfarið. Einhverjir góðkunningjar lögreglunnar voru teknir með þýfi í stolnum bíl og í annarlegu ástandi. Ekki fylgdi sögunni hvort bílstjórinn hefði verið próflaus líka.
Svo var verið að banna auglýsingar um 100% örugga ávöxtun. Í greininni koma þessi tvö litlu orð "ákveðin gengisáhætta" fyrir sem ekki eru í auglýsingunni. Æ, ekki aftur, hugsaði ég bara. Svo kom þessi hefðbundna frétt um skattsvikara sem fékk tæpar 35 millur í sekt og smá skilorð en bara 6 mán. fangelsi verði sektin ekki greidd. Hann fer sem sagt á biðlistann og í framhaldi af því vil ég enn og aftur viðra hugmynd mína um öryggisfangelsi á Víðilæk í Borgarbyggð. Nú er Siggi kallinn Einarsson byrjaður að láta innrétta kofakrílið sitt ( hann ku eiga það enn) og þar sem hann er svo forsjáll að hafa skothelt gler í gluggum þá þarf ekki að eyða vandfundnum aurum í rimla. Kallinn skuldar íslensku þjóðinni örugglega meira en andvirði sumarhússins.
Fréttin sem toppar svo allt er um veðsetninguna á húsinu í Grjótaþorpi sem nú er veðsett upp í rjáfur og gott betur. Enn kemur Kaupþing við sögu.
Hvuddnin skyldi annars standa á því að hús sem fært var Reykjavíkurborg að gjöf hafi lent í höndum Baugsmanna?
Hver tók ákvörðun um söluna ?
Já, þær eru margar spurningarnar sem kannski fást aldrei svör við. Kveð ykkur að sinni og þar til næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)