Færsluflokkur: Dægurmál

Vikan sem leið.

Ekki dró til neinna stórtíðinda en þó voru nokkrar smáfréttir sem vöktu athygli mína.

Hér segir af Jóni nokkrum Ásgeiri Jóhannessyni. Fyrstu viðbrögð hans eftir að honum var birt stefna slitastjórnar Glitnis voru uppgjöf. Drengurinn bar við blankheitum og því gæti hann ekki varist í málinu, enda myndi það kosta gríðarlega háar fjárhæðir en skjótt skipast veður í lofti. Nú hefur hann ákveðið að snúa vörn upp í sókn.

Hvaðan skyldi stráksi, sem varla hefur efni á diet kók fá aura upp í málskostnað sem hlaupið gæti á tugum, ef ekki hundruðum milljóna?

Sigurður Einarsson situr sem fastast í húsinu sínu (?) í Chelsea, setur skilyrði og gefur íslensku þjóðinni langt nef. Ég var að velta fyrir mér hvort sumarbústaðurinn hans þarna á Veiðilæk í Borgarbyggð væri orðinn fokheldur. Fékk nebbnilega þessa fínu hugmynd. Slíkt gerist stundum með hækkandi sól. Þar sem húsið ku vera liðlega 700 fermetrar væri hægt að innrétta fangelsi fyrir allt að, ja, 30-40 vistmenn og grynnka á þeim fjölda sem bíður afplánunar og hver veit nema Siggi garmurinn komi sjálfur til með að gista þar. Væri vel við hæfi. Nú ríður á að hafa hraðar hendur því ekki er hægt að byrja að innrétta fyrr en búið er að hirða kofann af kallinum.

Nú vilja óprúttnir og illa innrættir aðilar selja auðlindir okkar útlendingum í þeim tilgangi að mér virðist til að byggja álver. Eitt enn. Undarleg er áráttan mannskepnunnar að horfa til orkufrekrar stóriðju þó á móti blási. Atvinnuleysi er mikið og byggingaframkvæmdir krefjast margra handa en þegar upp er staðið skilar álver tiltölulega fáum störfum. Bendi öllum eindregið á að lesa síðu Ómars Ragnarssonar en þar kemur margt fróðlegt fram.

Svona rétt í lokin vil ég koma því á framfæri við þá sem hafa verið að hnýta í mig út af hárlubbanum að klipping er ekki á fjárlögum öryrkjans en þar sem litli bró er þvílíkur snillingur í rúningi með rafmagnsklippum, eins og sást á mínum haus og annarra hér áður fyrr, hef ég ákveðið að hinkra þar til hann flyst ásamt fjölskyldu aftur til Íslands, að ári.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Nú skal spara.

Eins og flestir hljóta að gera sér grein fyrir þá ríkir hér kreppa. Hef reynt það sjálfur á mínu auma skinni.

Fjármálaráðherra vill spara og telur eðlilegast að byrja efst. Heyrst hefur að spara megi allt að 360 milljónum króna við sameiningu ráðuneyta sem er að mínu mati hið besta mál. Þeim fækkar þá vonandi spenatotturunum.

Félagsmálaráðherra boðar nú niðurskurð upp á 40 milljarða sem samkvæmt eðli málsins bitnar á þeim sem síst mega sín. Hann segist reyndar vona að ekki þurfi að skera niður um meira en 6%,   en þá þurfi annar hluti ríkisrekstrarins að bera 9%.

Þar er ég með margar góðar hugmyndir sem margir bloggarar hafa reyndar viðrað á síðum sínum.

Við byrjum á að skera meira niður í utanríkisráðuneytinu.

Sendiherrabústaðurinn í New York var seldur s.l. ár fyrir liðlega hálfan milljarð. Á móti kemur leiga á húsnæði upp á ca. 27 milljónir á ári, en betur má en duga skal. Við dvergþjóðin erum með sendiráð á öllum Norðurlöndunum sem er að mínu mati flottræfilsháttur af svæsnustu sort. Minnir smá á 2007. Ef ráðamenn hugsa nú dæmið til enda hljóta þeir  (vonandi) að koma auga á veruleikafirringuna og leggja þau niður. Ræðismannsskrifstofur gera sama gagn. Til greina gæti komið að halda sendiráðinu í Danmörku opnu svona til að sýna lit.

Níu starfsmenn hjá utanríkisráðuneytinu starfa þar með sendiherratitil og þiggja laun samkvæmt því. Tveir þeirra hafa aldrei starfað á erlendum vettvangi. Laun þeirra kosta íslenska ríkið tæpar sjötíu og fjórar milljónir króna á ári.

Það má spara víðar, t.d. að skera fjárframlög hins opinbera til stjórnmálaflokkanna niður um helming. Ef það hefur í för með sér að einhverjir verði að sleppa framboði þá geta þeir bara setið heima. Hér ríkir jú kreppa!

Síðast en ekki síst, og þar kem ég örugglega við kaunin á mörgum fyrrverandi og núverandi stjórnmálamönnum, þá þarf að taka til endurskoðunar eftirlaun og hlunnindi þessa hóps, sjálftekin eður ei.

Þráinn Bertelsson hefur lagt fram skínandi tillögu um endurskoðun eftirlauna og hlunninda þeirra sem rannsóknarnefnd Alþingis telji hafa sýnt vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins og spyr  hvers vegna þetta fólk eigi að þiggja margföld sjálftekin eftirlaun úr vasa fólksins í landinu, sem núna líði sárlega fyrir afleiðingar gerða þeirra.

Brilljant spurning en ég reikna með að málið verði svæft. Er það ekki hefðin?

Með öllum þessum jákvæðu hugleiðingum kveð ég ykkur að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Skammt stórra högga á milli.

Áfram berast oss fregnirnar.

Samkvæmt bloggfærslum og athugasemdum hist og her hljóta þær að teljast jákvæðar. Að vísu hefur sig í frammi tiltölulega fámennur hópur manna, með tilheyrandi orðskrúði og bumbuslætti, og fer mikinn með yfirlýsingum um ofsóknir, vanþekkingu og slúðurstefnu. Er öllum meðulum beitt t. d. fjölmiðlum í einkaeign, PR-fulltrúum og lögfræðingum, og jafnvel hótað málssókn. Reyndar eru þeir til sem ekki finnast.

Mér segir svo hugur að nú þurfi að byggja og það stórt. Þar kemur aftur upp gamla vandamálið. Það kostar. Þegar rætt er um allt að því óviðráðanlegan byggingarkostnað "öryggisfangelsis" tel ég mig, að vandlega íhuguðu máli, hafa fundið lausn á vandanum. Það finnast örugglega vinnubúðir hingað og þangað sem standa ónotaðar ( Kárahnjúkabúðirnar?) og mætti notast við svo fremi sem þær halda vatni og vindum. Það er jú lakur skúti sem ekki er betri en úti.

Kostnaðarhliðin yrði hins vegar girðingin umhverfis hótelið sem þyrfti ekki aðeins að varna væntanlegum gestum "útrásar" heldur líka þeim sem hygðu á "innrás" því eins og alþjóð veit þá er biðlistinn langur og væntanlega finnast þeir sem telja sig öruggasta innan girðingar. Hafa sosum almenningsálitið ekki beinlínis með sér.

Slíkr hótel yrði að sjálfsögðu staðsett á (fyrrverandi) bújörð einhvers "útrásarvíkingsins" og þar sem línan í dag er að hafa allt sjálfbært mætti huga að garðyrkju og þegar fram í sækir jafnvel sauðfjárbú og hver veit nema kúabú skyti svo upp kollinum. Fátt er jafn búsældarlegt og ilmurinn af mykjunni þegar nýbúið er að bera á túnin.

Í þeirri von að ráðamenn gjaldþrota þjóðarbús taki þessar hugmyndir til athugunar kveð ég að sinni og þar til næst.

 

 

 


Nú er að láta hendur standa fram úr ermum...

...og byrja að byggja.

Oss hafa jú borist fregnir úr búðum yfirvalda að nú sé (loksins) byrjað að grisja skóginn.

Af nógu ku vera að taka.

Tvær handtökur munu vera rétt dropi úr hafsjó þess fjármálafyllerís sem hér ríkti alltof lengi og ríkir kannski enn.

Hver veit?

Ég tek ofan fyrir sérstökum saksóknara. Hann hefur sýnt og sannað að hann er starfi sínu vaxinn þrátt fyrir hrakspár hér í Bloggheimum. Ég hef grun um, þegar upp er staðið, verði hann sæmdur Fálkaorðunni sem hann á fyllilega skilið.

Svo fremi við verðum búin að fá nýjan forseta því það fer ekki  saman að æðsti maður þjóðarinnar,sem hengdi orður um háls "útrásarvíkinganna," sæmi svo þann mann, sem er á góðri leið (mjög góðri) með að fletta ofan af áðurnefndum víkingum, sama heiðursmerki.

Þar sem allar líkur benda til þess að væntanlegur hótelgestum hins opinbera fari fjölgandi á næstu misserum vil ég enn og aftur benda á þá leið sem ég tel farsælasta og ódýrasta.

Það mætti slá tvær flugur í einu höggi. Byggja öryggisfangelsi og virkja um leið væntanlega gesti í byggingarvinnu, launalaust að sjálfsögðu því það myndi létta á syndabagganum og byggja upp góða heilsu, (útivinnan eins og þið vitið), framkvæmdir myndu ganga fljótt og vel fyrir sig og launakostnaður yrði nálægt núllinu því nægjanlegt framboð yrði á verkamönnum ef nota má svo ófínt orð um þá höfðingja sem þar myndu leggja hönd á plóginn.

Það liggur í augum uppi að þessir "höfðingjar" yrðu að fá að búa útaf fyrir sig því þeirra gjörðir koma hverjum einasta heiðarlegum skinkuþjófi til að sárskammast sín, eins og vinur minn Breiðavíkurdrengurinn Lalli Jones kvað upp með, hérna um árið : "Ég vil ekki sjá þessa gúbba nálægt mér. Ég stel oní mig að éta og stundum líka til að fá að halda jólin á Hrauninu. Það er betra en að liggja úti." Ég trúi orðum Lárusar því við kynntumst vel þegar við unnum saman fyrir ca.  aldarfjórðungi í fiski hér fyrir "westan."

Nú leikur mér hugur á að vita hvort búið sé að teikna hótelið eða hvort stjórnvöld ætli að draga lappirnar í þeim málum eins og mörgum öðrum.

Þætti vænt um ef einhver lesandinn gæti frætt mig um slíkt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


mbl.is Hreiðar Már í skýrslutöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju -öreigar í öllum löndum.

Því 1. maí er eini dagurinn sem við fáum að rífa kjaft án þess að lenda í tugthúsinu, með nokkrum undantekningum þó.

Ég bý úti á landi þannig að ég hef fylgst þess meir með útvarpinu. En mikil ósköp. Það sem ég hef heyrt í dag er nákvæmlega það sem ég hef heyrt undanfarna áratugi. Menn berja í púltið og æpa sig hása en þegar upp er staðið er útkoman sú sama og áður, ræðumaður liggur heima næsta dag, þegjandi hás og ruslaralýðurinn, afsakið, ræstitæknarnir þrífa upp sorpið á Austurvelli.

Þar eru allar blöðrurnar sprungnar.

Það hefur reyndar eitt og annað borið á góma síðustu daga, t. d. þegar talað er um skerðingu á lífeyri til óbreyttra þá, eins og gefur að skilja, er ekki ýjað að því einu orði hversu mikið laun stjórnarmanna lífeyrissjóðanna skerðast.

Eru þeir ekki flestir eða allir á mála hjá vinnuveitendunum?

Athyglisverð er klausa sem ég las í stjórnarskrá Gildis , en þar segir:

"Hlutverk lífeyrissjóðs er að tryggja sjóðfélaga sína, maka þeirra og börn í framtíðinni samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins ."

En: Lífeyrissjóðurinn Gildi ætlar að leggja til við ársfund sjóðsins að réttindi sjóðsfélaga verði lækkuð  um 7% í ár. Ekki er nema ár síðan réttindi sjóðsfélaga voru lækkuð um 10%.

Nú já.

"Staða sjóðsins er innan þeirra marka sem bráðabirgðaákvæði laga um lífeyrissjóði setur og því er ekki skylt að breyta réttindum sjóðsfélaga. „Það er hins vegar markmið að reka sjóðinn þannig að staða hans sé sem næst því að vera í jafnvægi."

Var verið að bruðla með iðgjöld sjóðsfélaga?

"Á ársfundi Gildis – lífeyrissjóðs í fyrra var samþykkt tillaga stjórnar sjóðsins um að áunnin réttindi sjóðfélaga yrðu lækkuð um 10%. Réttindin voru hins vegar hækkuð um 10% árið 2007 og 7% árið 2006. Sú hækkun hefur því að fullu gengið til baka."

Þarna er kattarskömmin greinilega að klóra yfir kúkinn úr sér.

Nei góða fólk.  1. maí er ekkert annað en kærkominn frí(og fyllerís) dagur svo öreiginn geti lifað í þeirri blekkingu að hann sé einhvers virði.

Svona mætti lengi telja, en þar sem daginn "okkar" ber upp á laugardag þá býst ég við því að þjóðin sé dottin í það svo það má þá kannski rifja pistilinn upp að ári.

Ég óska öreigum allra landa til hamingju með daginn og elskurnar mínar, gangið hægt um gleðinnar dyr því á mánudaginn kemur ofur venjulegur vinnudagur , á venjulegum launum svo það er eins gott að hafa radarinn í lagi.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Það er af sem áður var.

1332-how-ironicHvaða heilvita maður skyldi nú trúa orði af því sem frá Björgólfi jr. kemur?

Elli og örorkulífeyrisþegar?

Ég efa það stórlega. Mín fyrsta hugsun, eftir að hafa lesið "afsökunarbréfið" var að maðurinn hlyti að hafa alveg einstaklega pennafæran PR-fulltrúa. Það þarf sterkan maga til að melta allar þær "afsökunarbeiðnir" sem á okkur dynja þessa dagana sem ,ef grannt er að gáð, eru bæði hjáróma og innantómar.

Í stað þess að stíga fram og viðurkenna afbrot sín og virða svo fyrir sér útsýnið í gegnum rimla er gripið í síðasta hálmstráið. Sem mér er til efs að nokkur maður trúi.

Kannski á þessi afsökunarbeiðni, ásamt öllum öðrum, rætur sínar að rekja til ummæla Evu Joly þegar hún hvatti "útrásarvíkingana" til að stíga fram, viðurkenna yfirsjónir sínar og gerast samvinnuþýðir. Hver veit. Það myndi spara tíma, fjármuni og síðast en ekki síst, þá fyrst yrði þjóðin tilbúin að fyrirgefa. Þangað til verða þessir menn útlagar í eigin landi sem varla getur talist fýsivert.

Eftir nokkra daga verða fyrstu ákærurnar frá embætti sérstaks saksóknara lagðar fram. Það er bara byrjunin. Svo skellur holskeflan á.

Svo ég vitni í orð Evu Joly þá verður hægt að hundelta þessa menn út um allan heim og bara tímaspursmál hvar og hvenær þeir nást.

Er þá ekki skynsamlegra að ganga að samningaborðinu?

Dæmi hver fyrir sig.

Og, að lokum, megi hið nýja og óspillta Ísland lifa sem lengst.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Skilur réttláta reiði almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggja ára afmæli!!

Í dag eru tvö ár frá því ég hóf upp raust mína og fór að rífa kjaft hér í Bloggheimum, nokkrum til ánægju en flestum til leiðinda og ama.

Hmmm, það skyldi þó ekki vera að hér eigi gamli góði málshátturinn "Sárt bítur sekan" vel við?

Hvað sem því líður þá vil ég að það komi skýrt fram að ég ku vera einstaklega dagfarsprúður og góður drengur. Í það minnsta að eigin mati og móður minnar. Margt hefur drifið á dagana á þessu tímabili, sumt jákvætt (?) en margt neikvætt. Litli bró var forspár og pillaði sig ásamt fjölskyldu af skerinu vel fyrir hrun og hefur nú skotið rótum í Danaveldi. Hinsvegar hími ég hér enn og líður stundum eins og strandaglóp, fæ þá helst útrás með því að níðast á samlöndum mínum hér á netinu og þá ekki bara pólitíkusum.

Í tilefni dagsins ætla ég að vera jákvæður og minnast á ágæta grein sem Pressupenninn Sölvi Tryggvason skrifar í dag undir fyrirsögninni "Kjarnorkusprengjan." Þema greinarinnar er að mínu mati "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér." Þessu er ég fyllilega sammála og vona heilshugar að þessi skrif rati inn á borð stjórnarandstöðunnar í þeirri von að augu leiðtoga "Framsóknaríhaldsins" opnist og þeir rifji upp aðdraganda bankahrunsins áður en gammurinn er látinn geisa áfram.

Mér blöskrar stundum minnisleysi unga fólksins, bendi í framhaldi af því á lestur "Skýrslunnar" sem óefað getur hresst upp á gloppótt minni drengstaulanna.

Enn og aftur óska ég öllum góðs sumars með von um betri tíð og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


"Æm só sorrí"

Þessa dagana dynja á okkur afsökunarbeiðnir frá hinum og þessum aðilum t.d. "útrásarvíkingum" sem iðrast synda sinna og lofa öllu fögru eins og að gera upp sínar skuldir þó svo hvergi sé minnst á að borga þær.

Þingmenn fara hamförum líka og nú kemur Steinunn Valdís Óskarsdóttir fram á sjónarsviðið og segir að hugsanlegt sé að allir þingmenn fram að hruni 2008 yfirgefi sviðið. Hún virðist hinsvegar ekki ætla að segja af sér nema allir aðrir geri það líka.

Noregsfarinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer mikinn þessa dagana, eins og svo oft áður, biður fyrir hönd flokksins margfalt afsökunar en klykkir svo út með því að segja að Framsóknarflokkurinn hafi fyrstur flokka viðurkennt mistök, hann hafi fyrstur flokka ráðist í endurnýjun og endurskoðun innávið en ný flokksforysta var kosin á flokksþingi fyrir fimmtán mánuðum.

Nú já. Hann þegir þunnu hljóði um Noregsferðina frægu sem hann, eftir að hafa látið gamminn geysa um skuldasöfnun Íslands, fór í ,ásamt flokksbróður sínum Höskuldi Þórhallssyni (sem reyndar fer lítið fyrir þessa dagana) í þeim tilgangi að slá lán upp á litla 2000 milljarða. Sú ferð var ekki farin til fjár.

Ég hallast helst að því að drengstaulinn treysti ekki á gullfiskaminni landans heldur sitt eigið.

Það sem mér hefur fundist einkenna málflutning þeirra félaga, hans og Engeyjarguttans Bjarna Ben. er þetta gegndarlausa ofstæki gagnvart núverandi ríkisstjórn þar sem allt er tínt til og krafist kosninga í haust en, hvergi hafa komið fram hugmyndir um hvað mætti betur fara og hvernig ætti að fara að því.

Það er reyndar fleira sem vekur eftirtekt mína þessa dagana og má þar nefna auglýsingu frá fyrirtæki sem nefnist "alterna" og býður okkur litla fólkinu "miklu lægra mínútuverð." Einkennilegt að mínútuverðið skuli ekki vera tilgreint á fyrstu síðu - og - hverjir standa á bak við það?

Nóg komið að sinni, ég óska öllum gleðilegs sumars með von um betri tíð.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Dómgreindarvísitala Björgólfs Thors/ Andmælabréf við afsökunarbeiðni.

 Þann 15. sl. barst mér eftirfarandi bréf frá bloggvini í Kanada - Jennýju Stefaníu Jensdóttur - með ósk um að koma því á framfæri. Ég verð að viðurkenna vanmátt minn í þeim efnum svo ég ákvað að setja það inn á síðuna mína í þeirri von að einhver framtakssamur geti þá komið því áfram. Titillinn á blogginu mínu þetta skiptið er fyrirsögn bréfsins.

"Björgólfur Thor,

Ég ætla að nýta mér andmælarétt, við afsökunarbréfi þínu, sem lesið var af þúsundum Íslendinga og viðbrögðin létu ekki á sér standa, enda bjóstu varla við öðru?

Ég efast ekki um; að greindarvísitala þín sé há, en ég leyfi mér að fullyrða að dómgreindarvísitala þín sé hættulega lág.

Ég hefði að öllu jöfnu;  kært mig kollótta um hvort tveggja, (enda elti ég ekki ólar við fólk eftir vísitölum) því ég laðast frekar að fólki með "genuine" persónutöfra. 

Nú þegar  ljóst er að  dómgreindarskortur þinn og þinna líka, hefur orsakað hrun heils efnahagskerfis, ómælda sorg og örvæntingu fjölmargra landa okkar og ástvina, er mér ekki sama.  Auk þess, eftir lestur RNA, gegndir þú augljósri stöðu "skuggastjórnanda" sem í krafti ólöglegar stöðu, rakaðir fé undir eiginn handarkrika sem er refsivert athæfi.

Niðurstaða mín eftir skönnun á netheimum í dag um viðbrögð við afsökun þinni er; almenningur er ekki stemmdur fyrir svona afsökun.  Fyrstu viðbrögð mín voru; Björgólfur hefur horft á Tiger segja; I am sorry, I am so sorry ...... og bréf þitt var með jafnmörgum sorry á okkar ástkæra ylhýra.  Var samt feginn að þú endaðir ekki bréfið á :  Ég mun nú fara á meðferðarstofnun í "græðgisfíkn", því eins og ég og þú og Tiger vitum, engin slík "stofnun" er til.

Veit ekki hvort þú fylgist með golfi, það geri ég af miklum áhuga.  Ég kættist ógurlega yfir sigri hins spékoppadjúpa Phil Mickelsen, og felldi tár, þegar ég upplifði tilfinningaþrungna sigurstund hans, með sárveikri eiginkonu og móður og litlu stelpunum hans.  Ég skammast mín ekkert fyrir að tárast yfir heitum tilfinningum, því veistu Björgólfur, þetta er það sem lífið snýst um; fjölskylda, ástvinir og hamingja þeirra.

Veit ekki hvort hægt er að taka háskólagráðu í "dómgreind", líklega er það ekki hægt, en ég skora á þig að gúggla og athuga hvort slík námskeið séu í boði.

Þú ert líklega núna, búinn að uppgötva sannleikann;  "peningar eru ekki allt" þegar virðingin er glötuð! Það er eiginlega kúrsinn;  Dómgreind 101.  Síðan koma næstu kúrsar jafn mikilvægir.

Ég er líklega persóna sem er í hásuðri við þig.  Var jafnvel "sökuð" um dómhörku á  áttunda áratug síðustu aldar, þegar ég skoppaðist út á  business markaðinn.  Þessi dómharka tengdist á þeim tíma, réttlætiskennd um jafnræði,  þegar ég þótti beita mér full harkarlega með hagsmunum viðskiptavinar en gegn  "viðskiptasjónarmiðum fyrirtækis"   Að sjálfsögðu tók ég þessari gagnrýni um dómhörku alvarlega, en ég gat ekki breytt mér. 

Nú er allt í einu norður orðið suður í "spillingaparameter" þjóðfélagsins, og þú hlýtur að skilja að fólk eins og ég, fögnum þeirri þróun tryllingslega.  En stóra spurningin er "getur þú breytt þér?" 

Það er undir þinni  meintri skertu dómgreind komið.

Á haustdögum kynnti ég mér fyrirbærið "peningaþvætti" og bloggaði (sjá hlekk) um í nokkrum köflum.

Niðurstaða minnar dómgreindar var; að 85-90% líkur væru á því að stórkostlegt "peningaþvætti" hefði verið stundað í íslensku bönkunum, ekki síst í banka ykkar feðga og viðskiptafélaga.

Ég veit, þú og þín fjölskylda ásamt viðskiptafélaga ykkar sem flúinn er til Rússlands aftur, hafna þessu algjörlega!

Mín dómharka, (sem ég get ekki breytt) fer fram á  að þú afhjúpir þetta mál fyrir fullt og fast.  Sama dómharka, krefst þess að þú verðir sóttur til saka, og réttbært dómsvald sem við öll hljótum að lúta, skeri úr um sekt eða sakleysi í einstökum málum.

Eftir þá niðurstöðu, eins og einn ágætur bloggvinur minn benti á í dag; væri ágætt að fá afsökunarbeiðni.  Maddoff gerði það í þessari röð, en þú kýst að gera það í öfugri röð.

Að lokum vil ég biðjast velvirðingar á því ef þetta bréf er sjálfhvert með fjölmörgum "égum", taldi samt nauðsynlegt að opna augu þín fyrir þeirri staðreynd, að til er fullt af fólki, sem er í hásuðri við þig í dómgreind; nefninlega "almenningur" sem enn býr við þá gæfu að hafa virðingu en engan auð, en þú líklega þvert á móti.

Afsökun er til alls fyrst, en áþreifanlegar aðgerðir virka betur, eins og staðan er nú!

Ítreka óskir mínar; vegni þér vel í langri og strangri göngu í að "walk the talk" í bréfi þínu til íslensku þjóðarinnar í dag. "

Jenný Stefanía Jensdóttir.

 Svo mörg og góð voru þau orð.

Þar til næst.

 

 

 


Margt er það sem gleður geð...

Það er reyndar ekki margt sem gleður gamla hjartað mitt þessa dagana nema þá helst kyrrsetning eigna þeirra fjármálamógúla, Jóns Ásgeirs og Hannesar Smára.

Þó fyrr hefði verið.

Það gerast reyndar fleiri góðir hlutir líka. Ég var rétt í þessu að koma af söngleiknum: Blúndubrók og Brilljantín, sem settur var á svið hér í Grundarfirði, sem í einu orði sagt var stórkostleg upplifun.

Að fylgjast með öllu þessu unga fólki sem eru að feta fyrstu fótsporin á sviði listarinnar var frábært. Mér skilst að flest þeirra séu á aldrinum 14 til 17 ára. Að baki þeirra standa þrír skólar hér á Snæf. þ.e. Grunnskóli Grundarfj. ásamt Tónlistarskóla sama bæjar og Framhaldsskóli Snæfellsness (sem reyndar er staðsettur hér í Grundó líka).

Tekin voru fyrir lög á árunum 1963 til dagsins í dag sem unga fólkið skilaði af snilld.

Það er ekki nauðsynlegt að hafa fleiri orð um þetta framtak unga fólksins en mikið vildi ég að ég vissi hvernig hægt væri að koma þessari sýningu á framfæri því hún á erindi til allra, ekki bara heimabúa.

Einhverjar glefsur hafa rambað á You tube en það er ekki nema forsmekkurinn.

Við sjáum til og þar til næst.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband