Losins kom eitthvað af viti.

Á þessum umhleypingatímum er einstaklega ánægjulegt að fá frétt sem þessa. Þó fyrr hefði verið.

Nýgræðingur eins og Birgitta Jónsdóttir stendur sig vel og vonandi heldur hún sínu striki.

Mér virðist eftir öllu að dæma að þarna sé komin manneskja sem hefur bein í nefinu og er óhrædd við að halda sínum skoðunum fram. Ólíkt gamla genginu.

Svo er reyndar önnur sem þorir að standa upp í hárinu á "gamla genginu" en það er Lilja Mósesdóttir.

Nú sverja bankastjórnendur af sér allar ætlanir um bónus til starfsmanna og einn þeirra tekur svo sterkt til orða að segja að ekkert slíkt hafi komið til umræðu.

Ekki það?

Hér er samt smá tilvitnun í frétt frá Landsbanka Íslands, sem vel að merkja fékk milljarða styrk frá okkur skattgreiðendum svo allt rúllaði ekki á hausinn.

"Að frumkvæði kröfuhafa var gert samkomulag á milli skilanefndar Landsbanka Íslands hf.  (gamla bankans), fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs og Landsbankans (NBI hf.) um að hluti hlutabréfa í NBI hf. sem skilanefndin heldur nú á, myndi stofn fyrir kaupaukakerfi sem næði til allra starfsmanna og kæmi til framkvæmda  á löngum tíma."

Og áfram með óþverrann.

"Hugsanlegt er því að kaupaukakerfi taki gildi eftir að þessi hluti eignasafns bankans hefur verið endurmetinn í árslok 2012 eins og gert er ráð fyrir í samningunum."

Hver skyldi annars vera munurinn á kaupaukakerfi og bónusgreiðslum?

En nú skulum við snúa okkur að öðru.

Bakkabræður skála nú í einum dýrasta klúbbi Lundúnaborgar og hrósa happi yfir áframhaldandi velgengni sinni, á kostnað okkar skattgreiðenda þ.e. þeirra okkar sem ekki hefur tekist að forða aurunum okkar í skattaskjól erlendis, gera grín að þessum vesalingum sem hérlendis hefðu átt að geta komið í veg fyrir þeirra gjörning og gefa okkur almúganum langt nef.

Ýmsar áleitnar hugsanir vakna hjá mér, t.d. fyrir hverja starfa tekjuhæstu menn landsins þ.e. starfsmenn skilanefnda bankanna?

Skyldu þeir telja allt fram og skyldu þeir verða við ósk ríkisskattstjóra um upplýsingar varðandi þá sem stungið hafa undan skatti?

Ég lærði strax í bernsku að skattasvik væru bara ein útgáfan af þjófnaði. Í dag með allan þann her af allskyns fræðingum (sem fæstir hafa nokkru sinni séð fisk nema þá í neytendaumbúðum) hafa óefað allskyns nýyrði skotið upp kollinum. Það má víst ekki særa neinn.

Ekki einu sinni í réttarsalnum.

En nú fer að styttast í hengingarólinni hjá ýmsum, svo fremi sem rannsóknarskýrslan margfrestaða og margumtalaða verður birt ófegruð.

Ég vil vera svo bjartsýnn að ætla svo að þar verði engu undan stungið. Næstu dagar leiða það í ljós.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Formenn halda samstöðufund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram vellur viðbjóðurinn yfir okkur.

 

"Tap BYRs-sparisjóðs vegna afskrifta á lánum til stærstu eigenda sinna nemur að minnsta kosti 13 milljörðum króna og er í fæstum tilvikum um persónulegar ábyrgðir að ræða."

Er þetta ekki alveg í anda hins Nýja og heiðarlega Íslands?

Í Vísi í gær eru taldir upp nokkrir fjármálafurstar okkar. Menn sem hafa látið gamminn geysa og aurana fjúka, eða svo hélt ég óbreyttur.

Annað kom á daginn.

Þessir höfðingjar skulda upp fyrir skítug eyrun. Samt skal þeim hyglað. Skyldu þeir þora að láta sjá sig á götum Reykjavíkurborgar eða, skyldu þeir allir vera flúnir af skerinu?

Ég er enn að velta fyrir mér hvernig í ósköpunum standi á því að ég fái ekki afskrifaðan helminginn af Íbúðasjóðsláninu sem yrði ekki nema ein og hálf milla. Sennilega hef ég ekki verið nógu stórtækur.

Svo er hér ein matarmikil.

"Glitni tókst að fegra stöðu sína tveim dögum eftir þjóðnýtingu bankans og fimm dögum fyrir bankahrun, með því að losa hlutabréf í FL Group upp á 14 milljarða króna til félagsins Styrks Invests gegn láni með veði í bréfunum sjálfum. "

Er þetta ekki pjúra ólöglegt eða gilda aðrar reglur um höfðingjana en okkur óbreytta? Spyr einn fávís strákur af Snæfellsnesinu.

Áfram með drulluna.

"Deutsche Bank lánaði Novator, félagi Björgólfs Thor Björgólfssonar, í kringum fjóra milljarða evra, jafnvirði tæpra sjö hundruð milljarða króna á núvirði, í yfirtöku Novator á Actavis fyrir tæpum þremur árum." Reuters segir Deutsche Bank hafa reynt eftir mætti að selja kröfuna á hendur Actavis síðla árs 2007. Það hafi ekki tekist. Nú sé í skoðun að breyta láninu á hendur fyrirtækinu í hlutafé. Óvíst sé hvort það komi niður á eignahlut félags Björgólfs Thors í Actavis."

Á sama tíma fjölgar þeim sem leita  þurfa þurfa sér aðstoðar hjá líknarstofnunum þó ei sé til annars en að geta fóðrað ungana sína.

Eftir nokkra klukkutíma hefst fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í sögu lýðveldisins og að sjálfsögðu mæti ég fyrstur manna. Sárt svíður mér þó að geta ekki ýtt ESB bullinu út af borðinu svona í leiðinni , en því miður. Fyrst þurfum við að framselja auðlindir okkar í hendur erlendra fjárglæframanna og þegar að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur þá verður of seint um rassinn gripið.

Undarleg er forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni.

Það er nóg komið af þessum neikvæðu, já og daglegu, fréttum að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Landinn er samur við sig.

Stöku sinnum rekst ég á frétt sem fangar athygli mína og hér er ein sem fjallar um fyrrverandi umdæmisstjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Mósambík,sem grunaður er um hafa dregið að sér tíu milljónir króna. Að nokkur maður skuli vera svo mikill bjálfi að láta húkka sig fyrir svona skitirí er ofvaxið mínum skilningi því eins og alþjóð veit þá hafa menn stolið hundruðum milljarða, jafnvel þúsundum milljarða, og komist upp með það. Á penu máli kallast afgreiðsla slíkra mála "afskriftir.

Nóg um það að sinni því af nógu öðru er að taka.

Svo er hér önnur "djúsí" frétt þar sem upplýst er um hina raunverulegu starfsemi íslensku bankanna.

"Grunur leikur á að dótturfélög íslensku bankanna í Lúxemborg hafi falið arðgreiðslur til að raunverulegir eigendur félaganna sem fengu arðinn kæmust hjá því að greiða skatt hér á landi."

Sosum ekkert nýnæmi.

Nú er aðeins hálft ár til stefnu svo takist að endurheimta þær eignir sem út(og inn)rásarvíkingar fluttu á nafn eiginkvenna sinna ( svo við óbreyttir getum haldið áfram að borga af fjármálafyllerís víxlinum þeirra). Vonandi sofa ráðamenn ekki á verðinum.

Ég rak líka augun í frétt sem snýst um Finn Ingólfsson fyrrverandi þetta og fyrrverandi hitt!

Garmurinn skuldar þrjá komma sjö milljarða króna í gegnum fjárfestingafélag sitt. Eftir því sem næst verður komist eru engar eignir til upp í skuldina.

Samkvæmt íslenskri hefð þá sleppur Finnur með afskriftir skulda sinna.

Hvað varð af siðferðinu?

Hvarf það með Dönum árið 1944?

Það er sosum af nógu að taka þegar ég les fréttirnar. Miklu meira en nóg. Það örlar ei á gagnsæinu og heiðarleikanum sem okkur óbreyttum var lofað. Ég get reyndar tekið undir orð kúlulánþegans Finns Sveinbjörnssonar þegar ákveðið var að hygla Baugs hyskinu: Saklaus uns sekt er sönnuð.

Orð að sönnu, en þetta litla orð "siðferði" virðist ekki fyrirfinnast í tungu alltof margra Íslendinga í dag. Í siðmenntuðum löndum er þumalputtareglan sú að hafi stjórnmálamaður verið orðaður við eitt eða annað misferli stígur hinn sami til hliðar á meðan rannsókn stendur yfir.

Sennilega yrði ansi fámennt á Alþingi ef þessi óskráða regla væri virt hérlendis.

Komandi laugardag fær þjóðin að láta í ljós skoðun sína á Icesave málinu. Persónulega vildi ég svo gjarna hafa þegið tækifæri til að láta í ljós andúð mína á ESB bullinu en það verður víst að bíða betri tíma.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Sagan endurtekur sig.

Enn á að hygla bankastarfsmönnum, en á hvaða forsendum?  Jú, reynsluríka menn má ekki missa.

Ef þessir reynsluríku menn eru ekki sáttir við þau margföldu verkamannalaun sem þeir hafa, þá mega þeir bara pilla sig, þ.e. ef nokkur heilvita  maður og allra síst erlendur myndi láta sér detta í hug að ráða þetta fólk til starfa.

Hjáróma rödd fjármálaráðherra þegar hann blaðrar um heiðarleika, gagnsæi og, jú reyndar, að hverju sandkorni skuli velt við til að uppræta spillinguna ,minnir helst á vein hálfdauðrar hýenunnar í eyðimörkinni. Áðurnefndur ráðherra gerir sér augljóslega grein fyrir því að það eina sem heldur vinstri stjórninni gangandi er ótti fólks við að fá "hrunverjana" aftur yfir sig. Augljóslega starfar hann samkvæmt því.

Annars hafa undanfarnir dagar verið ósköp tilbreytingarlausir. Smá spilling hér, ögn meiri spilling þar, sem sagt, ofur íslenskt vetrarveðráttuástand.

Jói garmurinn í Bónus grætur krókódílstárum og ber sig illa undan viðbrögðum landans í sinn garð og sonarómyndarinnar-eftir allt það góða sem þeir feðgar hafi gert í þágu almúgans. Ekki fer sögum af viðbrögðum þeirra birgja sem hann hefur valtað yfir árum saman né heldur hvernig hann fjármagnaði kaupin á Floridahöllinni, þið vitið, 620 ferm. krílið á 150 millurnar,á sínum tíma, eða skrípaleiknum í kringum nafna millifærslurnar á því apparati.

Syndalisti þeirra feðga er lengri en tárum taki.

Svo grætur Jói garmurinn og ber sig illa yfir vonsku mannskepnunnar.

Megi hann grenja sem hæst og sem lengst.

Þessum mönnum ætlar kúlulánþeginn Finnur Sveinbjörnsson að hygla á grunni þeirrar miklu reynslu sem þeir hafi af rekstri fyrirtækja.

Það er eins gott að vera með sterkan maga.

Ég rak augun í frétt sem fjallar um smá  innherjasvik. Skitnar fimmtíu millur sem í reynd hljóta að koma hverjum einasta heiðvirðum þjófi til að roðna af skömm yfir þegar allir aðrir stela fyrir fimmtíu sinnum fimmtíu milljónir.

Á meðan smáfiskurinn berst um í þéttriðnu neti réttvísinnar sleppa mannætuhákarlarnir.

Og nú glyttir í úfinn í tannlausum kjafti breska ljónsins, þeir vilja semja. Hvað skyldi nú hanga á spýtunni?

Klausan sem ég las í Vísi segir allt sem segja þarf.

"Það sem Bretar og aðrar þjóðir óttast er það fordæmi sem þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave kann að setja. Það að almenningur fái að kjósa um skuldbindingar af þessu tagi getur haft víðtækar afleiðingar og orðið til þess að aðrar skuldugar þjóðir fylgi í fótspor Íslendinga. "

Ég vona að sem flestir gangi að kjörborðinu með þessi orð í huga og þar til næst

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Starfsmenn NBI eygja vænan kaupauka 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunhugsanir og margar ansi neikvæðar.

Þetta er eitt það jákvæðasta sem fram hefur komið frá stjórnarliða. "Að fara fram á lengingu fyrningar á fjármálagjörningum í líkingu við þá sem margir eignamenn gripu til í kringum hrunið. Það þýðir að stjórnvöld hafa lengri tíma til ógilda þá." En það er misjafn sauður í mörgu fé og þó Helgi Hjörvar hyggist koma með þetta frábæra frumvarp þá er allsendis óvíst að það komist í gegn. Því miður.

Hér er ansi góð klausa, svo ég stelist í Vísi einu sinni enn.

"Fjölmargir eignamenn færðu húseignir sínar, bíla og aðrar eignir yfir á eiginkonur sínar og aðra fjölskyldumeðlimi eftir bankahrunið. Með því reyndu þeir að tryggja að lánadrottnar gætu ekki gengið að eigum þeirra."

Það er kominn tíminn á að þessir "eignamenn"sem margir hverjir sporta í dag og lifa í allsnægtum fái að kynnast hungurssvipunni.

Í stað tveggja ára fyrningarfrests kemur Helgi Hjörvar með þá tillögu að slíkur frestur verði lengdur um helming, þ.e. fjögur ár. Nú reynir á samstöðuna innan stjórnarliða sem vonandi druslast til að standa saman, þó svo væri bara í þetta eina skipti.

Ég rak augun í smá grein um "útrásarvíkinginn" Magnús Þorsteinsson, þið vitið, þennan sem stakk af til Rússlands og hélt sig vera sloppinn frá gjaldföllnum skuldum hérlendis eins og ógreiddum sköttum, stöðumælasektum, Morgunblaðsáskriftinni og náttúrlega þessari fáránlegu Rúv. áskrift sem ég myndi líka stinga af frá ef ég ætti fyrir farseðli þó ekki væri lengra en til Færeyja.

En Maggi kallinn Þorsteins virðist vera í slæmum málum því nú er garmurinn rukkaður um tæpar átta hundruð milljónir í skatt.

Hugsið ykkur. Það er allsendis óvíst að drengurinn eigi krónu upp í þessa skuld, hann var lýstur gjaldþrota hér á landi og óvíst að hann eigi nokkrar eignir í Rússlandi sem hægt yrði að ganga að, sem leiðir hugann að því hvuddnin í fj....... hann fer að því að draga lífið fram þar fyrir austan. Þó Rússar hafi alltaf talist gestrisin þjóð þá láta þeir ekki valta yfir sig.

Jamm, þær eru margar hugsanirnar sem leita á mig nú árla morguns og sosum ekki allar jákvæðar. Það þarf eitthvað mikið að gerast áður en ég fer að treysta og trúa á það lið sem ku ætla að leiða okkur úr þeim ógöngum sem fámennur hópur manna leiddi okkur í.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


Nú skín í tannlausan góm breska ljónsins....

....svo ekki sé minnst á "Flatlendinga."

Það má með sanni segja að skjótt skipast veður í lofti. Nú, allt í einu, grassera samstarfsviljinn og samningalipurðin fjöllum ofar. Undarlegur viðsnúningur og þá sérstaklega í ljósi þess að á sínum tíma vorum vér Íslendingar settir undir sama hatt og hryðjuverkamenn. Ég hef velt þessari stefnubreytingu fyrir mér en satt best að segja þá eru þessi umskipti ofvaxin mínum skilningi.

Nema kannski væntanlegar kosningar þ. 6.mars kunni að hafa áhrif.

Þó ég hafi sjaldnast eða aldrei verið sammála Dabba kallinum Oddssyni þá get ég ekki annað en tekið undir orð hans er hann sagði: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna.!!!

Þá varð allt vitlaust.

Nú vilja Bretar finna "uppbyggilega lausn" á Icesave deilunni. Ég hef mína lausn, góða lausn, á þeim málum. Í stað þess að leggja skuldaklafann á þreyttar herðar hins íslenska skattborgara legg ég til að gengið verði að fyrrverandi eigendum Landsbankans og þeir látnir borga brúsann. Það virðast samt vera ljón í veginum. Ekki bara sinnuleysi og sofandaháttur stjórnvalda heldur líka sú rótgróna spilling sem hér hefur tröllriðið húsum allt of lengi og verður ekki rifin upp með rótum frekar en njólinn í garðinum hjá mér.

Á sama tíma og íslenskur almúginn er að missa allt er kúlulánþeginn Finnur Sveinbjörnsson, í styrkleika embættis síns, að hygla mönnum sem hafa réttarstöðu grunaðra á kostnað okkar, á þeim forsendum að ekki megi ganga fram hjá reynslu þeirra í rekstri fyrirtækja. Teldist Ísland til siðmenntaðra landa væri búið að: a) reka Finn b) draga hann fyrir dóm, og c) best að þegja núna.

Spillingin og viðbjóðurinn grasserar áfram, aldrei sem fyrr, og nú er Bjöggi yngri að fjárfesta á Suðurnesjum. Hvar ætli honum hafi tekist að ljúga út lán?

Það sem mér blöskrar þó mest eru tilsvör ráðamanna þegar innt er eftir hinu og þessu varðandi  áframhaldandi fjármálabrölt "útrásarvíkinganna" en slíkt vesaldarbull er ekki hafandi eftir.

Sagan hermir oss að meginástæða landflótta "víkinganna" frá Noregi á sínum tíma hafi verið eðlislæg andúð þeirra á að borga skatta og það til kóngs sem ekki var "þeirra maður." Snemma beygðist krókurinn. Enn leifir þó af fornum siðum. Í dag hafa "útrásarvíkingarnir" flestir flúið land og sitja í skattaskjólum erlendis og gefa okkur langt nef á meðan við undirmálsfólkið fáum reikninginn fyrir Baugspartíi í Monaco og gullát.

Í onálag á að fresta birtingu rannsóknarnefndar Alþingis, einu sinni enn. Það kemur að því að upp úr sýður og þá verður "búsáhaldabyltingin" ,til samanburðar ,eins og vögguvísa. Það raunhæfa er að birta fj...... skýrsluna strax og leyfa svo andmælendum að koma sínu á framfæri þegar þeir telja sig tilbúna.

Ég vona að ég eigi ekki eftir að sjá grátkór rannsóknarnefndar koma einu sinni enn fram í fjölmiðlum og barma sér, á sama tíma og þjóðin sannfærist enn frekar að nú sé verið að draga okkur á asnaeyrunum rétt einu sinni enn.

Ég reyni að vera bjartsýnn, þó það sé stundum erfitt, en ég vil fara að sjá aðgerðir sem mark er takandi á og með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Vilja finna uppbyggilega lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vér göngum svo létt öll í lundu.....

....enda ekki annað hægt í dag,á tímum gagnsæis og heiðarleika. Allt skal jú upp á yfirborðið en bíðum nú við. Hvað skyldi nú liggja á borðinu?

O jú, þar er af ýmsu að taka, rétt eins og fyrri daginn.

Þá er mér efst í huga frétt sem ég las á Vísi í dag og fjallar um Bakka(varar)bræður. Sjálfsbjargarviðleitnin lætur ekki að sér hæða.

"Bakkabræður, þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, færðu einbýlishús sín, íbúðir og sumarbústaði í sérstök einkahlutafélög rétt eftir bankahrunið. Með þessu móti geta hugsanlegir kröfuhafar þeirra ekki gengið að þessum eignum."

Áfram með djókið, því þetta hlýtur að vera brandari og það fj.... fúll.

"Þrátt fyrir að hafa fært íbúðir sínar og einbýlishús í einkahlutafélög eru bræðurnir þó enn skráðir eigendur sumarhallarinnar við Lambalæk í Fljótshlíð í Rangárþingi eystra. Um er að ræða tæplega 600 fermetra orlofssetur sem bræðurnir eiga saman til helminga."

Nú er tímabært að frysta eignir Bakkabræðra og hvað varðar fyrningu gjörða þeirra hvað varðar flutning fasteigna þá er enn tími, til 22.10. þetta ár.

Nú spyr ég fávís sveitapilturinn, hvernig geta menn, með allt niðrum sig komist upp með slíkt athæfi og hver kemur til með að borga brúsann þegar upp er staðið?

Það læðist að mér ljótur grunur.

En það er fleira sem mallar í pottunum og hér er smá frétt sem snertir Pálma Haraldsson, sem oftast er kenndur við Fons, en það sem færri vita er að hann varð skyndilega framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna. Hann sneri við rekstri félagsins en það var dæmt fyrir samsæri gegn neytendum nokkrum árum síðar.

"Rúmlega fjögurra milljarða króna arðgreiðsla sem Pálmi Haraldsson greiddi sér útúr fjárfestingarfélaginu Fons vegna góðs hagnaðar rekstrarárið 2006 var fengin að láni hjá Landsbankanum."

Getur verið að þetta sé löglegt?

Fons er nú gjaldþrota með kröfur upp á rúmlega fjörutíu milljarða!

Og svona rétt í lokin, þ.e. rjóminn oná eplapæið þá er hér sérstaklega áhugaverð klausa.

"Rannsóknarnefnd Alþingis telur að fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi sýnt alvarlega vanrækslu eða gert mistök í starfi."

Þetta er nú bara það sem alþjóð hefur vitað í langan tíma. Gleðilegt til þess að vita að rannsóknarnefndin hafi loksins uppgötvað þetta.

Ég vona að þið öll sem lesið hafa þetta aurkast komið til með að sofa vel, og þar til næst.

 

 

 

 

 

 


Afskriftir og áframhaldandi spilling.

Enn og aftur flæðir óþverrinn yfir okkur.

Ég var að fylgjast með háttvirtum Finni Sveinbjörnssyni í Kastljósinu áðan. Dapurlegt að sjá garminn gera sig að fífli. Spyrjandinn var grjóthörð og ákveðin en drengstaulinn fór undan í flæmingi þegar tekið var á málum eins og afskriftum Haga og svo stöðu Samskipa Ólafs sem reyndar er með réttarstöðu grunaðs manns.

Hvað skyldi annars hafa orðið af "gagnsæinu og heiðarleikanum" sem núverandi stjórnvöld hafa keppst við að telja okkur sauðsvörtum almúganum trú um að hér ætti að ríkja?

Nú er hinsvegar talað um afskriftir upp á tugmilljónir milljarða og í framhaldi af því á svo að hampa kvikindunum því ekki megi horfa fram hjá dugnaði og reynslu þeirra aðila sem byggt hafi upp fyrirtækin.

Reynslu í hverju?

Fjármálafylleríi, gulláti, yfirþyrmandi siðblindu og athyglissýki?

Á sama tíma og verið er að hygla þeim mönnum sem komu þjóðfélaginu á hausinn fjölgar þeim sem þurfa að leita til hjálparstofnana til þess eins að fara ekki soltnir til rekkju.

Finnst ykkur góðu lesendur ekkert athugavert við svona háttalag?

Og enn að áframhaldandi afskriftum.

Ég leyfi mér að vitna í Vísi, í dag, þar sem segir:"Gæti þurft að afskrifa 400 milljónir hjá nýráðnum starfsmanni."

Og áfram með viðbjóðinn.

"Árni Pétur Jónsson, sem var forstjóri Teymis og Ólafur Þór fengu 400 milljónir króna hvor að láni hjá Íslandsbanka í gegnum eignarhaldsfélög sín, TT1 og TT2, til að kaupa hlutabréf í Teymi, alls 70 milljónir hluta að nafnvirði í ágúst 2007. Þessi lán voru veitt án persónulegrar ábyrgðar og Teymi þurfti að taka yfir skuldir þessara félaga þegar fyrirtækið var afskráð úr Kauphöllinni í október 2008."

Hér kemur svo einstaklega athyglisverð klausa.

"Fjöldi atvinnulausra viðskipta- og hagfræðinga hleypur á hundruðum en mikið af hæfu fólki þræðir göturnar án atvinnu í dag eftir bankahrunið."

Ég er þess fullviss að þessir atvinnulausu og hæfu fræðingar hafa aldrei fengið tugmilljóna lán, hvað þá afskriftir.

Þeim stundum fer fjölgandi þar sem ég skammast mín fyrir þjóðerni mitt og þá sérstaklega þegar erlendir vinir senda mér tölvupóst og spyrja spurninga sem ég get ekki svarað. Og gera góðlátlegt grín að okkur.

Nóg er að sinni, ég vona að þrátt fyrir alla spillinguna sem hér grasserar enn náum við að rétta úr kútnum.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hvað er eiginlega að gerast ?

Nú lifa erlendir afbrotamenn í vellystingum í íslenskum fangelsum ( lesist ***hótelum) vegna mistaka í málsmeðferð.

Ég hélt að íslenskir lögfræðingar kynnu nú betur til verka.

Nú, á tímum aðhalds og sparnaðar berast oss þær fréttir að fjölga skuli í utanríkisþjónustunni um ca. tuttugu manns. Eitthvað hef ég misskilið. Ég hélt að allir ættu að spara, ekki bara vér skattgreiðendur þ.e. öryrkjar, aldraðir og verkafólk.

Nóg um það, að svo stöddu

En áfram dunar dansinn.

Nú brigsla Hollendingar okkur um óheiðarleika.  Okkur sem eru þeir fallegustu, gáfuðustu, stórustu og með fjármálavitið á hreinu,já, þeir væna okkur um lygi. Til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi óþverra af þessari sort legg ég til að við sendum þeim fyrrverandi yfirmann fjármálaeftirlitsins, þið vitið, hann Jónas pjakkinn Fr. ( farseðil aðra leiðina). Hann ætti að geta sýnt þeim fram á sakleysi okkar Íslendinga því ef ég man rétt þá var hann sjálfur blásaklaus af öllum þeim gjörningum sem hér áttu sér stað í undanfara hrunsins.

Nú bíðum vér í ofvæni eftir niðurstöðum samræðna þeirra því þó Jónas sé klár í kjaftinum þá eiga Hollendingar kjaftaska líka svo það er spurning hvor verður fyrri til að kjafta(eða drekka) mótaðilann undir borðið.

Ég kveð ykkur að sinni með þá von að senn fari að rætast úr fyrir okkur og þar til næst.

 

 

 


Maybe I should have ---- known.

Hér áður fyrr gátu menn, og þá sér í lagi katólikkar, keypt sér syndaaflausn, sem reyndar ku hafa kostað sitt. Athugulir menn  hafa hins vegar bent á að þetta hafi ekkert haft með trúarbrögð að gera heldur vasa prestanna samanber:  "Seint fyllist sálin prestanna."

Enn þann dag í dag virðist eima af gömlum siðum.

Nú veit ég ekki hverrar trúar Ásbjörn Óttarsson er, hallast helst að því að hann tigni Mammon.

Þær réttlætingar, útskýringar og röksemdir sem við fáum að heyra þegar fólk sem greinilega treystir á gullfiskaminni landans er tekið á teppið, ryður upp úr sér, eru efniviður í heila bók sem að öllum líkindum yrði valin brandarabók ársins. Þar er svo sannarlega af nógu að taka.

Ég las mjög svo góða færslu sem Jónas Kristjánsson skrifaði undir fyrirsögninni: Sá ruglaði, sá siðblindi og sá lati. Það vantar bara þann fáfróða, þann heimska og þann gleymna.

Ekki er staðan góð hjá íhaldinu þegar dæmdir sakamenn, fáfróðir útgerðarmenn og náttúrlega kúlulánþegar tröllríða framboðslistum þeirra.

En aftur að bókhaldskunnáttuleysi háttvirts þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ásbjörn ber því við að honum hafi ekki verið kunnugt um að ólöglegt væri að greiða sér arð úr fyrirtæki sem var rekið með bullandi tapi.

Skyldi hann hafa fengið yfirdráttarheimild fyrir arðgreiðslunni?

Maður sem rekið hefur útgerð á fjórða áratug ætti að vita betur.

Nú er aðeins eitt lítið atriði sem vefst fyrir mér.

Maður sem kemur fram í sjónvarpi og viðurkennir lögbrot hlýtur að verða látinn svara til saka, þetta er jú hið nýja óspillta Ísland "þar sem allt skal upp á yfirborðið og hverju sandkorni velt við til að uppræta spillinguna."

Er hann kannski að reyna að kaupa sér syndaaflausn?

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Greiddi ólöglegan arð fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband