Tveggja ára afmæli!!

Í dag eru tvö ár frá því ég hóf upp raust mína og fór að rífa kjaft hér í Bloggheimum, nokkrum til ánægju en flestum til leiðinda og ama.

Hmmm, það skyldi þó ekki vera að hér eigi gamli góði málshátturinn "Sárt bítur sekan" vel við?

Hvað sem því líður þá vil ég að það komi skýrt fram að ég ku vera einstaklega dagfarsprúður og góður drengur. Í það minnsta að eigin mati og móður minnar. Margt hefur drifið á dagana á þessu tímabili, sumt jákvætt (?) en margt neikvætt. Litli bró var forspár og pillaði sig ásamt fjölskyldu af skerinu vel fyrir hrun og hefur nú skotið rótum í Danaveldi. Hinsvegar hími ég hér enn og líður stundum eins og strandaglóp, fæ þá helst útrás með því að níðast á samlöndum mínum hér á netinu og þá ekki bara pólitíkusum.

Í tilefni dagsins ætla ég að vera jákvæður og minnast á ágæta grein sem Pressupenninn Sölvi Tryggvason skrifar í dag undir fyrirsögninni "Kjarnorkusprengjan." Þema greinarinnar er að mínu mati "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér." Þessu er ég fyllilega sammála og vona heilshugar að þessi skrif rati inn á borð stjórnarandstöðunnar í þeirri von að augu leiðtoga "Framsóknaríhaldsins" opnist og þeir rifji upp aðdraganda bankahrunsins áður en gammurinn er látinn geisa áfram.

Mér blöskrar stundum minnisleysi unga fólksins, bendi í framhaldi af því á lestur "Skýrslunnar" sem óefað getur hresst upp á gloppótt minni drengstaulanna.

Enn og aftur óska ég öllum góðs sumars með von um betri tíð og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


"Æm só sorrí"

Þessa dagana dynja á okkur afsökunarbeiðnir frá hinum og þessum aðilum t.d. "útrásarvíkingum" sem iðrast synda sinna og lofa öllu fögru eins og að gera upp sínar skuldir þó svo hvergi sé minnst á að borga þær.

Þingmenn fara hamförum líka og nú kemur Steinunn Valdís Óskarsdóttir fram á sjónarsviðið og segir að hugsanlegt sé að allir þingmenn fram að hruni 2008 yfirgefi sviðið. Hún virðist hinsvegar ekki ætla að segja af sér nema allir aðrir geri það líka.

Noregsfarinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer mikinn þessa dagana, eins og svo oft áður, biður fyrir hönd flokksins margfalt afsökunar en klykkir svo út með því að segja að Framsóknarflokkurinn hafi fyrstur flokka viðurkennt mistök, hann hafi fyrstur flokka ráðist í endurnýjun og endurskoðun innávið en ný flokksforysta var kosin á flokksþingi fyrir fimmtán mánuðum.

Nú já. Hann þegir þunnu hljóði um Noregsferðina frægu sem hann, eftir að hafa látið gamminn geysa um skuldasöfnun Íslands, fór í ,ásamt flokksbróður sínum Höskuldi Þórhallssyni (sem reyndar fer lítið fyrir þessa dagana) í þeim tilgangi að slá lán upp á litla 2000 milljarða. Sú ferð var ekki farin til fjár.

Ég hallast helst að því að drengstaulinn treysti ekki á gullfiskaminni landans heldur sitt eigið.

Það sem mér hefur fundist einkenna málflutning þeirra félaga, hans og Engeyjarguttans Bjarna Ben. er þetta gegndarlausa ofstæki gagnvart núverandi ríkisstjórn þar sem allt er tínt til og krafist kosninga í haust en, hvergi hafa komið fram hugmyndir um hvað mætti betur fara og hvernig ætti að fara að því.

Það er reyndar fleira sem vekur eftirtekt mína þessa dagana og má þar nefna auglýsingu frá fyrirtæki sem nefnist "alterna" og býður okkur litla fólkinu "miklu lægra mínútuverð." Einkennilegt að mínútuverðið skuli ekki vera tilgreint á fyrstu síðu - og - hverjir standa á bak við það?

Nóg komið að sinni, ég óska öllum gleðilegs sumars með von um betri tíð.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Dómgreindarvísitala Björgólfs Thors/ Andmælabréf við afsökunarbeiðni.

 Þann 15. sl. barst mér eftirfarandi bréf frá bloggvini í Kanada - Jennýju Stefaníu Jensdóttur - með ósk um að koma því á framfæri. Ég verð að viðurkenna vanmátt minn í þeim efnum svo ég ákvað að setja það inn á síðuna mína í þeirri von að einhver framtakssamur geti þá komið því áfram. Titillinn á blogginu mínu þetta skiptið er fyrirsögn bréfsins.

"Björgólfur Thor,

Ég ætla að nýta mér andmælarétt, við afsökunarbréfi þínu, sem lesið var af þúsundum Íslendinga og viðbrögðin létu ekki á sér standa, enda bjóstu varla við öðru?

Ég efast ekki um; að greindarvísitala þín sé há, en ég leyfi mér að fullyrða að dómgreindarvísitala þín sé hættulega lág.

Ég hefði að öllu jöfnu;  kært mig kollótta um hvort tveggja, (enda elti ég ekki ólar við fólk eftir vísitölum) því ég laðast frekar að fólki með "genuine" persónutöfra. 

Nú þegar  ljóst er að  dómgreindarskortur þinn og þinna líka, hefur orsakað hrun heils efnahagskerfis, ómælda sorg og örvæntingu fjölmargra landa okkar og ástvina, er mér ekki sama.  Auk þess, eftir lestur RNA, gegndir þú augljósri stöðu "skuggastjórnanda" sem í krafti ólöglegar stöðu, rakaðir fé undir eiginn handarkrika sem er refsivert athæfi.

Niðurstaða mín eftir skönnun á netheimum í dag um viðbrögð við afsökun þinni er; almenningur er ekki stemmdur fyrir svona afsökun.  Fyrstu viðbrögð mín voru; Björgólfur hefur horft á Tiger segja; I am sorry, I am so sorry ...... og bréf þitt var með jafnmörgum sorry á okkar ástkæra ylhýra.  Var samt feginn að þú endaðir ekki bréfið á :  Ég mun nú fara á meðferðarstofnun í "græðgisfíkn", því eins og ég og þú og Tiger vitum, engin slík "stofnun" er til.

Veit ekki hvort þú fylgist með golfi, það geri ég af miklum áhuga.  Ég kættist ógurlega yfir sigri hins spékoppadjúpa Phil Mickelsen, og felldi tár, þegar ég upplifði tilfinningaþrungna sigurstund hans, með sárveikri eiginkonu og móður og litlu stelpunum hans.  Ég skammast mín ekkert fyrir að tárast yfir heitum tilfinningum, því veistu Björgólfur, þetta er það sem lífið snýst um; fjölskylda, ástvinir og hamingja þeirra.

Veit ekki hvort hægt er að taka háskólagráðu í "dómgreind", líklega er það ekki hægt, en ég skora á þig að gúggla og athuga hvort slík námskeið séu í boði.

Þú ert líklega núna, búinn að uppgötva sannleikann;  "peningar eru ekki allt" þegar virðingin er glötuð! Það er eiginlega kúrsinn;  Dómgreind 101.  Síðan koma næstu kúrsar jafn mikilvægir.

Ég er líklega persóna sem er í hásuðri við þig.  Var jafnvel "sökuð" um dómhörku á  áttunda áratug síðustu aldar, þegar ég skoppaðist út á  business markaðinn.  Þessi dómharka tengdist á þeim tíma, réttlætiskennd um jafnræði,  þegar ég þótti beita mér full harkarlega með hagsmunum viðskiptavinar en gegn  "viðskiptasjónarmiðum fyrirtækis"   Að sjálfsögðu tók ég þessari gagnrýni um dómhörku alvarlega, en ég gat ekki breytt mér. 

Nú er allt í einu norður orðið suður í "spillingaparameter" þjóðfélagsins, og þú hlýtur að skilja að fólk eins og ég, fögnum þeirri þróun tryllingslega.  En stóra spurningin er "getur þú breytt þér?" 

Það er undir þinni  meintri skertu dómgreind komið.

Á haustdögum kynnti ég mér fyrirbærið "peningaþvætti" og bloggaði (sjá hlekk) um í nokkrum köflum.

Niðurstaða minnar dómgreindar var; að 85-90% líkur væru á því að stórkostlegt "peningaþvætti" hefði verið stundað í íslensku bönkunum, ekki síst í banka ykkar feðga og viðskiptafélaga.

Ég veit, þú og þín fjölskylda ásamt viðskiptafélaga ykkar sem flúinn er til Rússlands aftur, hafna þessu algjörlega!

Mín dómharka, (sem ég get ekki breytt) fer fram á  að þú afhjúpir þetta mál fyrir fullt og fast.  Sama dómharka, krefst þess að þú verðir sóttur til saka, og réttbært dómsvald sem við öll hljótum að lúta, skeri úr um sekt eða sakleysi í einstökum málum.

Eftir þá niðurstöðu, eins og einn ágætur bloggvinur minn benti á í dag; væri ágætt að fá afsökunarbeiðni.  Maddoff gerði það í þessari röð, en þú kýst að gera það í öfugri röð.

Að lokum vil ég biðjast velvirðingar á því ef þetta bréf er sjálfhvert með fjölmörgum "égum", taldi samt nauðsynlegt að opna augu þín fyrir þeirri staðreynd, að til er fullt af fólki, sem er í hásuðri við þig í dómgreind; nefninlega "almenningur" sem enn býr við þá gæfu að hafa virðingu en engan auð, en þú líklega þvert á móti.

Afsökun er til alls fyrst, en áþreifanlegar aðgerðir virka betur, eins og staðan er nú!

Ítreka óskir mínar; vegni þér vel í langri og strangri göngu í að "walk the talk" í bréfi þínu til íslensku þjóðarinnar í dag. "

Jenný Stefanía Jensdóttir.

 Svo mörg og góð voru þau orð.

Þar til næst.

 

 

 


Margt er það sem gleður geð...

Það er reyndar ekki margt sem gleður gamla hjartað mitt þessa dagana nema þá helst kyrrsetning eigna þeirra fjármálamógúla, Jóns Ásgeirs og Hannesar Smára.

Þó fyrr hefði verið.

Það gerast reyndar fleiri góðir hlutir líka. Ég var rétt í þessu að koma af söngleiknum: Blúndubrók og Brilljantín, sem settur var á svið hér í Grundarfirði, sem í einu orði sagt var stórkostleg upplifun.

Að fylgjast með öllu þessu unga fólki sem eru að feta fyrstu fótsporin á sviði listarinnar var frábært. Mér skilst að flest þeirra séu á aldrinum 14 til 17 ára. Að baki þeirra standa þrír skólar hér á Snæf. þ.e. Grunnskóli Grundarfj. ásamt Tónlistarskóla sama bæjar og Framhaldsskóli Snæfellsness (sem reyndar er staðsettur hér í Grundó líka).

Tekin voru fyrir lög á árunum 1963 til dagsins í dag sem unga fólkið skilaði af snilld.

Það er ekki nauðsynlegt að hafa fleiri orð um þetta framtak unga fólksins en mikið vildi ég að ég vissi hvernig hægt væri að koma þessari sýningu á framfæri því hún á erindi til allra, ekki bara heimabúa.

Einhverjar glefsur hafa rambað á You tube en það er ekki nema forsmekkurinn.

Við sjáum til og þar til næst.

 

 

 

 


"Ég á þetta - ég má þetta."

Þessi fleygu orð, sem samkvæmt Ragnhildi Geirsdóttur fyrrverandi forstjóra FL-Group lýsa viðhorfi Hannesar Smárasonar þáverandi stjórnarformanns FL - Group, til fyrirtækisins, eiga örugglega eftir að festa sig í sessi sögunnar.

Hannes hefur komið víða við. Meðal annarra afreka má nefna fjárfestingu í AMR, eignarhaldsfélagi bandaríska flugfélagsins American Airlines sem reyndar hafði í för með sér 15 milljarða tap.

Var það ekki einmitt þá sem íslenskir fúskarar ætluðu að kenna uphafsmönnum flugsins að reka flugfélag?

Launakostnaður FL-Group nam 701 milljón króna á árinu 2007, sem deildist á 40 starfsmenn.

Laun Hannesar voru þetta ár 139,5 milljónir króna ásamt starfslokasamningi up á litlar 90 milljónir.

Dágóð verkamannalaun það.

Þann 1.11.2008 sagði áðurnefndur Hannes að varpa þyrfti betra ljósi á ýmsa hluti sem urðu í aðdraganda bankahrunsins. Hann sagði margt annað sem ég nenni ekki að tíunda hér, en hann nefndi ekki ofurlaunin.

Um Fl-Group sagði hann að hann sæi eftir ýmsum ákvörðunum sem þar voru teknar.

Þessi maður hélt sig vera fjármálasnilling.

Ég horfði á Kastljós áðan og meðal annars viðtalið við Ragnhildi Geirsdóttur sem, eftir á að hyggja, er best að hafa sem fæst orð um.

Daman fékk 130 millur í starfslok - eftir 5 mánaða starf sem forstjóri FL-Group - og talar um launakjör og uppsagnarfrest.

Það kemur að skuldadögunum hjá henni rétt eins og hjá okkur öllum.

Hér slæ ég botninn í þetta áður en ég kemst í vont skap yfir allri spillingunni sem blasir við okkur allsstaðar.

Áfram Nýja óspillta Ísland og þar til næst.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Staðfestir millifærslu frá FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera Bretar nú?

Hryðjuverkalög?

Búnir að nota þau.

Viðskiptabann?

Kannski en það kæmi þeim sjálfum í koll því hvað gott kemur frá Bretlandi?

Allavega ekki bílarnir sem lengi hafa verið með hæstu bilanatíðni heims í það minnsta þar til Toyota bömmerinn skall á.

Það væri þá helst að þeir tækju sig til og endursendu "útrásarvíkingana" sem flutt hafa lögheimili sín í hrönnum yfir pollinn ( rottur sem flýja sökkvandi skip?) í þeirri trú að þeir slyppu þá undan hinum langa armi laganna en slíkt er "stórur" misskilningur, sennilega sá "stórasti".

Eðlilega yrði að senda slíkan farm sjóleiðis sem gæti haft varanleg áhrif á heilsu fólks sem aldrei hefur migið í saltan sjó nema þá yfir borðstokkinn á einhverri snekkjunni sem lagt hefur verið í lygnum polli.

Að vísu er eitt dæmið sem vefst fyrir mér.

Hvað skyldi Tjallinn gefa okkur mörg atkvæði í Júróvisjón?

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Flugumferð bönnuð um Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn bláeygur sakleysinginn enn.

Eftir að hafa horft á Kastljósið þar sem Valgerður Sverrisd. fór á kostum í öllum sínum útskýringum er ég kominn á þá skoðun að landinu hafi verið stjórnað af gjörsamlega vanhæfu fólki, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið.

Nú má ekki skilja svo að ég ætlist til að háttvirt fyrrverandi, já og núverandi stjórnarlið skarti háskólagráðu en smá skynsemi gæti komið sér vel.

Ég uppgötvaði nýja hlið á samlöndum mínum eftir að hafa legið yfir "Skýrslunni". Tæplega 150 manns sem teknir voru á teppið af rannsóknarnefnd Alþingis voru í því að firra sig ábyrgð og benda á hvern annan. Ekki nóg með það, dagblöðin virðast hafa tekið upp svipaðan stíl ef horft er á útfærslur þeirra á því sem fram er komið, en þar er túlkunin greinilega í anda eigendanna.

Ég sem alltaf hef óskað þess að við gætum nú verið eins og dýrin í skóginum en við höfum greinilega ekki öðlast þann þroska enn.

Nú blasir reyndar við okkur stórt vandamál. Mjög svo stórt.

Eins og alþjóð veit þá eru húsnæðismál hins opinbera í megnum ólestri. Þar á ég að sjálfsögðu við fangelsismálin því þegar hvítflibbakrimmarnir verða tíndir upp, einn af öðrum, þá er úr vöndu að ráða.

Ég tel mig hafa ágætis lausn á því máli. Hef reyndar viðrað þá hugmynd hér áður.

Einfaldlega að skella mannskapnum í byggingarvinnu sem myndi gera öllum gott, þið vitið, útivistin og hreyfingin er öllum holl, velsældarspikið myndi hverfa og svo vita jú allir sem reynt hafa á eigin skinni hversu afkastahvetjandi það er þegar fólk er að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Svo ég slái nú botninn í þetta með einhverju jákvæðu því það gerist líka þá var ég að setja inn nýjar myndir af erfingjanum (þó svo þeir sem til þekkja viti mætavel að það verður fjandakornið ekkert að erfa þegar þar að kemur-en það er önnur saga).

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Baulaðu nú Búkolla mín.

Vilhjálmur er maður sem segir sína meiningu og þorir að standa við hana. Við þyrftum að eiga marga fleiri eins og hann.

Það sem Pálmi garmurinn hefur sér helst til dægrastyttingar þessa dagana er að kæra blaðamenn sem hafa lagt sig fram við að moka ofan af óþverranum sem þessi maður hefur skitið hist og her.

Eðlilega. Um að gera að halda andliti fram á síðustu stund, sem fer nú vonandi að styttast í.

Siðblindan sem blasir við okkur í hvert skipti sem Pálmi kallinn opnar kjaftinn er þvílík að hún gæti komið hverjum venjulegum heiðarlegum Mafíósa til að roðna af skömm bara við að heyra bullið.

En áfram æðir Pálmi.

Verði honum að góðu garminum.

Þetta er maðurinn sem ætlaði að kenna upphafsmönnum flugsins að reka flugfélag.

Það varð brotlending. Sosum engin furða, þegar pjakkar sem eru stútfullir af hugmyndum um eigið ágæti ,gleyma göllunum og fara á flug.

Mér kemur helst í hug gríska goðsögnin um Íkarus sem flaug of nálægt sólinni. Allir vita hvernig sú ferð endaði.

Pálmi er á sömu leið.

Þrátt fyrir kæru(r) á hendur fjölmiðlafólki þá veit almenningur hvert stefnir og ég skal alveg viðurkenna að þó ég telji mig ekki blóðþyrstan þá myndi ég ekki kippa mér upp við að sjá mannfj...... hengdan upp í hæsta gálga, væri jafnvel til í að kippa í spottann,ásamt meirihluta íslensku þjóðarinnar.

 Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Afþakkaði gjafabréf í Útsvari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinnaskipti?

Ég er búinn að kynnast alveg yndislegri konu.

Hún er smá ákveðin en það venst örugglega. Vona ég.

Hér er smá sýnishorn af samræðum okkar.

Jökull, þú varst búinn að lofa  að ryksuga.

"Já en...

Þú ætlaðir líka að skúra stigaganginn og vaska upp og setja í þvottavélina og...

"Já en...

Þú ætlaðir líka að skipta á rúmunum og sækja málningu á stofuna...

"Já en...

Jökull!!! Ég er búin að eyða deginum í að kenna grislingum að syngja, krökkum sem hafa engan áhuga á að læra og þegar ég kem heim þá finnst mér alveg lágmarkið að þú sért þó búinn að læra nóturnar sem ég setti þér fyrir.

Þegar hér var komið sögu ákvað ég að halda kjafti og klára að ryksuga já og skúra stigaganginn.

Hver veit, kannski tek ég mig saman og fer að rifja upp nóturnar.

Allt fyrir friðinn.

Þar til næst.

 

 

 


Kemur þetta nokkrum á óvart?

 

Allavega ekki mér. Þetta er bara ein af mörgum þeim fréttum sem dynja á okkur daglega. En ósköp finnst mér nú hlutirnir ganga seint fyrir sig. Á meðan við bíðum-og bíðum- eftir frekari aðgerðum þá virðist ekkert gerast annað en að einn útrásarvíkinganna sportar nú á Audi sportbíl upp á litlar seytján milljónir króna.

Hvaðan skyldu nú aurarnir hafa komið ?

Fréttir sem þessar eru reyndar orðnar hluti af okkar daglega lífi, smá svindl hér, smá þjófnaður þar, ekkert til að kippa sér upp við.

Mikið yrði nú samt ánægjulegt að fá frétt eins og að einn og einn útrásarvíkingurinn hefði loksins verið sóttur til saka og yrði látinn borga sína skuldaskömm í stað þess að velta því yfir á okkur óbreytta sem sitjum og blásum í kaun, því húshitunarkostnaður hefur hækkað upp úr öllu valdi síðan 2007, og maður kyndir ekki þegar enga olíu er að fá á fjandans ofninn.

Svo ekki sé minnst á rafmagnskostnaðinn.

Í onálag er verið að fresta útgáfu "svörtu skýrslunnar," einu sinni enn. Ég spyr sjálfan mig stundum hvað valdi, því varla halda þau í rannsóknarnefndinni að íslenska þjóðin þurfi að læra að lesa áður en skýrslan kemur út, og ekki þarf að bera við viðkvæmni því ég minnist þess þegar formaður áðurnefndrar nefndar kom fram í sjónvarpi og grét krókódílstárum yfir viðbjóðinum sem skýrslan ku búa yfir.

Nú er að bíða og sjá hvort verið er að skrúbba einhversstaðar og með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni,

og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Rannsakar 20 aflandsfélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband