Sona sitt af hverju.

Enn heldur sandkassaleikurinn hjá háttvirtum þingmönnum okkar áfram. Nú bítast þeir á Einar K. Guðfinnson og Össur Skarphéðinsson um hvussu beri að túlka ályktun meirihluta utanríkismálanefndar, og eins og okkur Íslendingum einum er lagið þá ganga hártoganirnar á víxl. Ég sem var svo einfaldur að halda að nú á krepputímum gætu öll dýrin í skóginum verið vinir og hjálpast að og fundið lausn á okkar vandamálum. Áður en byrjað er að þjarka um utanríkismálin.

Vissulega eru það hörmulegir atburðir sem áttu sér stað í gærmorgun þegar Ísraelsmenn, í skjóli "stóra bróður," þóttust vera að verja sig gagnvart hryðjuverkamönnum sem voru jú þrælvopnaðir lyfjum og öðrum nauðsynjum til hjálpar þurfandi palestínskum konum og börnum.

Einhverjir ku hafa verið vopnaðir bareflum og teygjubyssum.

Einar K. heldur því fram að sú krafa að opna verði án tafar fyrir flutninga á hjálpargögnum til Gasasvæðisins stangist á við ályktun meirihluta utanríkismálanefndar. Hvaðan hann hefur þær upplýsingar er mér óskiljanlegt því hvergi nokkurs staðar hefur verið minnst á slíkt í fjölmiðlum.

Enn bætir Einar í seglin og kveður upp þann úrskurð að meirihlutinn hafi ekki kosið að taka undir undir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í nótt  sem meðal annars fól í sér kröfu um tafarlausa alþjóðlega rannsókn á árásinni í gær.

Þá vitum við það. Svona hjali hljóta allir að vísa til föðurhúsanna.

Hvað varðar pólitíkina þá vita allir að þeir sem unnu voru fjórflokkarnir - þrátt fyrir tap - hérumbil allsstaðar. Óþarfi að hafa fleiri orð um það.

Hér er svo frétt sem kom mér þægilega á óvart en lestur "Skýrslunnar" gæti fengið Grímuna, sem fyrir þá sem ekki vita, eru verðlaun sem úthlutað er einu sinni á ári fyrir þá sýningu sem áhorfendum finnst bera af.

Það skyldi þó aldrei fara svo.

Svona rétt í lokin er svo frétt frá Noregi sem sýnir okkur að aldrei er nógu varlega farið. Um er að ræða húsið sem hvarf til himins og mín fyrsta hugsun var: Djöf...... hefur landinn verið sterkur, en húseigandinn hafði víst verið að framleiða dýnamít sem ku vera löglegt í Noregi. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni í hvaða tilgangi flugeldarnir voru framleiddir.

Kveð ykkur að sinni og minni á að þrátt fyrir allar hrakspár heldur ísl. krónan áfram að styrkjast og það án inngripa Seðlabankans.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Að loknum kosningum.

Það má með sanni segja að skjótt hafi skipast veður í lofti í íslenskum stjórnmálum sl. sólarhring þegar gamalreyndir stjórnmálamenn urðu, og gerðu sig að fíflum og "fíflin" urðu, flestum að óvörum og þá kannski sjálfum sér mest , að stjórnmálamönnum.

Viðbrögð formanna fjórflokkanna eru með ólíkindum.  Sigmundur Davíð sagði að flokkurinn hefði víða um land unnið stórsigra. Eins og hans er von og vísa þá forðast hann að fara út í smáatriði og nefnir ekki hvort stórsigrarnir hafi átt sér stað í Surtsey eða Kolbeinsey. Ætlar strákskömmin aldrei að vitkast?

Ekki tekur betra við þegar Engeyjarguttinn Bjarni Ben. opnar hvoftinn og segir að úrslitin í Reykjavík séu ekki áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn. "Það eru vinstri flokkarnir sem eru að stórtapa í þessum kosningum."

Það eru greinilega engin takmörk fyrir vitleysunni. Sem sagt, allir hrósa sigri nema kannski Jón Gnarr sem stendur með pálmann í höndunum og gefur fjórflokkagenginu langt nef. Sem var löngu tímabært.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í náinni framtíð en þar sem ég hef staðið kosningavöku nú í mun lengri tíma en ég ætlaði mér þá læt ég ykkur góðu lesendur það eftir
því nú ætla ég að fara að halla höfði. Kveð ykkur að sinni og þar til næst.

 

 


Af feluleik, forgangsröðun o.fl. djúsí.

Býsna fróðlegt að fylgjast með styrkveitingum til stjórnmálamanna vorra. Minnir smá á ameríska  kerfið þar sem þeir sem mest fjármagnið hafa millum handanna komast til metorða þegar hinir hverfa í gleymskunnar djúp.

Undarleg finnst mér þessi leynd sem virðist hvíla yfir upphæð styrkjanna til nokkurra af okkar ástkæru stjórnmálamönnum, minnir ögn á feluleikinn sem við vinirnir  fórum í sem börn þó svo hann væri annars eðlis.

Gísli Marteinn ber við önnum og gleymsku enda upptekinn af því að mennta sig í Edinborg á okkar kostnað. Kommon Gísli, það eru liðin fjögur ár. Svo langan tíma tók námið ekki.

Frá hinum heyrist ekki bofs og samkvæmt íslenskri hefð næst ekki einu sinni símasamband við þá.

Guðlaugur Þór Þórðarson þáði 24,8 milljónir  í styrki fyrir þingkosningarnar 2007. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðunar þáði enginn hærri styrki en hann.
 Í Kastljósi 4. maí sagðist Guðlaugur ætla að upplýsa hverjir styrktu hann og birta það „mjög fljótlega."

Svo við snúum okkur að samgöngumálum þá kíkti ég á síðu Vegagerðar innar og trúði varla mínum eigin augum. Getur það virkilega verið að nú eigi að fara að bora í gegnum Vaðlaheiðina?

Ókei, ókei. Ég veit að bæði getur Vaðlaheiðin verið þungfær að vetri til og líka að leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur styttist um 15,5 kílómetra en fyrr má nú vera. Mér koma í hug orð eins færeysks vinar míns, skömmu eftir að ég flutti til Færeyja árið 1990. "Við máttum ekki sjá hundaþúfu án þess að bora í gegnum hana." Áfram hélt hann og sagði mér frá einni af smærri eyjunum, minnir það hafi verið Skúvoy, en þar voru boruð fimm göng.

Síðan hefur sú eyja verið kölluð "Blokkflautan."

Áfram með smjörið. Gamlir og úr sér gengnir malarvegir eru eini samgöngumátinn milli smærri byggða t.d. á Vestfjörðum og samkvæmt niðurskurðaráformum verður frekara viðhaldi ýtt út í horn því það þarf að bora!

Hvað Vaðlaheiði snertir vil ég benda þeim sem ekki þekkja til að hún er í kjördæmi samgöngumálaráðherra okkar.

Ummæli vikunnar eru án efa orð Ólafar Nordal í þætti á ÍNN þar sem hún sagði: „Við vitum það auðvitað, við höfum farið yfir það áður, að þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið“.

Í sama þætti féllu önnur ummæli sem að mínu mati eru ekki síðri en þar segir Guðlaugur Þór Þórðarson orðrétt: „Íslensk þjóð hefur ekki efni á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái skell í þessum kosningum."

Ég hef grun um að hvorugt þeirra ríði feitum hesti frá þessum kosningum og svona rétt í lokin vil ég sem landsbyggðarmaður þakka fráfarandi borgarstjóra fyrir vel unnin störf því alþjóð veit að Hanna Birna er bæði heiðarleg og eldklár, en það kemur maður í manns stað. Með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni og sný mér að öðru sem þessa stundina er mér hugleiknara en allt sem viðkemur kosningunum en það er að uppræta njólann úr garðinum. Vonandi tekst jafnvel að uppræta þessa landlægu spillingu sem alltof lengi hefur tröllriðið húsum hérlendis.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


Próflok = Sumarfrí !

Smile Jebb, það er loksins komið að langþráðu fríi. Mér tókst að klóra mig í gegnum lokaprófið. Þriggja tíma törn í íslensku.

Talandi um þrjá tíma, ég ráðlegg öllum sem eiga eftir að standa í slíku að fá sér ALLS EKKI kaffi áður en hafist er handa. Það getur haft í för með sér mjög svo, hmm, óþægilega líðan því pásan er engin. Nú er ég sem sagt kominn í sumarfrí - fram að stærðfræðinni sem er minn veiki punktur - en ég ætla ekki að fara að eyðileggja daginn með því að hugsa um hana.

Ég var að renna augunum yfir fréttir síðustu daga og komst að raun um að það hefur verið ósköp tíðindalítið og  friðsælt undanfarið. Einhverjir góðkunningjar lögreglunnar voru teknir með þýfi í stolnum bíl og í annarlegu ástandi. Ekki fylgdi sögunni hvort bílstjórinn hefði verið próflaus líka.

Svo var verið að banna auglýsingar um 100% örugga ávöxtun. Í greininni koma þessi tvö litlu orð "ákveðin gengisáhætta" fyrir sem ekki eru í auglýsingunni. Æ, ekki aftur, hugsaði ég bara. Svo kom þessi hefðbundna frétt um skattsvikara sem fékk tæpar 35 millur í sekt og smá skilorð en bara 6 mán. fangelsi verði sektin ekki greidd. Hann fer sem sagt á biðlistann og í framhaldi af því vil ég enn og aftur viðra hugmynd mína um öryggisfangelsi á Víðilæk í Borgarbyggð. Nú er Siggi kallinn Einarsson byrjaður að láta innrétta kofakrílið sitt ( hann ku eiga það enn) og þar sem hann er svo forsjáll að hafa skothelt gler í gluggum þá þarf ekki að eyða vandfundnum aurum í rimla. Kallinn skuldar íslensku þjóðinni örugglega meira en andvirði sumarhússins.

Fréttin sem toppar svo allt er um veðsetninguna á húsinu í Grjótaþorpi sem nú er veðsett upp í rjáfur og gott betur. Enn kemur Kaupþing við sögu.

Hvuddnin skyldi annars standa á því að hús sem fært var Reykjavíkurborg að gjöf hafi lent í höndum Baugsmanna?

Hver tók ákvörðun um söluna ?

Já, þær eru margar spurningarnar sem kannski fást aldrei svör við. Kveð ykkur að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 


Vikan sem leið.

Ekki dró til neinna stórtíðinda en þó voru nokkrar smáfréttir sem vöktu athygli mína.

Hér segir af Jóni nokkrum Ásgeiri Jóhannessyni. Fyrstu viðbrögð hans eftir að honum var birt stefna slitastjórnar Glitnis voru uppgjöf. Drengurinn bar við blankheitum og því gæti hann ekki varist í málinu, enda myndi það kosta gríðarlega háar fjárhæðir en skjótt skipast veður í lofti. Nú hefur hann ákveðið að snúa vörn upp í sókn.

Hvaðan skyldi stráksi, sem varla hefur efni á diet kók fá aura upp í málskostnað sem hlaupið gæti á tugum, ef ekki hundruðum milljóna?

Sigurður Einarsson situr sem fastast í húsinu sínu (?) í Chelsea, setur skilyrði og gefur íslensku þjóðinni langt nef. Ég var að velta fyrir mér hvort sumarbústaðurinn hans þarna á Veiðilæk í Borgarbyggð væri orðinn fokheldur. Fékk nebbnilega þessa fínu hugmynd. Slíkt gerist stundum með hækkandi sól. Þar sem húsið ku vera liðlega 700 fermetrar væri hægt að innrétta fangelsi fyrir allt að, ja, 30-40 vistmenn og grynnka á þeim fjölda sem bíður afplánunar og hver veit nema Siggi garmurinn komi sjálfur til með að gista þar. Væri vel við hæfi. Nú ríður á að hafa hraðar hendur því ekki er hægt að byrja að innrétta fyrr en búið er að hirða kofann af kallinum.

Nú vilja óprúttnir og illa innrættir aðilar selja auðlindir okkar útlendingum í þeim tilgangi að mér virðist til að byggja álver. Eitt enn. Undarleg er áráttan mannskepnunnar að horfa til orkufrekrar stóriðju þó á móti blási. Atvinnuleysi er mikið og byggingaframkvæmdir krefjast margra handa en þegar upp er staðið skilar álver tiltölulega fáum störfum. Bendi öllum eindregið á að lesa síðu Ómars Ragnarssonar en þar kemur margt fróðlegt fram.

Svona rétt í lokin vil ég koma því á framfæri við þá sem hafa verið að hnýta í mig út af hárlubbanum að klipping er ekki á fjárlögum öryrkjans en þar sem litli bró er þvílíkur snillingur í rúningi með rafmagnsklippum, eins og sást á mínum haus og annarra hér áður fyrr, hef ég ákveðið að hinkra þar til hann flyst ásamt fjölskyldu aftur til Íslands, að ári.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Nú skal spara.

Eins og flestir hljóta að gera sér grein fyrir þá ríkir hér kreppa. Hef reynt það sjálfur á mínu auma skinni.

Fjármálaráðherra vill spara og telur eðlilegast að byrja efst. Heyrst hefur að spara megi allt að 360 milljónum króna við sameiningu ráðuneyta sem er að mínu mati hið besta mál. Þeim fækkar þá vonandi spenatotturunum.

Félagsmálaráðherra boðar nú niðurskurð upp á 40 milljarða sem samkvæmt eðli málsins bitnar á þeim sem síst mega sín. Hann segist reyndar vona að ekki þurfi að skera niður um meira en 6%,   en þá þurfi annar hluti ríkisrekstrarins að bera 9%.

Þar er ég með margar góðar hugmyndir sem margir bloggarar hafa reyndar viðrað á síðum sínum.

Við byrjum á að skera meira niður í utanríkisráðuneytinu.

Sendiherrabústaðurinn í New York var seldur s.l. ár fyrir liðlega hálfan milljarð. Á móti kemur leiga á húsnæði upp á ca. 27 milljónir á ári, en betur má en duga skal. Við dvergþjóðin erum með sendiráð á öllum Norðurlöndunum sem er að mínu mati flottræfilsháttur af svæsnustu sort. Minnir smá á 2007. Ef ráðamenn hugsa nú dæmið til enda hljóta þeir  (vonandi) að koma auga á veruleikafirringuna og leggja þau niður. Ræðismannsskrifstofur gera sama gagn. Til greina gæti komið að halda sendiráðinu í Danmörku opnu svona til að sýna lit.

Níu starfsmenn hjá utanríkisráðuneytinu starfa þar með sendiherratitil og þiggja laun samkvæmt því. Tveir þeirra hafa aldrei starfað á erlendum vettvangi. Laun þeirra kosta íslenska ríkið tæpar sjötíu og fjórar milljónir króna á ári.

Það má spara víðar, t.d. að skera fjárframlög hins opinbera til stjórnmálaflokkanna niður um helming. Ef það hefur í för með sér að einhverjir verði að sleppa framboði þá geta þeir bara setið heima. Hér ríkir jú kreppa!

Síðast en ekki síst, og þar kem ég örugglega við kaunin á mörgum fyrrverandi og núverandi stjórnmálamönnum, þá þarf að taka til endurskoðunar eftirlaun og hlunnindi þessa hóps, sjálftekin eður ei.

Þráinn Bertelsson hefur lagt fram skínandi tillögu um endurskoðun eftirlauna og hlunninda þeirra sem rannsóknarnefnd Alþingis telji hafa sýnt vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins og spyr  hvers vegna þetta fólk eigi að þiggja margföld sjálftekin eftirlaun úr vasa fólksins í landinu, sem núna líði sárlega fyrir afleiðingar gerða þeirra.

Brilljant spurning en ég reikna með að málið verði svæft. Er það ekki hefðin?

Með öllum þessum jákvæðu hugleiðingum kveð ég ykkur að sinni og þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


Skammt stórra högga á milli.

Áfram berast oss fregnirnar.

Samkvæmt bloggfærslum og athugasemdum hist og her hljóta þær að teljast jákvæðar. Að vísu hefur sig í frammi tiltölulega fámennur hópur manna, með tilheyrandi orðskrúði og bumbuslætti, og fer mikinn með yfirlýsingum um ofsóknir, vanþekkingu og slúðurstefnu. Er öllum meðulum beitt t. d. fjölmiðlum í einkaeign, PR-fulltrúum og lögfræðingum, og jafnvel hótað málssókn. Reyndar eru þeir til sem ekki finnast.

Mér segir svo hugur að nú þurfi að byggja og það stórt. Þar kemur aftur upp gamla vandamálið. Það kostar. Þegar rætt er um allt að því óviðráðanlegan byggingarkostnað "öryggisfangelsis" tel ég mig, að vandlega íhuguðu máli, hafa fundið lausn á vandanum. Það finnast örugglega vinnubúðir hingað og þangað sem standa ónotaðar ( Kárahnjúkabúðirnar?) og mætti notast við svo fremi sem þær halda vatni og vindum. Það er jú lakur skúti sem ekki er betri en úti.

Kostnaðarhliðin yrði hins vegar girðingin umhverfis hótelið sem þyrfti ekki aðeins að varna væntanlegum gestum "útrásar" heldur líka þeim sem hygðu á "innrás" því eins og alþjóð veit þá er biðlistinn langur og væntanlega finnast þeir sem telja sig öruggasta innan girðingar. Hafa sosum almenningsálitið ekki beinlínis með sér.

Slíkr hótel yrði að sjálfsögðu staðsett á (fyrrverandi) bújörð einhvers "útrásarvíkingsins" og þar sem línan í dag er að hafa allt sjálfbært mætti huga að garðyrkju og þegar fram í sækir jafnvel sauðfjárbú og hver veit nema kúabú skyti svo upp kollinum. Fátt er jafn búsældarlegt og ilmurinn af mykjunni þegar nýbúið er að bera á túnin.

Í þeirri von að ráðamenn gjaldþrota þjóðarbús taki þessar hugmyndir til athugunar kveð ég að sinni og þar til næst.

 

 

 


Nú er að láta hendur standa fram úr ermum...

...og byrja að byggja.

Oss hafa jú borist fregnir úr búðum yfirvalda að nú sé (loksins) byrjað að grisja skóginn.

Af nógu ku vera að taka.

Tvær handtökur munu vera rétt dropi úr hafsjó þess fjármálafyllerís sem hér ríkti alltof lengi og ríkir kannski enn.

Hver veit?

Ég tek ofan fyrir sérstökum saksóknara. Hann hefur sýnt og sannað að hann er starfi sínu vaxinn þrátt fyrir hrakspár hér í Bloggheimum. Ég hef grun um, þegar upp er staðið, verði hann sæmdur Fálkaorðunni sem hann á fyllilega skilið.

Svo fremi við verðum búin að fá nýjan forseta því það fer ekki  saman að æðsti maður þjóðarinnar,sem hengdi orður um háls "útrásarvíkinganna," sæmi svo þann mann, sem er á góðri leið (mjög góðri) með að fletta ofan af áðurnefndum víkingum, sama heiðursmerki.

Þar sem allar líkur benda til þess að væntanlegur hótelgestum hins opinbera fari fjölgandi á næstu misserum vil ég enn og aftur benda á þá leið sem ég tel farsælasta og ódýrasta.

Það mætti slá tvær flugur í einu höggi. Byggja öryggisfangelsi og virkja um leið væntanlega gesti í byggingarvinnu, launalaust að sjálfsögðu því það myndi létta á syndabagganum og byggja upp góða heilsu, (útivinnan eins og þið vitið), framkvæmdir myndu ganga fljótt og vel fyrir sig og launakostnaður yrði nálægt núllinu því nægjanlegt framboð yrði á verkamönnum ef nota má svo ófínt orð um þá höfðingja sem þar myndu leggja hönd á plóginn.

Það liggur í augum uppi að þessir "höfðingjar" yrðu að fá að búa útaf fyrir sig því þeirra gjörðir koma hverjum einasta heiðarlegum skinkuþjófi til að sárskammast sín, eins og vinur minn Breiðavíkurdrengurinn Lalli Jones kvað upp með, hérna um árið : "Ég vil ekki sjá þessa gúbba nálægt mér. Ég stel oní mig að éta og stundum líka til að fá að halda jólin á Hrauninu. Það er betra en að liggja úti." Ég trúi orðum Lárusar því við kynntumst vel þegar við unnum saman fyrir ca.  aldarfjórðungi í fiski hér fyrir "westan."

Nú leikur mér hugur á að vita hvort búið sé að teikna hótelið eða hvort stjórnvöld ætli að draga lappirnar í þeim málum eins og mörgum öðrum.

Þætti vænt um ef einhver lesandinn gæti frætt mig um slíkt.

Þar til næst.

 

 

 

 

 


mbl.is Hreiðar Már í skýrslutöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju -öreigar í öllum löndum.

Því 1. maí er eini dagurinn sem við fáum að rífa kjaft án þess að lenda í tugthúsinu, með nokkrum undantekningum þó.

Ég bý úti á landi þannig að ég hef fylgst þess meir með útvarpinu. En mikil ósköp. Það sem ég hef heyrt í dag er nákvæmlega það sem ég hef heyrt undanfarna áratugi. Menn berja í púltið og æpa sig hása en þegar upp er staðið er útkoman sú sama og áður, ræðumaður liggur heima næsta dag, þegjandi hás og ruslaralýðurinn, afsakið, ræstitæknarnir þrífa upp sorpið á Austurvelli.

Þar eru allar blöðrurnar sprungnar.

Það hefur reyndar eitt og annað borið á góma síðustu daga, t. d. þegar talað er um skerðingu á lífeyri til óbreyttra þá, eins og gefur að skilja, er ekki ýjað að því einu orði hversu mikið laun stjórnarmanna lífeyrissjóðanna skerðast.

Eru þeir ekki flestir eða allir á mála hjá vinnuveitendunum?

Athyglisverð er klausa sem ég las í stjórnarskrá Gildis , en þar segir:

"Hlutverk lífeyrissjóðs er að tryggja sjóðfélaga sína, maka þeirra og börn í framtíðinni samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins ."

En: Lífeyrissjóðurinn Gildi ætlar að leggja til við ársfund sjóðsins að réttindi sjóðsfélaga verði lækkuð  um 7% í ár. Ekki er nema ár síðan réttindi sjóðsfélaga voru lækkuð um 10%.

Nú já.

"Staða sjóðsins er innan þeirra marka sem bráðabirgðaákvæði laga um lífeyrissjóði setur og því er ekki skylt að breyta réttindum sjóðsfélaga. „Það er hins vegar markmið að reka sjóðinn þannig að staða hans sé sem næst því að vera í jafnvægi."

Var verið að bruðla með iðgjöld sjóðsfélaga?

"Á ársfundi Gildis – lífeyrissjóðs í fyrra var samþykkt tillaga stjórnar sjóðsins um að áunnin réttindi sjóðfélaga yrðu lækkuð um 10%. Réttindin voru hins vegar hækkuð um 10% árið 2007 og 7% árið 2006. Sú hækkun hefur því að fullu gengið til baka."

Þarna er kattarskömmin greinilega að klóra yfir kúkinn úr sér.

Nei góða fólk.  1. maí er ekkert annað en kærkominn frí(og fyllerís) dagur svo öreiginn geti lifað í þeirri blekkingu að hann sé einhvers virði.

Svona mætti lengi telja, en þar sem daginn "okkar" ber upp á laugardag þá býst ég við því að þjóðin sé dottin í það svo það má þá kannski rifja pistilinn upp að ári.

Ég óska öreigum allra landa til hamingju með daginn og elskurnar mínar, gangið hægt um gleðinnar dyr því á mánudaginn kemur ofur venjulegur vinnudagur , á venjulegum launum svo það er eins gott að hafa radarinn í lagi.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Það er af sem áður var.

1332-how-ironicHvaða heilvita maður skyldi nú trúa orði af því sem frá Björgólfi jr. kemur?

Elli og örorkulífeyrisþegar?

Ég efa það stórlega. Mín fyrsta hugsun, eftir að hafa lesið "afsökunarbréfið" var að maðurinn hlyti að hafa alveg einstaklega pennafæran PR-fulltrúa. Það þarf sterkan maga til að melta allar þær "afsökunarbeiðnir" sem á okkur dynja þessa dagana sem ,ef grannt er að gáð, eru bæði hjáróma og innantómar.

Í stað þess að stíga fram og viðurkenna afbrot sín og virða svo fyrir sér útsýnið í gegnum rimla er gripið í síðasta hálmstráið. Sem mér er til efs að nokkur maður trúi.

Kannski á þessi afsökunarbeiðni, ásamt öllum öðrum, rætur sínar að rekja til ummæla Evu Joly þegar hún hvatti "útrásarvíkingana" til að stíga fram, viðurkenna yfirsjónir sínar og gerast samvinnuþýðir. Hver veit. Það myndi spara tíma, fjármuni og síðast en ekki síst, þá fyrst yrði þjóðin tilbúin að fyrirgefa. Þangað til verða þessir menn útlagar í eigin landi sem varla getur talist fýsivert.

Eftir nokkra daga verða fyrstu ákærurnar frá embætti sérstaks saksóknara lagðar fram. Það er bara byrjunin. Svo skellur holskeflan á.

Svo ég vitni í orð Evu Joly þá verður hægt að hundelta þessa menn út um allan heim og bara tímaspursmál hvar og hvenær þeir nást.

Er þá ekki skynsamlegra að ganga að samningaborðinu?

Dæmi hver fyrir sig.

Og, að lokum, megi hið nýja og óspillta Ísland lifa sem lengst.

Þar til næst.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Skilur réttláta reiði almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband